Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Föstudaginn 12. maí 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. á þskj. 1121 sem er samhljóða brtt. sem ég flutti við 2. umr. þessa máls ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur.
    Þessi brtt. felur fyrst og fremst í sér að fjárhagslegum stuðningi ríkisins við tónlistarskólana í landinu verði haldið áfram í því formi sem nú er. Fyrri brtt., sem er þá við V. kafla laganna, sem fjallar um Atvinnuleysistryggingasjóð, er eingöngu flutt til þess að koma til móts við þann aukna kostnað sem þetta mun hafa í för með sér fyrir ríkið ef fjárhagslegum stuðningi við tónlistarskólana er haldið áfram óbreyttum, þ.e. vegna þess uppgjörs sem þarna er gert ráð fyrir milli ríkisins og sveitarfélaganna.
    Ég gerði grein fyrir ástæðunni fyrir þessu við 2. umr. og tel óþarft að fara mjög náið út í það við þessa umræðu, en ég vil þó vekja athygli á því að ein af þeim röksemdum sem hafa verið notaðar til að mæla gegn þessari tillögu er að hún muni eyðileggja frv., það sé of lítill tími til þess að fara í þessa breytingu og að þetta tengist frv. um tekjustofna sveitarfélaga sem einnig er flutt í tengslum við breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Ég á erfitt með að fallast á þau rök sem borin hafa verið fram. Það er erfitt að þurfa að hlíta því að svona stórt og mikilvægt mál sé unnið hér í þinginu undir slíkri tímapressu að ekki megi gera á því breytingar nema allt ætli að fara í hnút. Nær allir sem komið hafa nálægt starfsemi tónlistarskóla landsins telja það fyrirkomulag sem nú er á rekstri tónlistarskólanna mjög gott og hafa margir lýst áhyggjum vegna þeirra breytinga sem frv. gerir ráð fyrir. Mér er einnig kunnugt um að margir hv. þm. hafa verulegar áhyggjur vegna áforma um að breyta núv. fyrirkomulagi. Margir þeirra virðast þó hikandi við að fallast á að gera þær breytingar á frv. sem eyðir þessum áhyggjum. Er því fyrst og fremst borið við að of lítill tími sé til stefnu eins og ég sagði áðan og því verði frumvarpinu stefnt í voða ef breytingar eru gerðar á því nú. Það er auðvitað aldeilis óviðunandi að Alþingi sé stillt þannig upp við vegg varðandi lagasetningu sem þessa.
    Ég vænti þess, herra forseti, að þrátt fyrir þá ímynduðu hættu sem þessar brtt. eru sagðar setja frumvarpið í muni tillögurnar verða samþykktar og stuðningur ríkisins við tónlistarskólana verði ekki felldur niður.