Kjaradeila BHMR og ríkisins
Föstudaginn 12. maí 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Áður en ég hef mál mitt vil ég fara fram á það að kallaðir verði í salinn ráðherrar þar sem ég hef þegar látið þá fá spurningar sem ég ætla að bera fram til þeirra í þessari umræðu. Og þar sem þeir fara með framkvæmdarvaldið, þá vil ég fara fram á það að þeir mæti hingað í salinn og vil hinkra eftir þeim. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til þess að ríkisstjórnin verði sótt.) --- ( Þ P: Má ekki kjósa í nefndir á meðan beðið er eftir ríkisstjórninni?) ( Forseti: Forseti vill upplýsa að hér hefur borið við að menn hafi þagað lengur í ræðustól en nú og getur varla liðið langur tími þangað til hæstv. ráðherrar koma og ég mun í engu vísa hv. 6. þm. Reykv. úr ræðustól. Hann er hennar nú. --- Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann geti ekki beint máli sínu til hæstv. menntmrh. sem hér situr. Fjmrh. er væntanlegur á hverri mínútu.) Ég beini spurningum til hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. í byrjun ræðu minnar, en menntmrh. um miðbik hennar. ( Forseti: Gengur nú hæstv. forsrh. í salinn og vænti ég að í kjölfar hans fylgi nú hæstv. fjmrh.) Ég vona, hæstv. forseti, að þetta þýði að ráðherrarnir séu uppteknir á óformlegum samningafundum.
    Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir að leyfa mér að kveðja mér hljóðs hér utan dagskrár. Tilefni þessarar utandagskrárumræðu er sú alvarlega staða sem nú ríkir í kjaradeilu BHMR og stjórnvalda. Ég bað um þessa umræðu í sl. viku en taldi ráðlegt að bíða og sjá hverju fram yndi í samningaviðræðum um sl. helgi. Þar náðist því miður ekki samkomulag heldur slitnaði upp úr samningaviðræðum eins og alþjóð veit.
    Það er greinilegt af viðtölum við málsaðila í fjölmiðlum, svo og af greinargerðum fulltrúa BHMR og persónulegum viðræðum þingkvenna Kvennalistans við þá og hæstv. fjmrh., að reynsla þessara málsaðila og skilningur á gangi mála í samningaviðræðunum, ekki síst um sl. helgi, er afar ólíkur. Það vekur undrun og reyndar einnig tortryggni gagnvart helgisiðum hefðbundinna samningagerða og leiðir hugann að því hvort ekki þurfi að leita nýrra vinnubragða við slík samskipti.
    Þetta er ein harðasta og lengsta kjaradeila í seinni tíð og afleiðingar hennar þegar orðnar svo alvarlegar, bæði fyrir einstaklinga og ýmsa veigamikla starfsemi þjóðfélagsins, að erfitt er að efast um vilja manna til að reyna að finna lausn hennar.
    Þó að talsvert bæri á milli málsaðila við lok viðræðna er þó ljóst að báðir aðilar töldu sig vera að reyna að semja í fullri alvöru. Einnig kom fram að ýmislegt var í tilboði ríkisins sem BHMR-fólki þótti hugsanlegt að byggja á. Meginmunur var þó á skilningi málsaðila á eðli samningaviðræðna þessa helgi. BHMR-fulltrúum fannst þær vera fyrsta alvarlega tilraunin af hálfu ríkisins til að semja en hæstv. fjmrh. sem fulltrúi ríkisvaldsins virðist hafa talið sig vera að gera lokatilraun til samninga.
    Ég vil í þessu sambandi spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji ekki ástæðu fyrir ríkisvaldið að ganga aftur

til viðræðna við BHMR, annaðhvort formlega eða óformlega.
    Fulltrúar BHMR hafa kvartað yfir því að allt of fáir samningafundir hafi verið haldnir þær rúmar fjórar vikur sem verkfallið hefur staðið. Þeir hafa einnig lýst því í bréfi til þingmanna að kjarasamningar þeirra hefðu að óbreyttu runnið út um sl. áramót, en þá ríkti reyndar launafrysting og samningsbann sem síðasta ríkisstjórn setti 20. maí 1988, en núv. ríkisstjórn framlengdi til 15. febr. 1989. Enn fremur er því lýst að BHMR hafi í nóvember sl. vakið máls á því við fjmrn. hvort ekki væri rétt að taka upp nýja og betri siði í samningamálum og hefja samningaviðræður strax eftir áramótin.
