Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 12. maí 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Það var nú ekki meining mín að fara að ræða sérstaklega um frv. því að auðvitað er það fylgifiskur þess frv. sem hér hefur mest verið til umræðu, þ.e. í sambandi við húsbréfin, og er að sjálfsögðu með innbyggða galla og rökvillur eins og í því frv.
    Ég kemst ekki hjá því að leiðrétta félaga minn, hv. 1. þm. Norðurl. v., og það er náttúrlega sorglegt í sambandi við öll þessi mál sem við erum að tala um hvað hv. þm. koma upp um sig með það að þeir hafa alls ekki lesið eða kynnt sér þessi mál að grunni til. Ég verð að segja það að það er mjög furðulegt að hlusta á hv. 1. þm. Norðurl. v. vera að tala um húsnæðismál á þann veg að hann er að tiltaka þar um stærð íbúða og annað slíkt. Hann ætti að vita, þar sem hann hefur samþykkt ásamt öðrum hv. þm. þau lög sem í gildi eru, að takmörkunin var sett við 180 fermetra stærð húsnæðis og það er óbreytt í lögunum. Og það sem hann er að vitna til í meðferð málsins, þegar það er komið hér úr hv. deild, er allt annars eðlis. Það er verið að setja þar inn nýja viðmiðun sem gengur þvert á tilgang þeirra laga að þeir hafi rétt sem eru í lífeyrissjóðunum og það er verið að setja nýtt ákvæði inn um það að þeir sem eiga aðrar eignir en húseignir eigi að lenda í því að víkja úr húsnæðiskerfinu. Það er nýja ákvæðið sem var fellt hér við afgreiðslu málsins á þingi og það kemur þessu máli ekkert við. Menn mega ekki verða uppvísir að því að hafa ekki kynnt sér þau stóru mál sem eru til meðferðar hér á hv. Alþingi ár eftir ár og það ekki hvað síst er varðar húsnæðismálin. Þess vegna vil ég gera athugasemd við þessa fullyrðingu hv. þm.
    En það sem ég vil segja í sambandi við vaxtamálin almennt, af því að það er verið að ræða um túlkun þeirra hér í sambandi við það mál sem við afgreiddum frá okkur, frv. um húsbréfin --- það þarf auðvitað ekkert að ræða um þetta atriði. Það er í gildandi húsnæðislögum, óbreytt, að ríkisstjórnin á hverjum tíma hefur það algjörlega í hendi sér hvaða vexti hún ákveður í sambandi við húsnæðislögin. Hún getur gert það bara á einum litlum fundi hjá sér á hverjum tíma ef hún er sammála um það, þannig að það skiptir ekki nokkru máli hvort hér er verið að tala um 4,5% eða einhverja aðra tölu. Þetta er bara einföld samþykkt ríkisstjórnar á hverjum tíma. Hins vegar er það sem er e.t.v. nýtt í þessu máli og vert er að vekja athygli á og hefur raunar verið gert í umræðunni um húsbréfin og það er það að nú liggur fyrir að núv. ríkisstjórn ætlar sér að miða vaxtamun á inn- og útvöxtum í sambandi við Húsnæðisstofnun ríkisins í almenna kerfinu við að hann verði 0,5--1%. Þetta er ný stefna miðað við það sem er í núgildandi lögum þannig að ríkisstjórnin getur haft þetta líka í hendi sér. Ég er nú alveg undrandi á ummælum hæstv. fjmrh., að hann skuli ætla að telja þingheimi trú um það að við getum treyst því að vextir verði aldrei hærri en, ja, 5% skildist mér, hér á föstum markaði. Ég er aldeilis undrandi yfir því að hæstv. ráðherra skuli leyfa sér að halda því fram vegna þess að þetta

er svo víðs fjarri. Við búum í dag við rótlaust efnahagskerfi sem getur sveiflast upp og niður eins og sýnir sig. Við ráðum ekki enn við drauginn sem allir eru sammála um að kveða niður, verðbólguna, og þar af leiðandi hljóta vextirnir að taka mið af því á hverjum tíma og allar fullyrðingar um annað eru út í hött. Ég hélt a.m.k. að við sem sitjum hér inni á hv. Alþingi og höfum verið að glíma við þennan draug á undanförnum árum og áratugum ættum a.m.k. að skilja þetta atriði, við ættum að viðurkenna þetta atriði um leið og við erum sammála um það að reyna að berjast gegn þessu. En hvað þýðir að vera að halda svona löguðu fram? Það er hrein blekking.
    Af því að ég kom hér upp á annað borð langar mig til að víkja aðeins að vinkonum okkar í Kvennalistanum út af ræðu sem hv. 10. þm. Reykn. hélt hér áðan þar sem hún var að reyna --- eða a.m.k. fannst mér að hún væri að reyna enn á ný að bera fram einhverja afsökun á afstöðu Kvennalistans í húsnæðismálunum. En ég verð því miður að segja það, og byggi það á því sem ég hef heyrt úti í þjóðfélaginu þessa dagana, að afstaða Kvennalistans til breytinga á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins hefur eðlilega vakið mikla athygli í þjóðfélaginu því að þær hafa talið sig hér í umræðum á hv. Alþingi og utan Alþingis vera nokkurs konar ... (Gripið fram í.) Ja, eigum við ekki að nota orðið úr húsnæðisfrv., einhvers konar vaki yfir velferð fólks í landinu og þar af leiðandi hafa þær reynt að fá á sig þann stimpil að þær væru að reyna að siðbæta aðra og reyna að koma í veg fyrir mistök í sambandi við lagagerð o.s.frv.
