Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 12. maí 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Frv. sem við nú ræðum er óhjákvæmilegur fylgifiskur húsbréfafrv. sem við höfum nú þegar afgreitt hér frá deildinni og er komið til umræðu í Ed. En það er kannski ástæða til þess að rifja upp í örstuttu máli ástæðurnar fyrir afstöðu Kvennalistans í því máli. Kvennalistinn hefur alveg frá upphafi stutt hugmyndina um húsbréfakerfi en jafnframt sett ákveðna fyrirvara við ýmsa þætti þess máls og það var frá upphafi megingagnrýnisatriði kvennalistakvenna að ekki væri tekið á húsnæðiskerfinu í heild með sérstakri áherslu á félagslega íbúðakerfið.
    Við undirbúning málsins í sérstakri nefnd og í umfjöllun þess á Alþingi komu enn frekar í ljós ýmsir óvissuþættir sem valda því að mörgum hefur reynst erfitt eða ómögulegt að taka eindregna afstöðu með þeim breytingum sem nauðsynlegar eru á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins til þess að koma þessu kerfi á. Þó má kannski segja að meira hafi verið um fullyrðingar en rök í allri þeirri miklu umræðu sem fram hefur farið um þetta mál. Skoðanir eru mjög skiptar meðal sérfræðinga um áhrif þessa kerfis á íbúðaverð, fasteignamarkaðinn, lánamarkaðinn og efnahagskerfið í heild sinni og reynslan ein getur skorið úr um þessi atriði.
    Annað mál er að okkar mati deginum ljósara og þarf enga sérfræðinga til að segja okkur eitt eða neitt um það. Það er sú staðreynd að stór hópur fólks ræður ekki við þau kjör sem nú bjóðast til húsnæðiskaupa og hærri vextir munu gera þessum hópi enn erfiðara fyrir. Því blasir það við að þrýstingur á félagslega íbúðalánakerfið eða íbúðakerfið í heild mun aukast verulega og þess vegna er skjótra úrbóta þörf í félagslega kerfinu. Við teljum algjörlega óhjákvæmilegt að mæta sívaxandi þörf fyrir leiguhúsnæði og teljum umræðuna snúast að allt of miklu leyti um séreignafyrirkomulagið. Aukning leiguhúsnæðis mundi auðvitað fyrst og fremst koma þeim til góða sem þurfa eða vilja leigja, en það mundi jafnframt létta mjög á almenna húsnæðiskerfinu. Þess vegna hefði Kvennalistinn viljað efla og bæta félagslega íbúðakerfið jafnframt þessum nýjungum í almenna kerfinu og þá bæði hugsa um þá sem vilja leigja og kaupa. Með tilliti til alls þessa treysti Kvennalistinn sér ekki til þess að standa að framgangi húsbréfakerfisins nema félagslega kerfið væri um leið eflt á einhvern hátt.
    Ég þarf ekkert að rifja upp fyrir þingheimi það samkomulag sem gert var milli Kvennalistans og ríkisstjórnarinnar í tengslum við afgreiðslu þessa máls, enda er það birt í þingtíðindum, en með því teljum við nokkuð tryggt að sæmilega myndarlegt átak verði gert í félagslega íbúðakerfinu. Við höfum vissulega sætt nokkru ámæli af hálfu annarra þingflokka í stjórnarandstöðu fyrir þessa afstöðu sem byggir algjörlega á málefnalegum grunni. M.a. hefur verið gengið eftir því við okkur hvaðan þeir peningar eigi að koma sem fara eiga til aukningar í félagslega kerfinu. Ég held að þeir sem hafa ákafast kallað eftir

ákveðnum yfirlýsingum um þau efni, þar á meðal fyrrv. fjmrh., átti sig mætavel á tregðu framkvæmdarvaldsins til að gefa skýr svör um það á þessum degi. Það eitt get ég fullyrt hér og nú að hæstv. ráðherrum er fyllilega ljós sá vilji og skilningur Kvennalistans og sú krafa að þetta aukna framlag í félagslega kerfið komi ekki niður á öðrum félagslegum þáttum í ríkisrekstrinum. Á það lögðum við ríka áherslu og ætlumst til að eftir sé munað.
    Frv. sem hér er til umræðu er mjög mikilvægur þáttur í þeim breytingum sem gera á í húsnæðiskerfinu. Tilgangurinn er sá að hætta almennri niðurgreiðslu vaxta og freista þess að beina opinberri aðstoð vegna húsnæðisöflunar til þeirra sem raunverulega þurfa á slíku að halda. Það skal fúslega viðurkennt að frv. fékk allt of skamma viðdvöl og allt of litla umfjöllun í hv. fjh.- og viðskn. Ég held þó, og það er okkar mat, að það sé fyllilega á réttum brautum og að ítarleg athugun í milliþinganefnd geti sniðið af því þá agnúa sem þarf, ef fyrir eru, með þeim fyrirmælum, sem eru í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn., hún taki sérstaklega til umfjöllunar ákvæði um tekju- og eignaviðmiðun við ákvörðun vaxtabóta.
    Meginatriðið er að sú umfjöllun og þessar lagabreytingar tryggi það að þeir sem raunverulega þurfa á aðstoð að halda við öflun húsnæðis verði ekki verr settir eða öllu heldur betur settir en í núverandi kerfi sem byggir á húsnæðisbótum og vaxtaniðurgreiðslum. Annað væri óviðunandi.