    Þrátt fyrir góðar undirtektir hæstv. fjmrh. var þó samninganefnd ríkisins ekki skipuð fyrr en um miðjan febrúar þegar ólögum létti og viðræður byrjuðu síðari hluta febrúar. Þó að formaður samninganefndarinnar muni hafa rætt þar um launastefnu ríkisins kom fram að ekki væri á dagskrá að semja við BHMR. Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. fjmrh.:
    1. Hvers vegna hófust ekki viðræður við BHMR strax eftir áramótin eins og fulltrúar þess fóru fram á?
    2. Telur hæstv. ráðherra eftir á að hyggja að slíkar viðræður hefðu getað aukið skilning milli málsaðila og flýtt fyrir samningum?
    3. Hafa stjórnvöld markað sér heildarstefnu til lengri tíma í launamálum ríkisstarfsmanna? Ef svo er, hver er hún?
    Meginkrafa BHMR er að fá markaðslaun, þ.e. sömu laun og þeir hópar háskólamenntaðra launamanna sem vinna á almennum markaði og hafa hliðstæða menntun og ábyrgð. Veturinn 1985 þegar kennarar í Hinu íslenska kennarafélagi sáu ekki aðra leið út úr sínum vandræðum en að segja upp störfum og yfirgefa skólana fóru fram miklar viðræður milli kennara og ríkisvaldsins og þá voru skrifuð tvö bréf. Annars vegar bréf frá Albert Guðmundssyni, þáv. fjmrh., og hins vegar bréf frá hæstv. núv. forsrh. til staðfestingar á því sem sagði í bréfi Alberts. Bréf þetta var stílað til formanns launamálaráðs BHMR þann 20. mars og mig langar að vitna í það, með leyfi forseta:
    Fjmrh. afhenti fulltrúum Hins íslenska kennarafélags í gær yfirlýsingu sem vísar til bókunar ríkisstjórnarinnar frá 12. mars 1985, um samstarf á sviði kjararannsókna í þeim tilgangi að tryggja eðlilegt samræmi í kjörum milli ríkisstarfsmanna og manna í sambærilegum störfum á hinum almenna vinnumarkaði. Þegar hæstv. núv. forsrh. sem þá var einnig forsrh. var inntur eftir því hvernig hann skildi eftirgreind atriði í samþykkt ríkisstjórnarinnar sagði hann: ,,Þú spyrð hvernig ég skilji eftirgreint atriði í samþykkt ríkisstjórnarinnar. Tilgangur slíkra kjararannsókna yrði að tryggja eðlilegt samræmi í kjörum milli ríkisstarfsmanna og manna í sambærilegum störfum á hinum almenna vinnumarkaði. Með tilvísun til síðari samþykktar ríkisstjórnarinnar, m.a. þess efnis að laun fyrir dagvinnu skuli lögð til grundvallar sýnist mér að ekki

þurfi vafi á að leika. Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar ber að skilja svo að ætlunin er að tryggja ríkisstarfsmönnum sömu heildarkjör og menn hafa við sambærileg störf og ábyrgð, m.a. að dagvinnulaun verði hin sömu og þegar borin eru saman laun sem eru fyrir fulla dagvinnu aðeins og tekið tillit til hlunninda hvers konar.``
    Nú nýlega þann 14. apríl innti hv. 6. þm. Vesturl., Danfríður Skarphéðinsdóttir, hæstv. forsrh. eftir þessu og þá svaraði hæstv. forsrh. nokkuð á sömu leið.
    Ég vil ítreka þessa spurningu hv. 6. þm. Vesturl. og spyrja hæstv. forsrh. hvort hann sé enn sama sinnis og kom fram í því bréfi sem ég vitnaði í. Í öðru lagi vil ég spyrja hann: Telur hæstv. forsrh. rétt að leggja áherslu á langtímasamninga við BHMR með það fyrir augum að reyna að nálgast kröfur þeirra? Og í þriðja lagi: Hver var launaþróun meðal háskólamenntaðra manna hjá ríkinu frá nóvember 1987 til nóvember 1988 miðað við alla launþega í landinu og miðað við t.d. skrifstofufólk á almennum markaði?
    Nú þegar eru ýmsar rannsóknir og þjónusta seldar af sjálfseignarstofnunum og öðrum og kaupir ríkið þær oft hærra verði en þær mundu fást á hjá ríkisstofnunum. Telur hæstv. forsrh. ekki að um aukna tilhneigingu til stofnunar einkastofa af ýmsu tagi verði að ræða ef viðunandi lausn fæst ekki á þessari kjaradeilu? Einnig vil ég spyrja hann: Telur hann enn fremur að slíkt muni verða kostnaðarsamara fyrir ríkið þegar fram í sækir? Og í þriðja lagi: Óttast hæstv. forsrh. atgervisflótta úr hópi háskólamenntaðra manna í störfum hjá ríkinu ef þessi kjaradeila leysist ekki bráðlega?
