Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Föstudaginn 12. maí 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég vildi aðeins koma hér upp í sambandi við þetta frv. til að vekja athygli á nauðsyn þess að það fái lokaafgreiðslu hér á hv. þingi eins og samkomulag er um og er mér vitanlega milli allra stjórnmálaflokka að svo verði, enda er búið að fjalla það mikið um þetta þingmál. Og ég vil í fullri vinsemd beina því til hv. 12. þm. Reykv. að hún dragi þessa tillögu til baka, á þskj. 1121. Tillagan getur ekki gert annað en að skapa erfiðleika í meðferð þessara mála. Ef á að breyta einhverju í sambandi við verkaskiptingarfrv. þá yrði líka að gera hliðstæðar breytingar í tekjustofnafrv. því að þetta tengist einvörðungu fjármálakafla þessara mála þannig að það er ekki hyggilegt í þessari stöðu að gera þá breytingu sem þessi brtt. gerir ráð fyrir. Það hefði kannski verið hugsanlegt að taka þetta til meðferðar þegar málið var í þeirri aðaldeild sem fjallaði um málið í allan vetur, þ.e. hv. Ed., en á þeim stutta tíma sem Nd. hefur haft málið, þá er útilokað að gera þessa breytingu. Það hefði orðið að gera grundvallarbreytingu á báðum frv. og ég beini þessum vinsamlegu tilmælum til hv. 12. þm. Reykv. því að þetta er mál sem er samkomulagsmál.
    Að því er varðar brtt. á þskj. 1134 frá hv. 5. þm. Vesturl. er í raun og veru sama atriðið þar nema munurinn á þessari tillögu, sem ég veit að er flutt í góðum tilgangi, munurinn er sá að þetta er hvort tveggja í frumvörpunum sem hv. þm. er að tala um. Í fyrsta lagi að því er varðar Íþróttasjóðinn og hin frjálsu félagasamtök og allt sem þeim fylgir --- og með leyfi forseta vil ég lesa það upp hér eins og það er í frv.:
    ,,Alþingi veitir árlega fé í sjóð sem nefnist Íþróttasjóður. Fé úr sjóðnum skal veita til bygginga íþróttamannvirkja á vegum félaga sem um getur í 2. mgr. Íþróttanefnd gerir tillögu til fjvn. um skiptingu fjárins.``
    Þetta er nákvæmlega það sem hv. þm. er að vekja athygli á í fyrri brtt. sinni á þskj. 1134, og ég get tekið undir það með honum að auðvitað er þetta grundvallaratriði og eitt af þeim baráttumálum sem gerðu það að verkum að fyrri hluti verkaskiptingarfrv. var lagður til hliðar á Alþingi í fyrra var einmitt um þetta atriði, en þá bara vantaði tekjustofna sveitarfélaga alveg í málið og þess vegna var því máli frestað.
    Ég þakka hv. þm. einnig fyrir þá tilvitnun sem hann las upp eftir mér í þingræðu sem er nákvæmlega það sem ég meina. Ég vil hins vegar benda hv. þm. á það að í uppgjörskafla í sambandi við verkaskiptingarfrv. og tekjustofnafrv. sem við erum hér að fjalla um á lokastigi, þá er einmitt gert ráð fyrir því að efla Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til þess í fyrsta lagi að styrkja sveitarfélög sem eiga eftir að ljúka við eða byggja íþróttamannvirki og í öðru lagi, og það er það sem kemur fram í síðari brtt. á þskj. 1134, er gert ráð fyrir einmitt þessu sem hv. þm. er að tala um, að ríkið á að gera upp í gegnum Jöfnunarsjóð beint það sem viðkomandi mannvirki

eiga inni hjá ríkinu samkvæmt viðurkenndum styrkjum, þ.e. þau íþróttafélög og sveitarfélög sem eiga inni hjá Íþróttasjóði, eða ríkissjóði gegnum Íþróttasjóð, eiga að fá þetta greitt og það hefur verið skilgreint að eðlilegt væri að það yrði gert á fjórum árum. Það er gert ráð fyrir því. ( IBA: Verðtryggt.) Þessar báðar tillögur, hv. þm., eru því bara áhersluatriði á það sem er í báðum frv. sem eru um þessi mál, bæði um tekjustofna og verkaskiptingu. Það er því ekki hægt að segja það að þarna sé breyting til hins verra nema síður sé. Þarna er þó alla vega viðurkennt loksins í meðferð málsins að það á að gera þessa hluti upp.
