Húsnæðisstofnun ríkisins
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég verð að leyfa mér að óska eftir því að alþingismenn fái skriflegar skýringar um ríkisábyrgð á húsbréfum. Það er verið að deila um það hér í þinginu hver þessi ríkisábyrgð sé, hvort það sé ríkisábyrgð eða ekki. Það verður náttúrlega að taka af öll tvímæli. Það urðu miklar deilur um Atvinnutryggingarsjóð, hvort það væri ríkisábyrgð á þeim skuldabréfum, og lengi vel þrjóskuðust menn við að þetta væri allt í fína lagi, en svo kom það bara í ljós að það var alls ekkert í lagi. Svona vinnubrögð ganga ekki á hinu háa Alþingi, að það sé verið með einhver hroðvirknisleg vinnubrögð sem þurfi síðan að vera að lagfæra.
    Í lögum nr. 37 frá 1961 um ríkisábyrgðir stendur í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta: ,,Ríkissjóður má aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar nema heimild sé veitt til þess í lögum.`` Þetta er ekkert flókið orðalag. 2. gr.: ,,Ríkissjóður má ekki ganga í sjálfskuldarábyrgð nema slíkt sé sérstaklega ákveðið í lögum þeim sem ábyrgð heimila.``
    Það er alveg ljóst að það verður að vera í lögum um húsbréf að það verði að vera á þeim ríkisábyrgð. Það verður að vera í lögunum ef það á að vera gilt.
    Ég verð því að óska eftir því að við fáum á þessu fullnægjandi skýringar. Eins mætti spyrja að því hvort Alþingi sé heimilt að framselja ríkisábyrgðarheimild til Húsnæðisstofnunar. Það verða að vera einhver takmörk á því held ég.
    Mér hefur sýnst upp á síðkastið í umræðum á Alþingi að löggjafarvaldið verði að taka rækilega til endurskoðunar öll samskipti við framkvæmdarvaldið. Alþingismenn eiga alls ekkert að vera einhverjar tuskudúkkur hjá framkvæmdarvaldinu sem rétta upp hendi þegar framkvæmdarvaldinu þóknast. Það stendur hvergi í stjórnarskránni að svo skuli vera. Það er kominn tími til þess að spyrja líka að því og kafa ofan í það: Hvers vegna er alltaf slík hrikaleg óstjórn í peningamálum hérna á Íslandi? Þegar frv. eins og húsbréfafrv., sem auðvitað hefur mikil áhrif á peningakerfið, kemur fram hlýtur að þurfa að vanda vinnubrögðin. Er ekki einmitt skýringin á óstjórninni í peningamálum þessi hroðvirkni alltaf og göslaragangur? Hvers vegna eyðir framkvæmdarvaldið alltaf miklu meira á hverju ári en Alþingi hefur leyft? 8 milljarðar á síðasta ári? Hvers vegna er þetta gert? Alþingismenn fá ekkert að vita fyrr en mörgum mánuðum eftir á. Í september síðast átti að vera 600 millj. kr. hagnaður. Svo hækkaði hallinn um 1 milljarð í hvert skipti sem hæstv. fjmrh. opnaði munninn fyrir áramót og endaði síðan í 8 milljarða gati. Hvers vegna eru svo höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar allir að verða gjaldþrota? Er það ekki af sömu ástæðu, hroðvirkni og agaleysi hjá framkvæmdarvaldinu? Það er bara eytt og sóað og gengið í höfuðstóla höfuðatvinnuvega þjóðarinnar.
    Ég hef áður rukkað eftir því að það vanti umsögn Seðlabankans um þetta frv. Það er ekkert skriflegt álit til frá Seðlabanka Íslands um hver áhrif húsbréfakerfið hefur á peningamarkaðinn. Samkvæmt lögum um

Seðlabankann er það hlutverk bankans að annast slíkt fyrir ríkisstjórnina.
    Ég held að það þurfi enga sérfræðinga til að svara því hvort það hefur þensluáhrif á fasteignamarkaðinn ef á að minnka lánstímann úr 30 mánuðum niður í eitthvað styttra. Auðvitað hefur það þensluáhrif á peningaframboð og hækkun vaxta á hinum almenna markaði ef það á að fara að dæla meiri peningum út úr kerfinu með valdboði. Það er augljóst. Það eru ekki hagsmunir fólksins í landinu sem ætlar að fara að byggja að það sé mokað peningum með einhverjum göslaragangi út úr þessu kerfi þannig að verðbólgan fari á fulla ferð. Eru það hagsmunir fólksins sem er að byggja þannig að þeir sem eru búnir að fá lán lendi í hrikalegum vandræðum? Það verður að gera þetta þannig að hagsmunir heildarinnar séu hafðir að markmiði.
    Ég verð að ítreka að við fáum fullnægjandi skýringar um ríkisábyrgð á þessum húsbréfum og enn fremur þurfum við að fá skýringar á því hvort Alþingi er heimilt að framselja ríkisábyrgðavald til Húsnæðisstofnunar þar sem hægt er að fá stimpluð húsbréf við sölu hjá ríkinu. Er það leyfilegt? Þetta eru grundvallarspurningar. Og svo vantar skriflegt álit hjá Seðlabankanum. Þetta þrennt hefði ég viljað sjá hér á hinu háa Alþingi áður en þetta frv. er afgreitt.