    Kennarar og áhrif verkfalls þeirra á skólastarf hafa verið mjög áberandi í þessari kjaradeilu, einkum framan af, en þáttur annarra starfsstétta fer nú vaxandi. Mörg heimili hafa fundið fyrir þeim vanda sem blasir við nemendum, einkum þeim sem eru að ljúka skólagöngu og þeim sem þola illa röskun í námi. Félag framhaldsskóla hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun til Hins íslenska kennarafélags sem ég ætla að fá að lesa, með leyfi forseta:
    ,,Félag framhaldsskóla krefst þess að deiluaðilar í kjaradeilu Hins íslenska kennarafélags og ríkisins semji þegar í stað. Nú þegar hefur skapast neyðarástand í framhaldsskólum landsins, upplausn ríkir og fjöldi nemenda gefst upp, hættir í skóla og hrekst út á vinnumarkaðinn. Einnig er ljóst að þeim nemendum sem eftir sitja er nánast ómögulegt að skipuleggja nám sitt þar sem enginn veit hvort próf verða lögð fyrir og þá hvenær.
    Félag framhaldsskóla harmar það öryggisleysi sem ríkt hefur í íslensku menntakerfi undanfarin ár. Það hlýtur að teljast gjörsamlega óviðunandi að nám fari úr skorðum ár eftir ár eins og verið hefur. Því leggur Félag framhaldsskóla áherslu á að komist verði að viðunandi samkomulagi hið fyrsta og öryggi í skólamálum verði tryggt á komandi árum.
    Við Íslendingar stöndum að ýmsu leyti vel í samanburði við aðrar þjóðir og skörum jafnvel fram úr. Húsakostur okkar er prýðilegur þótt enn vanti

marga húsnæði. Bílaeign okkar er með endemum og fáar ef nokkrar þjóðir búa við jafnglæsilega aðstöðu fyrir peningaviðskipti og vörudreifingu. Erlendir ráðgjafar og ferðamenn undrast það t.d. opinskátt hvernig stórar og ríkulega búnar verslunarmiðstöðvar geti risið með svo fámennri þjóð. Og ýmislegt fleira mætti telja til af hinum ytri velsældarmerkjum. Mikilvægara er þó að heilbrigði okkar er almennt gott og langlífi einstakt og heilbrigðisþjónustan má teljast góð þótt ýmislegt megi þar bæta. Öðru máli gegnir hins vegar um skólakerfið og hvernig við höfum sinnt því, eða öllu heldur vanrækt það, eins og glögglega kemur fram t.d. í skýrslu Efnahags- og þróunarstofnunarinnar. Kennarar gegna í raun lykilhlutverki í þekkingarþjóðfélagi nútímans og má segja að þeir vinni við eina af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Kennsla barna og unglinga er undirstaðan undir þá endurmenntun, símenntun og fullorðinsfræðslu sem þegar sér merki og verður eðlilegur og óhjákvæmilegur þáttur þess framtíðarþjóðfélags sem börn okkar munu byggja.
    Mennt er máttur, bæði fyrir einstaklinginn og fyrir þjóðina. Þetta vita menn, a.m.k. í orði. Menn vita líka í orði að hugvitið verður látið í aska framtíðar. Menn vilja nýsköpun í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, nýsköpun sem er forsenda hagvaxtar, nýsköpun sem byggist á þekkingu.
    Hæstv. menntmrh. hefur haft ýmsar fyrirætlanir á prjónunum til að bæta skólastarf og leitaði eftir skoðunum foreldra og annarra um forgangsverkefni í þeim efnum í anda valddreifingar og er það vel. Allar hans fyrirætlanir hljóta þó að byggjast á því að í skólunum starfi kennarar og árangur skólastarfsins ræðst verulega af því hvort þar starfa hæfir kennarar sem una sínum hag.
    Kennarar hafa átt í kjarabaráttu um margra ára skeið. Sú var tíðin fyrr á öldinni að alþingismenn vildu ná launum til jafns við kennara. Nú er kennarastéttin, a.m.k. grunnskólakennarar, fyrst og fremst kvennastétt og laun hennar teljast ekki eftirsóknarverð til viðmiðunar. Byrjunarlaun kennara í grunnskóla eru nú rúmlega 55 þús. kr. á mánuði, en launahæstu kennarar munu vera með um 81 þús. kr. á mánuði eftir 21 árs prófaldur.
    Sl. 11 ár hafa alls sjö einstaklingar úr fjórum flokkum gegnt embætti menntmrh. Tíð ráðherraskipti hafa leitt af sér mismunandi stefnur, mörg loforð, kannanir, mat á störfum kennara og endurmat, en enn þá hefur það ekki skilað sér í launaumslög þeirra né heldur aukið virðingu fyrir störfum þeirra. Ég vil aðeins minnast á nokkrar þessara kannana.