    Hitt er svo aftur annað mál og ég get alveg tekið undir með hv. þm. um það að hér er málið í raun og veru ekkert tryggt til framtíðar frekar. Það er enn eftir að sjá hvernig Íþróttasjóður, þessi sem er áfram í frv., hvernig ríkið eða Alþingi og fjvn. ætla að fjalla um hann í næstu framtíð. Það er opið mál, skýrt afmarkað í lögunum, þannig að það er algjörlega á valdi Alþingis og fjvn. hvað verður lagt mikið fjármagn til þessara þátta og eins er það í valdi sveitarstjórna, eftir að þau eru búin að fá uppgjör á þeim skuldum sem þau eiga inni hjá ríkissjóði í sambandi við íþróttamannvirki, hvað þau leggja mikið af mörkum eða hvaða áherslu þau leggja á uppbyggingu á sviði íþróttamannvirkja. Og Jöfnunarsjóði, samkvæmt þeim breytingum sem hér eru gerðar, er ætlað þetta hlutverk, að sjá um það að minni og ófullburða sveitarfélög fái stuðning, viðurkenningu til þess að ná því markmiði að þjóna þessu sjálfsagða hlutverki sem þau hafa lögum samkvæmt, þannig að ég óttast ekki þetta mál.
    Hitt stendur hins vegar óhaggað sem ég hef áður sagt, að þetta er það mikilvægt mál fyrir byggðarlögin í landinu, fyrir unga fólkið í landinu og fyrir búsetu í landinu að Alþingi og sveitarfélög verða að taka höndum saman um það að veita þessu verkefni meiri forgang en hefur verið gert til þessa. Og auðvitað hjálpar til stuðningur sem Alþingi hefur þó stuðlað að að kæmist í gegn eins og fjáröflun í gegnum lottó o.s.frv. og það er vel. En það þarf bara miklu meira og ég skal fúslega taka undir allt sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði um þetta mál. Ég er honum innilega sammála um mikilvægi og tilgang þess að láta þessi mál hafa annan forgang en þau hafa haft til þessa. Ég er alveg
sammála um það og ég breyti ekki um skoðun um það að ég tel að í þessum lögum, sem hér er verið að fjalla um, bæði verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tekjustofna sveitarfélaga og breytingu á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, höfum við betri vettvang en hefur verið til þessa því að ég vil benda hv. þm. á það og ég veit að þeir vita það og hv. 5. þm. Vesturl. ætti einnig að vita það að gegnum öll árin hefur framlag úr Íþróttasjóði til þessara mála aldrei verið hærri upphæð en 20--45 millj. kr. á ári. Það er allt og sumt. Vissulega þarf þarna að verða breyting á og nú er málið enn þá betur afmarkað, þannig að það er algjörlega á valdi Alþingis og fjvn. hvað þessar

fjárhæðir aukast á næstu árum. En uppgjörsmálið er í höfn og þess vegna segi ég við hv. 5. þm. Vesturl. í fullri vinsemd: Ég er honum innilega sammála um rökstuðninginn, en báðir liðirnir sem hv. þm. bendir á eru í frv. og ég fer fram á það við hann alveg eins og við hv. 12. þm. Reykv. að draga þessar brtt. til baka því að þær eru aðeins áhættuatriði en þær breyta engu um inntak málsins.