Framhaldsskólar
Föstudaginn 12. maí 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. skrifa ég undir álit 2. minni hl. menntmn. Ég get verið sammála öllu því sem fram kom í ræðu frsm. þess nál. Það sem við leggjum höfuðáherslu á eru þær skoðanir sem koma fram hjá Jóni Böðvarssyni í álitsgerð sem hann lagði fyrir nefndina þar sem þetta frv. er má segja hakkað niður og þar sem hann leggur áherslu á það að þau lög sem nú eru í gildi fái fyrst að njóta sín áður en þeim er breytt. En á það skal minnt hér, eins og fram kom í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e., að á síðasta þingi voru samþykkt hér framhaldsskólalög eftir mikinn barning. Það frv. sem síðar varð að lögum hafði velkst um lengi og það varð málamiðlun kennara, nemenda, skólameistara, fræðslustjóra og fleiri sem þessi málaflokkur varðar, þetta varð eins konar málamiðlun og ég held að það sé mjög óæskilegt að hrófla við þeim lögum sem nú eru í gildi, sérstaklega þegar litið er til þess að það frv. sem hér liggur frammi hefur ekki fengið þá umfjöllun sem æskilegt er að það fái. Það kemur ekki fram í frv. og var ekki heldur upplýst í nefndinni að þeir aðilar, sem stóðu að þeirri málamiðlun sem í núgildandi lögum felst, hafi barið þetta frv. augum og lagt fram athugasemdir við það. Þetta eru því mjög fljótfærnisleg vinnubrögð og ættu ekki að líðast hér á Alþingi. Þess vegna tek ég undir það sem fram kemur í áliti 2. minni hl. að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá.
    Það sem ég hef einkum að athuga við þetta frv. er það sem fram kemur í 4. gr. frv. um skipan skólanefnda, en það er verið að breyta þar 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna og vil ég leyfa mér í því sambandi að lesa upp það sem Jón Böðvarsson segir um það. Hv. 2. þm. Norðurl. e. hafði raunar gert það að einhverju leyti en ég vil, með leyfi forseta, ítreka það sem hann segir:
    ,,Fráleitt er að tveir fulltrúar starfsmanna sitji í skólanefnd og séu þannig settir yfir skólameistara. Slík tilhögun sýnist þeim mun lakari sem starfsmenn skóla eru færri. Verði þetta ákvæði frv. samþykkt hygg ég að fáir dugandi menn fengjust til þess að gegna skólameistarastarfi.
    Fyrirhuguð skipun skólanefnda er að auki hin mesta óvirðing við sveitarstjórnir. Ég tel að hvorki sveitarstjórnarmenn né almenningur geti unað því ofurvaldi starfsmanna sem í tillögunni felst. Eðlilegt er að kennarar meti allar hugsanlegar breytingar á stefnumótun og kennsluháttum með hliðsjón af hvaða áhrif breytingarnar muni hafa á kjör þeirra. Tækninýjungar og breytt starfsskipan í þjóðfélaginu kalla á framvindu í skólamálum sem hlýtur að koma mörgum kennurum illa.``
    Þetta er það sem Jón Böðvarsson segir og ég get tekið undir það sem þarna er tíundað að það sé mjög óæskilegt fyrir það fyrsta að fjölga úr fimm í sjö og svo í öðru lagi að starfsmenn skólanna komi þarna inn í og geti náð meirihlutavaldi í skólanefndunum. Það kemur síðar fram í álitsgerð Jóns Böðvarssonar að með þessu er verið að búa til eitt stjórnsýslustigið í

skólanum í viðbót. En það átti frekar að vera stefnumótandi vald eða stefnumótandi nefnd sem færi með peningamál og annað og það sem lá til grundvallar því þegar lögin voru samþykkt var að þarna kæmu inn utanaðkomandi aðilar sem hefðu tengsl úti í atvinnulífinu og sem hefðu áhuga á skólamálum, en nú er búið að eyðileggja þá grunnhugmynd sem þarna lá að baki með þessum breytingum.
    Annað er það í þessu frv. sem ég geri athugasemdir við, en það er í 9. gr. frv. um að síðari málsl. fyrri mgr. og 2. málsl. síðari mgr. 16. gr. laganna falli brott. Til þess að skýra hvað í þessu felst vil ég leyfa mér að vísa í grg. frv. en þar segir:
    ,,Hér eru felld niður þau ákvæði sem eru í lagagreininni að nemendum sé skylt að stunda fornám í einstökum námsgreinum samkvæmt námsskrá hafi þeir ekki náð tilskildum lágmarksárangri. Þetta þótti vera í ósamræmi við ákvæði greinarinnar um að allir ættu rétt til að hefja nám í framhaldsskóla sem lokið hefðu grunnskólanámi.`` Hinir svokölluðu foráfangar eða 00-áfangar, eins og það heitir í þeim skólum sem hafa einingakerfi, verða með öðrum orðum ekki til staðar lengur eða ekki skylda að hafa þá. Hins vegar er enn þá heimild fyrir slíku þannig að skólarnir geta þetta, en þegar um sparnað er að ræða í skólakerfinu þá verður þetta mjög líklega fyrst sparað og þessir áfangar felldir niður. En eins og margir vita eru sumir nemendur þannig að þeir eru góðir á einu sviði en slæmir á öðru og hugsunin að baki þessum áföngum á sínum tíma var sú að menn sem væru kannski góðir í tungumálum en lélegir í stærðfræði gætu farið í svona undirbúningsáfanga til þess að jafna þau fög sem þeir væru slæmir í.
    Þetta er nú kannski það helsta sem ég hef beint við frv. að athuga. Hins vegar get ég tekið undir það að hér er að mörgu leyti aðeins um lagfæringar að ræða á frv. og kannski á sumum stöðum aðeins spurning um orðalag, en samt sem áður tel ég, og með vísan til þess að þetta hefur ekki fengið þá umfjöllun sem æskilegt er, að það eigi að vísa þessu máli frá. Til frekari rökstuðnings má minnast á það að þeir sem sömdu frv. á sínum tíma og lögðu mikla vinnu í það hafa ekki haft tök á því og hafa ekki fengið að kynna sér efni þessa máls og
þetta hefur ekki farið út til skólanna eins og lögin um framhaldsskóla þegar þau voru í undirbúningi. Ég tel því mjög æskilegt að allar breytingar sem gerðar verða á framhaldsskólalögunum sem og öðrum lögum er varða menntastofnanir þjóðarinnar verði gerðar í sem nánustu samstarfi við þá aðila sem eiga að framfylgja lögunum.
    Ég sé að klukkan er að nálgast tvö og það er fyrirhugaður fundur í Sþ. núna kl. tvö og vil ég ekki verða til þess að tefja þessa umræðu og að sá fundur þurfi að frestast. En ég vil sem sagt leggja áherslu á það sem fram kemur í nál. okkar í 2. minni hl. og að við frestum þessu máli og tökum það upp aftur að hausti. Ég tel að ekki sé sú nauðsyn fyrir hendi að þetta frv. þurfi að fara í gegnum þingið núna á

síðustu dögum.