Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að flytja hér langa ræðu en langar þó að leggja nokkur orð í belg þar sem þetta hefur verið sérstakt áhugamál mitt, þ.e. viðhald gamalla húsa og aðgerðir til þess að tryggja það að húsakostur landsmanna, sérstaklega menningarbyggingar, drabbist ekki niður eins og því miður hefur viljað við bera og þarf ekki annað en að nefna Þjóðleikhúsið í því sambandi. Sú bygging mun nú nánast ónýt talin þrátt fyrir það að hún er ekki öllu eldri en sem nemur 40--50 árum, ég man ekki nákvæmlega hvenær bygging var hafin en það mun hafa verið á stríðsárunum.
    Það er annars einkennilegt ef farið er yfir byggingarsögu Íslendinga hvað við vorum seinir í gang að byggja varanleg hús. Það er eins og við höfum reyndar aldrei lært það. Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna það gerðist að við byggðum engin varanleg steinhús, hvorki á þjóðveldisöld né heldur á t.d. 14. og 15. öld þegar enn þá voru hér efnamenn, höfðingjar miklir sem hefðu í sjálfu sér vel getað staðið fyrir því að byggja hér veglegar byggingar. Mig tekur sárt að hugsa til þess að í raun eiga Íslendingar engar byggingar sem vert er að nefna sem dæmi um þá menningu sem hér var við lýði á fyrstu öldum sem við byggðum þetta land. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig á þessu stendur vegna þess að nú er það vitað mál að Íslendingar gerðu víðreist þegar á söguöld, nægir t.d. að minnast á ferðir Sturlu Sighvatssonar sem fór í pílagrímsferð til Rómar. Það er alveg vitað mál að hann hlýtur að hafa sótt heim höfðingja á þeirri leið sinni og gist þar í miklum steinköstulum, bæði í Þýskalandi og víðar. Þess vegna hefur höfðingjum á Íslandi verið vel kunnugt um steinbyggingar, en það er ekki fyrr en á 18. öld eða svo að bygging steinhúsa á Íslandi er hafin. Mig minnir, ef ég fer rétt með, að það hafi verið gerð tilraun til að byggja steinkirkju að Hólum í Hjaltadal og sömuleiðis var hafin bygging steinkirkju sem reyndar var langt á veg komin á Skálholtsstað en þegar þetta er frá talið þá er það í raun og veru ekki fyrr en við byggjum fyrstu steinbyggingarnar hér á þessu svæði, það er t.d. úti á Seltjarnarnesi þar sem Nesstofan er byggð og síðar Viðeyjarstofa og svo má ekki gleyma þessu merka húsi sem við stöndum nú hér í, svo og fangelsinu á Skólavörðustíg 8. Þetta eru líklega merkustu steinbyggingar frá fyrri tímum.
    Því tek ég út af fyrir sig undir það sjónarmið sem kemur fram í þessu frv. að okkur ber með einhverjum ráðum að tryggja það að menningarsögulegum byggingum verði betur við haldið en verið hefur fram til þessa því það er, eins og ég hef þegar getið um, nánast sorglegt til þess að vita hvað við eigum fáar byggingar frá fyrri tímum. Það er líka vandræðamál að þrátt fyrir mikla byggingargleði sem má segja að hafi komist í algleymi eftir seinni heimsstyrjöldina, þá virðist ekki hafa tekist betur til en svo að þær byggingar sem við höfum reist hér á síðustu áratugum virðast því miður ekki vera varanlegri en svo að þær eru nú þegar farnar að grotna niður nokkrum

áratugum eftir að byggingu þeirra var lokið. Steinsteypan, sem átti að verða varanlegt byggingarefni --- menn héldu að þarna hefðu þeir höndlað það byggingarefni sem gæti tryggt okkur að byggingar stæðust hér hundruð ára, jafnvel árþúsundir --- hefur því miður ekki reynst varanlegri en svo að tiltölulega nýlegar steinsteyptar byggingar eru að grotna niður.
