Húsnæðisstofnun ríkisins
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Ákveðið er að fresta gildistöku laganna til 15. nóv. nk. og skipa milliþinganefnd sem fer væntanlega ofan í mörg þau vafaatriði sem vissulega eru í þessu frv. og ég treysti því að hún fari rækilega ofan í þau. Ég vil segja það að þeir aðilar sem hafa varað við eða snúist gegn þessu frv. eru í mínum huga mjög marktækir og ég treysti því að milliþinganefndin brjóti málið til mergjar og ef á þarf að halda gefist kostur á að breyta lögunum í upphafi næsta þings. Svo vona ég vissulega að það gerist aldrei aftur í þingsögunni að ráðherra hóti þinginu. Það eru vissulega vítaverð vinnubrögð sem ber að harma í átökum um þetta mál.
    Ég vil að lokum segja að ég er ekki nauðugur þegar ég samþykki þetta frv. vegna yfirlýsingar hæstv. starfandi forsrh. fyrr í dag og svo treysti ég því að hinir hæfustu menn muni starfa í milliþinganefndinni, það verði ekki laxveiðimenn eða dellumenn, það verði menn sem verði að störfum þetta sumar til að skoða mörg þau vafaatriði. Í ljósi þess segi ég já við þessa atkvæðagreiðslu.