    En hvað segir fólk? Það segir: Þær eru bara til sölu. Þetta er svo einföld setning sem maður heyrir núna hjá almenningi þegar maður er að hlusta á þá atburði sem hér hafa orðið í hv. Alþingi um þessi mál. (Gripið fram í.) Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði hér áðan sem svar við því þegar þingmenn hafa verið að biðja hv. þm. Kvennalistans að skýra út hvaðan peningarnir eigi að koma sem þær hafa sett sem skilyrði fyrir að fylgja frv. sem þær í meðferð málsins í félmn. Nd. hafa gagnrýnt hvað mest og viljað fá fram, ja, eðlilegar breytingar og upplýsingar, hvaðan þeir peningar eigi að koma, þ.e. þær 600 millj. sem eiga að koma til viðbótar í félagslega kerfið þrátt fyrir það að
núv. ríkisstjórn hefur ekki einu sinni getað haldið inni í fjárlögum þeirri fjárhæð sem var þó gerð tillaga um frá viðkomandi ráðuneyti. Hvert var svar hv. þm. hér áðan? Hún sagði raunar í stuttu máli að það væri ekki þeirra mál. Það var aðeins eitt sem hún lagði áherslu á, að það væri skilyrði Kvennalistans, skilyrði sem okkur á að skiljast að verði breyting á ef ekki verði við staðið, að útvegun þessa fjármagns kæmi alls ekki niður á öðrum félagslegum þáttum í húsnæðiskerfinu. (Gripið fram í.) Opinbera kerfinu, til þess að fullnægja þessum þætti í félagslegu kerfi húsnæðismála. Það er náttúrlega alveg ljóst. Ég taldi eðlilegt að gera þetta að umtalsefni vegna þess að þetta vekur náttúrlega óneitanlega spurningu um það hvort það er trúverðugt í meðferð mála almennt að vinna svona, nota svona

vinnubrögð.
    Ég ætla ekki að fara að endurtaka neitt af því sem ég hef sagt áður um meðferð þessa máls, allt sem ég hef sagt að væri óvirðing við Alþingi og í raun og veru lagasetningu almennt, að vera að setja löggjöf og ákveða fyrir fram að endurskoða hana áður en hún tekur gildi. Gildistakan er auðvitað um leið og hæstv. forseti Íslands skrifar undir lögin sem hann gerir strax að þingi loknu.
    En varðandi þetta mál hér, þá get ég ekki komist hjá því að segja þetta um skattalega meðferð að því er varðar húsnæðismál: Við vitum það að skattakerfið okkar er það flókið að almenningur hefur illa treyst sér til þess að átta sig á því hvaða möguleika hann hefur til þess að nýta sér um leið og skattaskýrsla er gerð. Við þekkjum dæmið um típrósentin, að yfirleitt var það svo að almenningur á Íslandi, sennilega um 80% af öllum þeim sem hefðu getað nýtt sér þetta ákvæði laganna um sérstakan skattaafslátt gat það ekki. Þetta kom fram í opinberum skýrslum. Í stað þess notuðu menn einfalda þáttinn, 10%-regluna. Og það hefur komið í ljós við athugun að þetta varð þess valdandi að fjöldi fólks varð af lækkun tekjuskatta í sínum framtölum vegna þess að það hafði ekki möguleika til þess að nýta sér þessi ákvæði skattalaga á eðlilegan máta. Það er þess vegna sem ég hélt að hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar mundi leggja alveg gífurlega vinnu í það að útfæra það sem hér er kallað vaxtabætur á þann veg í þessu frv. að það væri aðgengilegt fyrir almenning í landinu, það væri ekki verið að stilla fólki þannig upp að það þyrfti að fara að fá sér skattalega aðstoð sem kostar peninga í hvert skipti sem þarf að gera skattaframtal. Þetta hefur að mínu mati brugðist í meðferð til þessa hér á hv. Alþingi. Og ég er alveg sannfærður um það að eins og þetta er lagt fyrir verður þetta hreint spurningarmerki fyrir hinn almenna borgara þessa lands. Ég held að það sé þess vegna algjörlega rétt túlkun að skattaleg meðferð í svona máli verður að vera skýr og einföld þannig að hver einasti maður sem kemur til með að geta notið slíkra aðgerða í gegnum skattakerfið verður að vita fyrir fram að hverju hann gengur.
    Mitt álit er það að frv., hvað sem menn hafa verið að segja hér, hvort sem það hafa verið ráðherrar eða aðrir, er alls ekki það skýrt að það beri þetta ljóst með sér, ekki síst miðað við þá óvissu sem liggur fyrir um afdrif húsnæðismálakerfisins í heild sem nú er komið til afgreiðslu í hv. Ed. Það er jafnóljóst og það var í upphafi.