    Kvennalistinn flutti tillögu um endurmat á störfum kennara á þinginu 1984 um það leyti sem harðar kjaradeilur voru hér uppi. Sú tillaga fékk mjög góðan hljómgrunn og stuðning þáv. menntmrh., Ragnhildar Helgadóttur, þótt ekki hlyti hún formlega afgreiðslu. En árið eftir kom út skýrsla menntmrn. um endurmat á störfum kennara. Það var í febrúar 1985, rétt áður en kennarar gripu til þess neyðarúrræðis að ganga út úr skólum landsins eftir að hafa sagt upp störfum

sínum. Í þeirri skýrslu kemur í ljós að kennarar hafa haft rétt fyrir sér öll undanfarin ár. Kröfur til þeirra bæði hvað varðar starfsálag og menntun hafa stöðugt aukist á sama tíma og þeir hafa stöðugt dregist aftur úr í launum.
    Í ágústmánuði 1987 kom út skýrsla OECD um menntastefnu á Íslandi, nokkuð þykk skýrsla og greining á menntakerfinu hér á landi. Þar er að sjálfsögðu töluvert fjallað um menntun og kjör kennara og eru hinir erlendu sérfræðingar sammála um að fátt ef nokkuð eitt sér hafi meira að segja um gæði skóla og skólastarfs en einmitt kennararnir sjálfir.
    Í nóvember 1987 birtist enn ein skýrsla um starfskjör framhaldsskólakennara ásamt tillögum. Sú skýrsla var unnin af sérstakri starfskjaranefnd sem skipuð var fulltrúum fjmrn., menntmrn. og Hins íslenska kennarafélags. Í upphafi greinargerðar með skýrslunni segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Margt bendir til þess að skólastarf á framhaldsskólastigi sé ekki í eins góðu horfi og æskilegt væri og virðist hafa hallað undan fæti í þessu efni síðustu árin. Til staðfestingar þessu má m.a. benda á athuganir sem gerðar voru sl. vetur á kennslu í íslensku og stærðfræði í framhaldsskólum. Skýrslur um niðurstöður þessara athugana hafa nýlega verið gefnar út. Brýnt er að snúa þeirri þróun við og gera til þess viðeigandi ráðstafanir, bæði í launamálum kennara og einnig hvað varðar starfsskilyrði þeirra.
    Óánægja og vonbrigði kennara með vinnuaðstöðu sína og laun er orðin langvinn og mætti sannarlega skilgreina sem uppsafnaðan vanda sem oft er notað í efnahagstali. Hún hefur orðið kveikja að þeirri samstöðu sem nú knýr kennara í kjarabaráttu, en er e.t.v. vanmetin af stjórnvöldum. Þessi langvarandi og vaxandi óánægja, launadeilur og skortur á almennri virðingu fyrir kennslu og kennarastörfum hefur grafið undan skólakerfinu og einnig valdið því að nemendur velja síður þær greinar í háskóla sem vísa á kennslu. Það er komið svo nú í Háskóla Íslands að þörfum skólans er ekki svarað í þessum efnum. Sama máli gildir einnig um nýliðun í ýmsum umönnunarstörfum sem eru lágt launuð og lítið virt og eru einmitt oft kvennastörf. Úr þessum greinum er flótti og þetta er alvarleg þróun því að það verður ekki séð hver á að sinna þessum störfum í framtíðinni. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh.:
    1. Hvernig hyggst hann bregðast við vanda framhaldsskólanema og kennara nú?
    2. Hvernig hyggst hann tryggja hæfa kennara í skólann til þess að hrinda áformum sínum í framkvæmd?
    3. Óttast hæstv. menntmrh. atgervisflótta úr kennarastéttinni ef þessar kjaradeilur leysast ekki á viðunandi hátt?
    4. Telur hæstv. menntmrh. sig vera að brjóta eða vinna gegn verkfalli kennara ef hann býður nemendum upp á próflaus skólalok, t.d. með aðgangi í Háskólann?
    En það eru fleiri þættir þjóðlífsins em hafa orðið fyrir áhrifum af þessari kjaradeilu og vil ég minnast

á nokkra þeirra.
    Verkföll hafa þegar haft alvarleg áhrif á starfsemi Landspítalans. Þar er að sögn formanns læknaráðs rekin þróunarlandalæknishjálp, en hún felst í því að bjarga einungis bráðum vanda en láta annað bíða. Reyndar barst mér í dag bókun sem gerð var á fundi stjórnarnefndar ríkisspítalanna, svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Stjórnarnefnd ríkisspítala lýsir áhyggjum sínum af því ástandi sem skapast hefur á sjúkrahúsunum vegna yfirstandandi verkfalls. Framhald vinnustöðvunar leiðir til gersamlega óþolandi ástands á spítölunum og verður því að linna sem allra fyrst. Nefndin beinir því til aðila kjaradeilunnar að þeir gangi til
samninga sem allra fyrst.`` Þetta er undirritað fyrir hönd stjórnarnefndarinnar af Davíð Á. Gunnarssyni, forstjóra ríkisspítalanna.
