Tekjustofnar sveitarfélaga
Föstudaginn 12. maí 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér við 3. umr. brtt. við c-lið 34. gr. þessa frv. Við 2. umr. flutti ég tillögu um að fella þessa grein niður. Sú tillaga var felld og ég hef því leyft mér að flytja hér tillögu um að breyta þessari grein og breytingin felst í því að í stað þess að bæði sláturhús og mjólkurbú verði undanþegin aðstöðugjaldi verði einvörðungu sláturhús undanþegin þessu gjaldi til sveitarfélaganna.
    Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þessa tillögu. Ég gerði það hér við 2. umr. Hér er um að ræða ákveðna mismunun milli fyrirtækja í einstökum greinum. Hér er verið að undanþiggja tiltekna starfsemi því að greiða aðstöðugjald til sveitarfélaga þó svo að annar atvinnurekstur eins og t.d. frystihús þurfi að standa undir slíkum gjöldum. Hér er jafnframt um að ræða ákveðna mismunun milli sveitarfélaga því að þau sem þarna verða af aðstöðugjaldatekjum vegna þessarar undanþágu eru þá raunverulega umfram önnur sveitarfélög að leggja af mörkum til þess að halda niðri vöruverðinu í landinu. Og það er auðvitað engin sanngirni í því að tiltölulega fá sveitarfélög þurfi að standa undir þeim stuðningi sem menn vilja efna til til að halda niðri verði á þessum nauðsynjavörum.
    Ég vil freista þess að láta á það reyna við þessa umræðu hvort meiri hluti er fyrir því hér í hv. deild að fella niður þessa undanþágu að því er varðar mjólkurbúin. Ég hef það fyrir satt að aðstöðugjöld á sláturhús mundu koma verr út fyrir neytandann en aðstöðugjöld á mjólkurbúin. Það mundi leiða til meiri hækkunar á afurðum sláturhúsanna en afurðum mjólkurbúanna, þannig að það má segja að að því leyti til sé komið til móts við það sjónarmið að það sé rangt að leggja gjöld á þessa starfsemi vegna þess að þau bitni á almenningi. En þannig er nú reyndar um öll aðstöðugjöld að þau bitna auðvitað á þeim sem endanlega kaupa þær vörur sem framleiddar eru og sem greiða þarf aðstöðugjald af við framleiðsluna.
    Meginatriðið er hins vegar ekki það. Meginatriðið er það að hafa skattstofninn almennan, mismuna ekki milli fyrirtækja og mismuna ekki milli sveitarfélaga.