Tilhögun þingfundar og dagskrá
Föstudaginn 12. maí 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Á dagskrá þessa fundar eru tvennar kosningar, sjö manna í stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins og sex manna í Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Svo sem venja er þegar kjósa á í nefndir og ráð fyrir þinglausnir, þá er þetta sett á dagskrá gjarnan nokkuð löngu áður en kjósa skal og svo var í þessu tilviki að þessi mál voru sett á dagskrá í síðustu viku. Sl. mánudag var gott samkomulag um að fresta þessu kjöri. Á fundi þingflokksformanna og forseta sl. miðvikudag tilkynnti forseti Sþ. að þessar kosningar færu fram nk. fimmtudag, þ.e. í gær. Þá var óskað eftir fresti, ég veit ekki af hverjum. Nú hefur forseti tjáð mér, hann hefur ekki lýst því úr forsetastóli núna að þessi kosning fari ekki fram í dag, en mér hefur verið tjáð það að kosningin fari ekki fram í dag. Þess vegna vil ég nú spyrja: Hvers vegna ekki? Að beiðni hvers eða hverra er farið fram á frestun? Ég er ekki að mótmæla frestuninni. Mér er alveg sama hvort þetta fer fram í dag eða ekki. En ég óska eindregið eftir að fá að vita, hvenær kjörið fer fram.
    Svo hef ég hér aðra athugasemd alveg óskylda þessu og hún er sú að hér voru auglýstir fundir í Sþ. kl. 2 miðdegis. Nú vantar klukkuna 20 mínútur í 3. Hæstv. forseti Nd. óskaði eftir því úr sínu sæti við forseta Sþ. að hann mætti halda áfram atkvæðagreiðslunni og fékk til þess leyfi forseta. Ég geri engu að síður athugasemd við það þegar auglýstur er þingfundur á tilteknum tíma en síðan líða 40 mínútur án þess að fundur sé settur. Ég tel að þetta beri vott um of mikla lausung í stjórn þingsins og vil mótmæla þessu. Það hefði verið hægurinn hjá að gera hlé á fundum Nd. og setja fund í Sþ. og fresta honum síðan og halda áfram. Ég tel að þannig eigi þetta að vera.
    Ég óska svo eftir svari við spurningu minni um hvenær kosningin fari fram í stjórn Áburðarverksmiðjunnar og stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.