Húsnæðisstofnun ríkisins
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Það hefur verið sýnt fram á í þessari umræðu með ítarlegum rökum að hér er ekki á ferðinni það húsbréfakerfi sem upphaflega var lagt upp með í þeirri milliþinganefnd sem starfaði á síðasta sumri. Við sjálfstæðismenn viljum að þetta mál verði athugað miklu nánar þannig að unnt sé að koma sér niður á grundvöll fyrir eðlilegu húsbréfakerfi á einhverjum hluta lánamarkaðarins. Þetta frv., í því skötulíki sem það er nú og með þeim breytingum sem á því hafa verið gerðar, tel ég að sé mjög varhugavert. Það er rétt að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar til frekari athugunar og ég segi já.