    Slíkri ,,þróunarlandalæknishjálp`` eins og ég nefndi áðan er hægt að halda gangandi endalaust, enda þurfa mörg lönd í heiminum að sætta sig við það og hafa ekki annað. En það er algjörlega óviðunandi fyrir siðmenntað þjóðfélag í góðum efnum. Auk þess leiðir það af sér mikinn vanda sem tekur langan tíma að leysa. Nú eru fimm deildir lokaðar og starfsemi minnkuð á þrem deildum en um 190 rúm standa auð.
    Skammtímaáhrif verkfalls hinna ýmsu stétta sem starfa á spítölunum koma fram í minnkaðri þjónustu sem bitnar á sjúklingum og því starfsfólki sem vinnur á meðan á verkfalli stendur. Sjúklingar liggja eins stutt inni og ástand leyfir og bati sjúklinga sem þurfa á endurhæfingu að halda er hægari. Innköllun sjúklinga er mjög takmörkuð og mikið álag er á því starfsfólki sem vinnur í neyðarþjónustu í verkfallinu. Langtímaáhrif verkfallsins koma hins vegar fram í lengri biðlistum sem flestir voru nógu langir fyrir verkfall. Einnig er mikil hætta á uppsögnum í kjölfar deilunnar og minnkandi aðsókn að námsbrautum þessara viðkomandi stétta.
    Landspítalinn mun brátt ekki verða fær um að gegna bráðavaktaskyldu sinni og þá mun áhrifa kjaradeilunnar fara að gæta á Borgarspítala og Landakoti sem hafa verið tiltölulega lausir við hana hingað til.
    Blóðbankinn gegnir lykilhlutverki við allar aðgerðir. Við hann starfa nú 22 náttúrufræðingar sem allir eru í verkfalli. Í verkfallinu hefur Blóðbankinn starfað eins og á stórhátíðum, þ.e. einn náttúrufræðingur er á vakt og sótt hefur verið um undanþágur fyrir fleiri náttúrufræðinga vegna brýnustu neyðarþjónustu. Blóðbankinn er því algjörlega háður undanþágum fyrir náttúrufræðinga til að halda uppi brýnustu neyðarþjónustunni. Hann þjónar öllu landinu og því gætir verkfalls um allt land. Þar er aðeins sinnt brýnustu neyðartilfellum. Frestast allar aðrar aðgerðir og ekki er útséð hvernig á að vinna upp þann hala sem myndast hefur vegna nærri fimm vikna verkfalls. Um þrjár hjartaaðgerðir hafa verið gerðar á hverri viku að jafnaði, en nú hafa einungis um fjórar bráðaaðgerðir verið gerðar frá því að verkfall hófst en aðrir sjúklingar sendir utan til aðgerða. Þetta hefur í

för með sér mikil óþægindi og aukinn kostnað.
    Ýmsar fleiri starfsstéttir mætti nefna, t.d. félagsráðgjafa sem oft fjalla um afar viðkvæm mál einstaklinga sem minna mega sín og þola illa rof eða röskun í meðferð. Þegar stuðningur fellur niður einangrast þessir einstaklingar oft með vanda sinn og gefast upp á að leita sér frekari aðstoðar. Mig langar að lesa hér bókun sem gerð var í félagsmálaráði Reykjavíkurborgar í morgun, með leyfi forseta:
    ,,Félagsmálaráð lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þeirra áhrifa sem verkfall félagsráðgjafa hefur á alla félagsmálaþjónustu borgarinnar. Er m.a. ljóst að meðan verkfall stendur yfir mun falla niður eftirlit og meðferð í erfiðum barnaverndarmálum, úrvinnsla annarra meðferðarmála og fjárhagsaðstoð til skjólstæðinga Félagsmálastofnunar. Er það síst til að bæta stöðuna að versnandi atvinnu- og efnahagsástand kemur harðast niður á þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu og þar af leiðandi hefur þörfin fyrir þjónustu Félagsmálastofnunar aukist á undanförnum mánuðum. Velferð fjölmargra einstaklinga er undir því komin að þeir eigi kost á öruggri og markvissri félagsmálaþjónustu. Slík þjónusta verður ekki veitt nema til staðar sé menntað og ánægt starfsfólk. Því skorar félagsmálaráð á deiluaðila í yfirstandandi kjaradeilu að ganga þegar í stað til samninga og tryggja að hægt verði að halda uppi eðlilegri félagsmálaþjónustu í borginni.``
    Þetta var samþykkt einróma á fundi ráðsins í morgun.
