Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Föstudaginn 12. maí 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Herra forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir undirtektirnar og áhugann á þessum málaflokki. Ég hef aldrei efast um hann. Þetta hefur verið í gegnum tíðina þannig, fram að þessum degi, skipting þessa kostnaðar, að ríkið hefur greitt 40%, sveitarfélagið 40% og félagið 20%. Það er verið að taka ríkisþáttinn út úr þessu. Það er það sem við erum að tala um. Hv. þm. hristir höfuðið, en hér stendur um frv. m.a., með leyfi forseta:
    ,,Helstu breytingar frá gildandi lögum, sem lagðar eru til í frv., eru eftirfarandi.`` Síðan eru þær flokkaðar hér og 10. liður er þannig: ,,Felld verði niður þátttaka ríkisins í stofnkostnaði íþróttamannvirkja á vegum sveitarfélaga.`` Þetta er nákvæmlega málið. Það er þetta sem við erum að tala um, að við eigum ekki að færa þetta alfarið yfir á sveitarfélögin því að minni sveitarfélögin koma ekki til með að ráða við þetta. Og þau eiga að fara að leggja allt sitt traust á einhvern Jöfnunarsjóð, einhverja sérdeild þar. Ég sé það alveg fyrir mér þegar vantar aukið fjármagn í spítala eða skóla að auðvitað verður það fé bara tekið af þessum málaflokki og fært yfir og það er þetta sem við erum að sjá, að íþróttirnar koma til með að líða fyrir þessa breytingu. En uppgjörsmálin, ef það sem ég er að fara fram á hér með breytingunni, að þetta séu verðtryggðar endurgreiðslur, er tryggt í frv., þá vil ég að það komi skýrt fram. Það kemur alls ekki skýrt fram og reynsla íþróttahreyfingarinnar af því að fá endurgreitt frá ríkinu er slík að það verður að geirnegla það niður, alla samninga við ríkið, því að annars standa þeir ekki og þeir standa meira að segja tæplega þá.