Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 12. maí 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Á þskj. 1033 er álit meiri hl. fjh.- og viðskn. Þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur athugað frv. á fundum sínum og fékk til viðtals Stefán Ingólfsson verkfræðing, Björn Þórhallsson og Ásmund Hilmarsson frá ASÍ, Yngva Örn Kristinsson frá Seðlabanka Íslands, Bolla Þór Bollason, Maríönnu Jónasdóttur og Lárus Ögmundsson frá fjármálaráðuneytinu og Garðar Valdimarsson og Ævar Ísberg frá embætti ríkisskattstjóra.
    Nefndin fékk í hendur yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar svohljóðandi:
    ,,Í greinargerð með frv. er kveðið á um að útlánsvextir Byggingarsjóðs ríkisins verði að taka mið af þeim vöxtum sem samið er um við lífeyrissjóðina vegna skuldabréfakaupa. Samkvæmt nýlegu samkomulagi við lífeyrissjóðina eru þeir vextir 6% frá apríl til júníloka og frá 1. júlí til desemberloka 5%. Nú þegar eru vextirnir orðnir 5% á þeim hluta sem miðaður er við ECU-bindingu.
    Ríkisstjórnin stefnir að því að vaxtamismunur af teknum lánum hjá lífeyrissjóðunum og útlánum Byggingarsjóðs ríkisins í núverandi húsnæðiskerfi verði ekki meiri en 0,5--1,0% og verða vextir af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins lægri sem þeim mismun nemur.
    Vextir af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins hækka ekki fyrr en húsbréfakerfið tekur gildi og verða þá ekki hærri en 4,0--4,5%.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækkun vaxta hjá Byggingarsjóði ríkisins verði ekki afturvirk.``
    Meiri hl. nefndarinnar lítur svo á að fenginni þessari yfirlýsingu að eftir gildistöku laganna verði vextir af byggingarsjóðslánum ekki hærri en að hámarki 4,5%.
    Frumvarp þetta er flutt í tengslum við frumvarp til laga um húsbréf, 344. mál. Við afgreiðslu þess máls varð að ráði að fela milliþinganefnd að athuga nánar ýmis atriði húsbréfamálsins og móta útfærslu þess. Meiri hl. þykir einboðið að vísa frv. um vaxtabætur einnig til þeirrar milliþinganefndar og óskar eftir því að hún taki sérstaklega til umfjöllunar ákvæði um tekju- og eignaviðmiðun við ákvörðun vaxtabóta.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þessum skilyrðum og með breytingum sem tillögur eru fluttar um á sérstöku þingskjali.
    Stefán Valgeirsson sat fund nefndarinnar og er algjörlega andvígur frumvarpinu.``
    Undir þetta rituðu á Alþingi 3. maí 1989 Páll Pétursson, Árni Gunnarsson, Þórður Skúlason, Guðmundur G. Þórarinsson og Kristín Halldórsdóttir.
    Herra forseti. Eins og sagði í nál. eru brtt. sem meiri hl. nefndarinnar, þ.e. Páll Pétursson, Árni Gunnarsson, Kristín Halldórsdóttir, Guðmundur G. Þórarinsson og Þórður Skúlason, leggur til á þskj. 1034. Fyrri brtt. er smávægileg orðalagsbreyting við 1. gr., að í staðinn fyrir ,,hvern mann`` í 6. málsl. 2. efnismgr. komi orðið: einstakling. Og við 4. gr. er gildistökuákvæðið fært til samræmis við húsbréfakerfið, þannig að lögin öðlist gildi 15. nóv.

1989 og komi til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 1990 vegna tekna á árinu 1989 og eigna í lok þess árs.