Húsnæðisstofnun ríkisins
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Frsm. 3. minni hl. félmn. (Alexander Stefánsson):
    Herra forseti. Ég þakka tilhliðrunarsemi.
    Út af því sem hér hefur komið fram vil ég aðeins segja að eins og kom fram sl. nótt rakti ég skilyrði Framsfl. um 10% og þarf ekki að orðlengja það. Túlkun félmrh. er allt önnur eins og hér hefur komið fram. Hún taldi að lífeyrissjóðirnir hefðu frelsi umfram kaupskyldu með ríkisábyrgð. En ég flutti á þskj. 1156 brtt. sem ætti að taka af allan vafa um þetta til að fullnægja skilyrði minna flokksfélaga og geri tilraun til að rétta hlut þingflokksins í hans samþykkt.
    En þar sem starfandi forsrh. hefur gefið afdráttarlausa yfirlýsingu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um að þessi fjárhæð sé miðuð við 1750 millj., sem er sú tala sem þessi 10% kaupskylda gerir ráð fyrir, vil ég lýsa því yfir að þar með er túlkun félmrh. ógild og raunar fleipur eitt. Orð starfandi forsrh. taka af öll tvímæli hvað þetta varðar. Að þessum orðum sögðum tel ég ástæðulaust að flytja þá brtt. sem ég hef hér lagt fram og dreg hana hér með til baka.