    Ég vil síðan vísa hv. þm. á viðtal við Þóri Guðbergsson ellimálafulltrúa sem birtist í Morgunblaðinu í gær sem gefur glögga mynd af því hvernig þetta ástand hefur áhrif á aldraða í borginni. Og ég vil minna hv. þm. á það að nú er einmitt að fara í gegnum þetta þing nýtt frv. til laga um málefni aldraðra sem er vaxandi vandi í þessu þjóðfélagi vegna þess að fjöldi aldraðra fer vaxandi, aldraðra sem þurfa umönnunar við, en einnig þarf að hjálpa til sjálfsbjargar því að það er mjög mikilvægt að endurhæfa fólk og gera því kleift að annast sig sjálft og búa í heimahúsi eins lengi og hægt er. Þessi þjónusta er nú öll í molum.
    Ég vil að lokum spyrja hæstv. heilbrmrh. hvað hann telur að megi lengi una við það ástand á heilbrigðisstofnunum sem ég hef nú lítillega lýst og þó ekki nema að takmörkuðu leyti.
    Önnur þjónusta sem raskast og snertir marga einstaklinga er þjónusta lögfræðinga sem vinna hjá ríkinu. Skjölum er ekki þinglýst og ný mál ekki þingfest og munu nú hafa safnast 3000 skjöl óafgreidd. Þetta kemur niður á öllum fasteigna- og bifreiðaviðskiptum sem ekki geta farið fram með eðlilegum hætti, svo og á lánamarkaðinum þar sem engin verðtryggð lán eru afgreidd. Hjá hinum ýmsu rannsóknarstofnunum í þágu atvinnuveganna hefur orðið mikil eða talsverð röskun. Er það bæði varðandi þjónustu við atvinnuvegina eða
almenning, svo og vegna truflunar, oft óbætanlegrar, á mikilvægum rannsóknarverkefnum.

    Sameiginlegur vandi margra þessara stofnana er að þeim er ætlað að fjármagna rekstur sinn að nokkru eða verulegu leyti með því að selja þjónustu sína eða afurðir. Þetta getur undir venjulegum kringumstæðum orðið mörgum stofnunum erfitt. Nú er þegar skeð og fyrirsjáanlegt enn frekara tekjutap margra þessara stofnana vegna kjaradeilunnar og munu þær ekki geta lagt fram áætlaðar sértekjur til rekstrar. Og þá vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig hyggst hann taka á þessum vanda við næstu fjárlagagerð? Mun hann bæta þessum stofnunum orðið tap með auknum fjárveitingum?
    Ég vil beina spurningu til hæstv. sjútvrh. en hann er ekki hér, hygg ég. Forseti, er hæstv. sjútvrh. í húsinu? ( Forseti: Hæstv. sjútvrh. mun ekki vera í húsinu.) Þá mun ég beina þessari spurningu til hæstv. forsrh. í fjarveru hæstv. sjútvrh.
    Fyrir dyrum hafa staðið viðræður íslenskra og bandarískra stjórnvalda um áframhald hvalveiða í vísindaskyni og undirbúning fyrir ársfund Alþjóðahvalveiðiráðsins. Undirbúningur og þátttaka hefur að verulegu leyti hvílt á starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar og því alls óvíst að þessar viðræður geti farið fram. Öllum hvalarannsóknum hjá Hafrannsóknastofnun seinkar nú, en þær eru nauðsynlegar til undirbúnings fyrir fund vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins þann 20. maí nk. Hvalveiðar Íslendinga eru mjög viðkvæmt mál og þátttaka vísindamanna á fundi vísindaráðsins er væntanlega talin mikilvæg. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. í fjarveru hæstv. sjútvrh. hvernig hann meti þessa stöðu mála og hvernig hann telur vænlegt að bregðast við.
    Á Iðntæknistofnun hefur verkefni varðandi lúpínur fyrir landgræðslu farið forgörðum. Sáðvara fyrir kornbændur á Suðurlandi verður ekki leyst úr tolli og síðustu forvöð að sá í gær eða dag. Leiðbeiningarþjónusta landsráðunauta liggur niðri, en mikil nauðsyn er á leiðbeiningum varðandi grænfóðurrækt vegna útlits fyrir víðtækt kal í túnum sem við komumst svo sannarlega að í umfjöllun um frv. til laga um jarðræktarmál sem liggur fyrir þinginu og var í umfjöllun Ed. nú fyrir nokkrum dögum, og var reyndar samþykkt þar.
    Fyrirsjáanlegur er verulegur skortur á trjáplöntum til gróðursetningar á næstu árum þar sem sáning fræja verður ekki á meðan á verkfalli stendur. Og fyrir þinginu liggur einnig frv. til laga um skógræktarátak. Ég minni á það.
    Landgræðslu ríkisins vantar 4 tonn af túnvingulsfræi til nota í sumar til landgræðslu. Verulega slæmt ástand ríkir vegna skorts á fiskeldisfóðri sem ekki fæst afgreitt úr tolli og seiðadauði yfirvofandi. Þetta síðastnefnda atriði hefur vakið umfjöllun fjölmiðla og áhyggjur stjórnmálamanna og nú síðast ráðherra eins og kom fram í fréttum, enda miklir fjármunir í húfi. Ég vil því spyrja hæstv. landbrh.: Hvernig hyggst hann taka á þessum vanda sem ég hef lýst og heyrir undir ráðuneyti hans?