    Hins vegar er ég engan veginn sáttur við það að það skuli þurfa að leggja á sérstakan skatt til þess að þjóðfélagið og stjórnvöld geti séð sóma sinn í því að viðhalda þeim menningarsögulegum byggingum sem við eigum. Ég hefði talið það sjálfsagt að viðhald bygginga bæði á vegum opinberra aðila, sveitarfélaga og ríkis, væri viðunandi, að það þyrfti ekki að leggja á sérstaka skatta til þess. Þá hef ég líka grunsemdir um að sérstök skattlagning til þess arna geti leitt til þess að peningunum kunni að verða ,,stolið``. Það er árátta hjá ríkisvaldinu að leggja á nýja skatta til ákveðinna verkefna, svokallaða eyrnamerkta skatta, sem síðan hafa þann hvimleiða eiginleika að hverfa til annarra nota, þ.e. peningunum sem þannig nást inn er oftast varið til allt annarra hluta heldur en þeim var ætlað í upphafi. Nú er að vísu gert ráð fyrir sérstökum sjóði til þess að stuðla að verndun gamalla bygginga í eigu ríkisins svo og bygginga sem vernda þarf að mati Þjóðminjasafnsins, svo ég vitni hér í 1. gr. frv., og kann að vera að það verði eitthvað erfiðara fyrir ríkisvaldið að hlaupa burtu með fjármuni úr slíkum sjóði til annarra verkefna en ég mundi engu að síður vilja spyrja hæstv. menntmrh. hvort það sé alveg gulltryggt að ríkisstjórn hvers tíma geti ekki farið með krumlurnar ofan í þennan sjóð. Notað fjármunina til allt annarra hluta en þeim hefur verið ætlað, notað þá í hítina svokölluðu svo þannig sé að orði komist.
    Þá vekur það nokkra furðu mína að lesa bráðabirgðaskrá um helstu viðfangsefni Þjóðminjasafns Íslands á sviði varðveislu húsa sem fylgir með frv. sem fskj. Þar er hvergi minnst á ýmsar byggingar hér á höfuðborgarsvæðinu sem eru með merkustu byggingum í menningarsögulegu tilliti sem þjóðin á. Nægir þar t.d. að nefna Alþingishúsið sjálft, svo og önnur merk steinhús hér á þessu svæði sem, eins og ég sagði, eru kannski meðal merkustu bygginga sem við eigum
til. Þess vegna vekur það nokkra furðu mína að það er hvergi minnst á þessar byggingar hér í upptalningarlistanum frá Þjóðminjasafni Íslands.
    Hæstv. ráðherra gat um það að fram hefði komið sú hugmynd að það væri hægt að nota fjármuni úr þessum sjóði til nýbygginga og var þar fyrst og fremst átt við tónlistarhúsið. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra að það hefði verið rangt að vekja þar upp tálvonir þeirra sem standa að því verkefni, að með þeim hætti væri hægt að finna næga fjármuni til þess að ljúka því mikla verki sem það er að byggja tónlistarhús í nútímalegum skilningi, þ.e. miðað við þær þarfir og allan þann búnað sem fylgir slíku húsi. Ég hef reynt að fylgjast nokkuð með hugmyndum

manna um tónlistarhúsið og virði áhuga og vilja þeirra fjölmörgu aðila sem standa að því verkefni sem áhugamenn. Því miður virðist það munu vera næstum óyfirstíganlegt verkefni, a.m.k. á næstu árum og jafnvel áratugum, að við Íslendingar getum ráðist í að byggja fullkomið tónlistarhús. Þó mundi ég svo sannarlega vilja sjá að það gæti gerst og vildi fyrir mitt leyti geta hjálpað til að sá draumur yrði að veruleika að við mundum eignast fullkomið tónlistarhús. En ég hlýt að viðurkenna staðreyndir eins og þær blasa við og gera mér það ljóst að það er næsta fjarlægur draumur. Því miður.
    Ég set, eins og ég gat um, fyrst og fremst fyrir mig þessa sérstöku skattlagningu til þessa verkefnis. Ég hefði talið að það þyrfti að finna fjármuni til þess að vernda gamlar byggingar í eigu ríkisins með öðrum hætti og get ekki tekið undir með hæstv. menntmrh. að þetta sé hin rétta leið, þ.e. að leggja á sérstaka eignarskatta til þess arna. Að öðru leyti er ég sammála meginefni frv. sem er að sjálfsögðu að stuðla að verndun gamalla menningarverðmæta eins og þar kemur fram.