Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 12. maí 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég skal ekki fremur venju misnota þolinmæði forseta og tala hér langt mál, enda er það ástæðulaust þó svo að hæstv. fjmrh. hafi séð ástæðu til þess að fara með langt mál um bók sem ítalskur rithöfundur gaf út fyrir nokkrum árum og hina merku þýðingu Thors Vilhjálmssonar á því riti og rekja efni þessarar bókar hér fyrir okkur í löngu máli. Það er þannig sem ráðamennirnir og stjórnarherrarnir fara með tíma þingsins. Það er nú þannig. Svo er eitthvað verið að tala um að stjórnarandstaðan taki hér tíma til að ræða mál.
    Nei, það sem upp úr þessu stendur, herra forseti, er satt að segja mjög einfalt og það er alveg skýrt. Hæstv. fjmrh. fer með rangt mál varðandi þá yfirlýsingu sem ríkisstjórnin hefur gefið frá sér um vextina í hinu almenna húsnæðislánakerfi í framtíðinni. Í þessari yfirlýsingu, sem ég lánaði fjmrh. áðan, segir svo, með leyfi forseta: ,,Samkvæmt nýlegu samkomulagi við lífeyrissjóðina eru þeir vextir 6% frá apríl til júníloka og frá 1. júlí til desemberloka 5%,,, þ.e. þeir vextir sem Byggingarsjóður ríkisins þarf að greiða lífeyrissjóðunum. Þessi fullyrðing er röng, og ég er margbúinn að sýna fram á það, hvað sem líður öllu tali ráðherrans um þessa ECU-vexti. Það er ekki hægt að fullyrða það á þessari stundu að þessir vextir verði 6% frá apríl til júníloka og 5% frá júlí til desemberloka. Þess vegna er þessi staðhæfing röng og það er alveg furðulegt þegar hæstv. fjmrh. stendur hér upp í hlutverki Ragnars Reykáss og reynir að þvæla þessu hér fram og aftur, ætlar að taka það hlutverk af hæstv. forsrh. að leika Ragnar Reykás, að hann skuli halda þessu hér fram. Það hefur verið sýnt fram á að það verður ekkert fullyrt um það hverjir þessir vextir verða fyrr en eftir að uppgjörið hefur farið fram, eftir að samningstíminn er útrunninn. Svo einfalt er nú það mál. Þess vegna er líka rangt að gefa sér það að vegna þessa verði 0,5--1,0% undir teknum vöxtum 4,5%. Það er líka rangt. En þeir um það sem að þessu máli standa.
    Hins vegar er óhjákvæmilegt að hnykkja frekar á því að eftir standa mismunandi túlkanir á þessu máli og hv. formaður fjh.- og viðskn. gat auðvitað engu við það bætt. Hann gat auðvitað ekki túlkað þá setningu sem ég bað hann um að túlka öðruvísi en hún stendur skrifuð.
    Að lokum, herra forseti. Ég fékk ekkert svar við því frá hv. formanni fjh.- og viðskn. né heldur fjmrh. hvernig forsendubreytingin, sem orðin er í þessu máli, kemur við þau dæmi sem lögð hafa verið fram. Það liggja engin svör fyrir um það og það á greinilega ekkert að hafa neinar áhyggjur af því. Nei, nei, segir hæstv. fjmrh., kallar að vísu ekki hér fram í en hristir höfuðið hér fram í. Þeirri spurningu er því enn þá ósvarað.
    Og svo að lokum, til hins virðulega formanns fjh.- og viðskn. Páls Péturssonar: Allur samanburður á þessu máli, bæði við staðgreiðslufrv. og við virðisaukaskattsfrv. er út í hött. Það er ekki saman að jafna skatti sem er 50% af öllum tekjum ríkissjóðs,

eins og virðisaukaskatturinn á að vera, og undirbúningi og meðferð slíks máls við þetta óbermi sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kallar svo og engin rök knýja á um að afgreiða með þessum hætti. Hæstv. utanrrh. hefur lagst svo lágt í eldhúsdagsumræðum að líkja þessu saman, þetta séu sömu vinnubrögðin. Hagsmunir almennings af upptöku staðgreiðslunnar á hinu skattlausa ári voru auðvitað yfirgnæfandi og þá þurfti að afgreiða málið með hraði og vinna síðan í því frekar eftir að nánari upplýsingar lágu fyrir. Sama er að segja um virðisaukaskattinn. Þar verður að liggja fyrir, vegna þeirra þúsunda aðila sem að því máli þurfa að koma, hvort upptaka hans fer fram um næstu áramót eða ekki. En það eru engar slíkar ástæður eða forsendur í þessu máli. Hér er verið að rasa um ráð fram til þess að þjóna einhverjum hagsmunum og lund ákveðinna aðila í þessu máli. Það eina rétta hefði auðvitað verið að taka þessi frv. bæði, það sem afgreitt var í gær og það sem hér er til meðferðar, og vísa þeim í almennilega afgreiðslu, almennilega rannsókn og athugun í hópi þess fólks sem vill koma þessu kerfi á en ekki í hópi þeirra sem eru algjörlega andvígir þessu máli frá byrjun eins og fjölmargir sem að því standa.
    Ég hef lokið máli mínu, herra forseti, hér við 2. umr. Ég tel að enn hafi verið sýnt fram á hvílíkt hyldýpi er á milli manna í túlkun þessa máls, en það verður ekki við þá að sakast sem við þessu máli hafa varað.