    Nokkur stéttarfélög í BHMR sendu frá sér

fréttatilkynningu nú nýlega þar sem þau furðuðu sig á yfirlýsingum hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar, formanns fiskeldis- og hafbeitarstöðva í fjölmiðlum þann 28. apríl sl. þar sem hann hafði í hótunum við Félag ísl. náttúrufræðinga vegna þeirra áhrifa sem verkfall Félags ísl. náttúrufræðinga hefur haft á starfsemi fiskeldisstöðva. Samtökin gerðu athugasemd vegna þess að hv. þm. er jafnframt formaður stjórnarnefndar ríkisspítala og þau töldu hann ekki hafa séð ástæðu til þess að lýsa opinberlega yfir áhyggjum vegna áhrifa verkfalls háskólamenntaðra starfsmanna á ríkisspítölum þar sem þau töldu ríkja neyðarástand og sendu fréttatilkynninguna og bréf til ráðherra og hv. þm. Nú vill svo til að viðkomandi þingmaður er fjarstaddur og getur ekki skýrt mál sitt. Vera kann, og ekki ólíklegt, að hann hafi einungis verið spurður af fréttamanni um vanda fiskeldisstöðva af völdum verkfalls en ekki um neitt annað og því ekki gefist tækifæri til að tala um annað efni.
    Hins vegar vekja ummæli hv. þm. upp hugleiðingar um áhugaverðan þátt þessa máls, þ.e. um bótakröfur og bótaskyldu í verkföllum eða vegna tjóns af völdum verkfalla. Hver er í raun réttur þolenda? Er það staðreynd t.d. að verkfallsvopnið bítur síður á ríkið en á atvinnurekendur á almennum markaði?
    Ég hef minnst lítillega á nokkur atriði þar sem um er að ræða fjárhagslegt tjón, jafnvel mögulega heilsutjón, tjón vegna tímatafar eða óþæginda og röskunar af ýmsu tagi. Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Að hvaða leyti telur hann að ríkisvaldið sé samábyrgt í kjaradeilu sem þessari og þess vegna bótaskylt?
    Vegna þeirrar kjaradeilu sem hér er til umræðu hafa verið skrifaðar margar greinar í dagblöð um störf og kjör hinna ýmsu stétta sem eiga í verkfalli. Greinarnar hafa verið skrifaðar í anda kjarabaráttu og hafa þær margar verið fróðleg kynning á ólíkum störfum og til þess fallnar að auka skilning á eðli og mikilvægi viðkomandi starfa. Það er allt of algengt að við vitum of lítið hvert um annars hag í þjóðfélaginu. Við þekkjum eigin kjör, e.t.v. skyldmenna og vina, en eigum sjaldnast það náin samskipti við aðra sem vinna við ólík
störf að við kynnumst í raun kjörum þeirra eða þekkjum störf þeirra og mikilvægi framlags þeirra. Slík fáfræði elur á fordómum og er góður jarðvegur fyrir sundrungu. Íslensk verkalýðshreyfing hefur verið of veik og sundruð til að knýja fram sæmandi launahækkanir fyrir allan þorra launafólks og koma á jafnari tekjuskiptingu. Meðan enn er ekki trygging fyrir lágmarkslaunum til framfærslu heyrast ævintýralegar tölur um laun einstakra forstjóra og meðan engir eða litlir peningar finnast hjá þessari sjöttu ríkustu þjóð í heimi í laun til að endurgjalda verðmætasköpun vinnandi fólks skila fjármagnsfyrirtæki, bankar, sparisjóðir og tryggingafyrirtæki dágóðum arði eins og hefur komið fram í fréttum undanfarna daga. Framleiðslufyrirtækin flest virðast þó ekki vera aflögufær og er það undarleg skipting í einu þjóðfélagi.
    Ég tel þá þróun hættulega sem orðið hefur í þessari

kjaradeilu að fleygur var rekinn í samstöðu launafólks og vík mynduð milli háskólamenntaðs fólks og annars launafólks. Við því má verkalýðshreyfingin síst af öllu en þannig má deila og drottna. Gleymum því ekki að við erum öll alin upp við þá hugsun að í mennt búi máttur. Við höfum öll væntingar til menntunar og þannig sækja allar stéttir sér aukin réttindi með námi á ýmsan hátt. Það breytir þó ekki því að langskólagenginn maður getur verið lítið menntaður en sá sem aldrei hefur í skóla komið getur verið sannmenntaður af sjálfum sér. Skólaganga er auðvitað ekki eingildur mælikvarði á menntun en hún hefur öðlast æ meira gildi í breyttu þjóðfélagi sem byggir í æ ríkari mæli á sérhæfingu og sérmenntun. Og það er skylda þjóðfélagsins að tryggja jafnrétti og jafnræði á því sviði. Það hefur verið reynt að gera með ýmsum hætti á undanförnum árum og einn mikilvægasti áfanginn í þeim efnum er Lánasjóður ísl. námsmanna sem á stærstan þátt í því að gera börnum efnalítilla foreldra kleift að stunda langskólanám.
