Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 12. maí 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Eins og fram hefur komið áður, þá sit ég á fundum fjh.- og viðskn. þegar ég get komið því við. Þegar þetta frv. var afgreitt lagði ég fyrir nefndina nokkrar spurningar vegna þess að ég verð að segja eins og er að ég er ekki nógu skýr í kollinum til að skilja í raun og veru hvernig þetta gengur saman, en þó að þarna sé mikið af reyndu fólki sem yfirleitt geti útskýrt málin var það nú svo að ég fékk ekki svör. Menn litu hver á annan.
    Ég spurði t.d. að því hvernig á því gæti staðið að í frv. stæði það sem ég mun nú lesa, með leyfi forseta:
    ,,Vaxtagjöld umfram vaxtatekjur skv. 3.--5. tölul. 1. mgr. 8. gr. vegna annarra lána en um ræðir í 1. tölul., enda er einungis heimilt að telja þau með á næstu fjórum skattárum talið frá og með kaupári ef um er að ræða kaup á íbúð. Sé um nýbyggingu að ræða er heimilt að telja þau með á næstu sjö skattárum talið frá og með því ári þegar bygging hefst eða til og með því ári sem húsnæðið er tekið til íbúðar ef það er síðar.``
    Ég bendi á þetta ósamræmi. Við skulum bara segja að maður kaupi hús sem er byggt fyrir einu eða tveimur árum. Þá á hann ekki að fá vaxtabætur nema í fjögur ár en ef hann byggir fær hann þær í sjö ár. Þegar ég spurði um þetta litu nefndarmenn bara hver á annan. Það var ekkert verið að hugleiða þá missmíð eða koma með breytingu á þessu ákvæði. Auðvitað er þetta fáránlegt eins og allt þetta mál.
    Skattalög eru auðvitað betri eftir því sem þau eru einfaldari og skiljanlegri og það verður nú að segjast um okkar skattalög að það er alltaf verið að gera þau flóknari og flóknari og ekki bætir þetta úr sem hér er. Það er verið með frv. og þessum málum tveimur að taka stórt skref í átt til markaðsvaxta í þessu kerfi öllu, enda kemur það mjög vel fram í athugasemdum sem eru með frv. En síðan er staðið þannig að málum að það er verið að binda mikið fé í bönkunum, fé sem verður svo til þess að vextir geta ekki orðið eðlilegir. Það er mikið meiri eftirspurn eftir fjármagni, hefur verið og líkur fyrir því að verði, vegna þess að fyrst eru bundin 13% í Seðlabankanum. Þegar sú ákvörðun var tekin, um það bindifé, þá var það til þess að standa undir afurðalánum atvinnuveganna og sérstaklega landbúnaðarins. Nú eru viðskiptabankarnir búnir að taka við því að öllu leyti en samt er þetta bundið.
    Til viðbótar þessu eru svo 9 eða 10% bundin á lausum reikningum og ef út af bregður tekur Seðlabankinn dráttarvexti af því fjármagni þó að það fáist ekki nema 2% fyrir það fé sem er bundið í Seðlabankanum. Svo eru menn hissa á því að það skuli vera vaxtamunur í bönkunum. En eins og ég held að hv. þm. Geir H. Haarde hafi lesið hér upp, úr athugasemdunum --- ég ætla að lesa það aftur að hluta til til að sýna fram á það að hverju er stefnt, með leyfi forseta: ,,Vaxtabæturnar áttu að koma í stað niðurgreiðslu vaxta í almenna húsnæðislánakerfinu, enda yrðu þá vextir á almennum húsnæðislánum látnir

fylgja markaðsvöxtum langtímalána. Í áliti vinnuhópsins kemur fram að hann telur þessa breytingu forsendu fyrir því að unnt sé að hrinda í framkvæmd annarri tillögu hans um þá nýskipan í húsnæðislánamálum að taka upp skuldabréfaskipti eða svonefnt húsbréfakerfi.``
    Getur þetta verið skýrara? Er það hugsanlegt? Og hvað eru markaðsvextir í dag? Eins og ég gat um hér fyrir nokkrum dögum, þá er verið að auglýsa vexti í einkabönkunum upp í 9,25%, raunvexti í bönkunum. Í Alþýðubankanum er þetta 9,25. Fylgjast hv. þm. ekki með hvernig þjóðfélagið er? Vita þeir ekki hvað þeir eru að gera? Halda þeir að fólkið sem er með í laun um 40--50 þús. kr. á mánuði geti bætt á sig vöxtum? Ég er ósammála síðasta ræðumanni að því leyti til að ég er alveg viss um að það er langtum meira en helmingur. Ég er alveg viss um að það er meira en 2 / 3 af fólki sem mundi ekki geta staðið undir svona vöxtum þrátt fyrir að farið yrði eftir þessum vaxtabótum eins og horfir í þessum málum nú. Og það er alveg rétt hjá honum að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar er óljós og má túlka hana bara eins og hverjum þóknast. Það er ekkert hald í henni að þessu leyti. Og hvað segir hér í frv. sem við erum búnir að samþykkja út úr deildinni illu heilli, um Húsnæðisstofnun ríkisins? Það segir í 55. gr. til þess að sýna nú hvernig vextirnir eigi að vera, með leyfi forseta, f. (55. gr.):
    ,,Húsbréfadeildinni er heimilt að áskilja sér vaxtaálag til að mæta rekstrarkostnaði og áætluðum útlánatöpum. [Það á að bætast við.] Félmrh. ákveður vaxtaálag þetta að fengnum tillögum frá húsnæðismálastjórn.`` Það er verið að setja þarna inn sama ákvæði í sambandi við reksturinn eins og hefur verið sett um atvinnusjóðina en til viðbótar áætluðu tapi, áætluðum áföllum. Nei, þetta er eins og sagt var stundum í sjónvarpinu: Þetta er hið versta mál, frá upphafi til enda.
    Þó að ég sé sammála hv. þm. Geir H. Haarde um það hvílíkur vanskapningur bæði þessi mál eru orðin er ég honum auðvitað ósammála í grundvallaratriðum vegna þess að sá sem er að byggja íbúð --- íbúð, húsnæði, hjá okkur hér á Íslandi og auðvitað alls staðar er ein af frumþörfum mannkyns, og ef slíkt á að fylgja markaðsvöxtum, þá verður að breyta öllu okkar kerfi. Launin verða þá að hækka í samræmi við það og sennilega, ef ætti að vera eitthvert vit í þessu á annað borð, þyrfti að stokka upp allt tekjuöflunarkerfi ríkisins og láta þá borga meira sem hafa meira til þess að jafna á milli. En að taka svona mál út úr, slíta það úr tengslum við raunveruleikann og allar aðrar aðstæður, er fáránlegt.