    Það ber vott um ábyrgðarleysi og skammsýni að reyna að skapa óvild í garð langskólagengins fólks á þann hátt sem gert hefur verið og vinna þannig gegn nauðsynlegri samstöðu vinnandi fólks eða manneskja sem allar hafa sínu mikilvæga hlutverki að gegna í þjóðfélaginu. Betri laun, bætt kjör og meiri launajöfnuður fyrir alla nást einungis með samstöðu launafólks. Kvennalistakonur hafa sagt að það væri fleira sem sameini konur en það sem greinir þær að. Það sama má segja um launafólk.
    Snótarkonur í Vestmannaeyjum stóðu lengi einar í verkfalli á sl. ári og einmitt þær sendu kennurum kærkomna stuðningsyfirlýsingu og fjárframlag í verkfallssjóð. Reynslan er besti skólinn er sagt og þær vissu e.t.v. að það er erfitt að standa í verkfalli, það er andleg raun ekki síst þegar almenningsálitið snýst gegn manni og það er mikið fjárhagslegt tjón fyrir fjölskyldur oft á tíðum. Það er ekki óeðlilegt að launafólk leiti kjarabóta í kjölfar mestu góðæra sem yfir þjóðina hafa gengið. En þá er sagt og þykir ótrúlegt að ekki sé lag. En ég spyr: Hvenær er þá lag til að afnema þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt allt of lengi ef það er ekki í kjölfar góðæranna, hvers metaflaársins á fætur öðru?
    Þessi kjaradeila varpar ljósi á fámennt þjóðfélag sem ber ótrúleg merki ytri velsældar að mörgu leyti. Það ríkir þó alvarleg skekkja í áherslum á forgangsröðun fjárfestinga í þessu þjóðfélagi og þrátt fyrir ytri velmegunarmerki leggjum við nú grunn að fátækt barna okkar með því að hlúa ekki að en vanrækja menntun þeirra. Ræktun og beiting þess hugvits sem getur mætt framtíð breyttra atvinnuhátta byggir á menntun, góðri almennri menntun allra landsmanna. Til þess að nýjar hugmyndir geti blómstrað þarf ákveðna lágmarksþekkingu meðal þjóðarinnar, ef svo má að orði komast, og það er m.a. sá jarðvegur sem stjórnvöld bera ábyrgð á að skapa.
    Þeir erfiðleikar sem nú er við að etja eru tímabundnir. Við munum þó þurfa að læra að spinna okkur frá þeim því að neyðin kennir naktri konu að

spinna og við þurfum að læra að leggja þættina saman, sameina kraftana. Öllu máli skiptir enn fremur hvort okkur tekst að draga nokkurn lærdóm af þeirri togstreitu um grundvallaratriði í þjóðfélaginu sem nú er uppi, hvort hún verður okkur nauðsynleg og holl áminning, hvort hún hvetur okkur til endurskoðunar á því hvað okkur sé í raun nauðsynlegt, hverjar þarfir okkar séu, hvernig við skilgreinum okkur sjálf og það þjóðfélag sem við byggjum, hvort hún hvetur okkur til að hyggja að því verðmætamati sem ræður ákvörðunum okkar og gerðum, hvort hún hvetur okkur til réttlátari breytni, jafnari tekjuskiptingar, hvort hún vekur okkur af vímu hinnar nýríku þjóðar sem hefur lagt óhóf og bruðl í vana sinn en gleymir um of að sinna því sem hana varðar mestu og er henni kærast þegar öllu er á botninn hvolft.
    Það er kominn tími til að eyða þeim mótsögnum sem við blasa og breyta verðmætamatinu. Það er kominn tími til að eyða óréttlátu holræsakerfi í launamálum þar sem menn ná framfærslulaunum sínum með óhóflegri yfirvinnu og duldum greiðslum af ýmsu tagi, sér og fjölskyldum sínum til tjóns. Launajöfnuði milli karla og kvenna og milli allra einstaklinga í þjóðfélaginu verður ekki náð fyrr en ljóst er hver laun manna eru í raun.
    Virðulegur forseti. Ég tel nauðsynlegt fyrir þing og þjóð að fá svör við þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra og ég tel einnig óhugsandi að þinginu ljúki áður en þessi kjaradeila er leyst.