Kjaradeila BHMR og ríkisins
Föstudaginn 12. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst byrja á því að svara þeim spurningum sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir bar hér fram og síðan víkja örfáum orðum að grundvallaratriði þeirrar lausnar sem nauðsynlegt er að leitað sé á þessari erfiðu deilu.
    Fyrsta spurningin var á þann veg, hvers vegna hófust ekki viðræður við BHMR strax eftir áramótin eins og fulltrúar þess fóru fram á? Um þetta atriði hefur nú verið nokkuð mismunandi skilningur milli mín og forustumanna BHMR. Í nóvembermánuði komu fulltrúar bæði Hins íslenska kennarafélags sérstaklega og enn fremur formaður og framkvæmdastjóri BHMR til mín og röktu nokkuð ítarlega að sú reynsla hefði fengist af fyrri kjarasamningum að margvíslegar vanefndir hefðu orðið á bókunum og ýmsu öðru sem samið hefði verið um í þessum kjarasamningum. Þessir forustumenn, bæði BHMR og Hins íslenska kennarafélags lögðu á það ríka áherslu við mig í nóvembermánuði að áður en gengið væri til kjarasamninga um kjör framtíðarinnar yrði að leysa úr þessum erfiðleikum sem vanefndirnar á fyrri samningum hefðu skapað og var þar vikið að margvíslegum bókunum og fjölmörgum öðrum atriðum. Það væri nauðsynlegt að eyða þessum syndum frá fyrri tíð og skapa þannig traust milli aðila á nýjan leik vegna þess að fyrri mánuðir og jafnvel fyrri ár hefðu skapað mikla vantrú milli þessara samtaka og ríkisvaldsins.
    Eftir þessi samtöl var sett í gang vinna af hálfu samstarfsnefnda og fulltrúa ríkisins, að fara yfir þessa skrá, yfir deiluatriði frá fyrri tíð og reyna að leysa þau hvert af öðru. Það var ýmislegt á þessari skrá. Sumt var minni háttar, annað meiri háttar. Ég stóð í þeirri trú í desember- og janúarmánuði, eins og ég skildi þetta upphaflega erindi forustumanna þessara samtaka, að áður en gengið væri til nýrra formlegra kjarasamninga yrði að vinna sig í gegnum og reyna að ná niðurstöðu varðandi sem flestar af þessum vanefndum frá fyrri tíð. Það kom mér þess vegna nokkuð á óvart að í seinni hluta janúarmánaðar og byrjun febrúarmánaðar var sett fram á mjög skömmum tíma mjög eindregin krafa um það að formlegir kjarasamningar hæfust strax og beinlínis undan því kvartað að það væri ekki gert. Ég hafði skilið málflutninginn á þann veg að til þess að skapa tiltrú á nýjan leik þyrfti fyrst að greiða úr ýmsum flækjum frá fyrri tíð. Það var ástæðan fyrir því að þessar samningaviðræður hófust ekki strax eftir áramótin, eins og fyrirspyrjandi spurði um, enda var í desembermánuði og janúarmánuði leitað lausna með góðum árangri á ýmsum af þeim atriðum sem á þessum vanefndalista var að finna.
    Það er einnig þáttur í þessu máli, án þess að ég telji hann neitt úrslitaatriði, að ég taldi nauðsynlegt að gera ýmsar breytingar á samninganefnd ríkisins, taka þar inn nýtt fólk og gera þar endurnýjun af ýmsu tagi og það tók einfaldlega lengri tíma að finna fólk til þeirra verka og fá fólk til þess að taka það að sér vegna þess að eins og alkunna er þá er það tímafrek

vinna, oft og tíðum vinna nætur og daga, vikum saman og krefst margvíslegra fórna, bæði hvað snertir einkalíf, fjölskyldulíf og aðra slíka einstaklingsbundna hætti. Það var þess vegna meira verk en ég taldi upp úr áramótum að finna það nýja fólk sem ég lagði áherslu á að tæki sæti í samninganefnd ríkisins. Þess vegna var hún ekki fullmönnuð fyrr en raun bar vitni.
    Ég er hins vegar sannfærður um það og vil segja það hér að ég tel að það nýja fólk sem þarna kom til starfa hafi staðið sig með afburðum vel og þeir kjarasamningar sem nú þegar hafa verið gerðir, bæði við BSRB, við Sókn og ýmis önnur félög, endurspegli með ýmsum hætti þau nýju viðhorf sem komu inn í samninganefnd ríkisins með því nýja fólki sem þar tók sæti.
    Önnur spurningin er að nokkru leyti tengd hinni fyrri, hvort ég telji eftir á að hyggja að slíkar viðræður hefðu getað aukið skilning milli málsaðila og flýtt fyrir samningum. Það er auðvitað alltaf erfitt að líta til baka og velta slíkum ef-spurningum fyrir sér. Það má vel vera að svo hefði getað orðið. Það fer bæði eftir því hvað hefði þar verið fram lagt og staðreyndin er nú sú að ef litið er á þá upphaflegu kröfugerð sem lögð var fram, bæði af hálfu forsvarsmanna BHMR og einnig annarra samtaka, þá var hún á ýmsan hátt almenns eðlis og ekki ítarlega útfærð og tók nokkurn tíma að sú útfærsla lægi á borðinu svo að þegar viðræður hófust þá var það nokkuð ljóst að þó nokkur vinna þurfti að fara fram af hálfu beggja aðila til að skýra þessa þætti.
    Þriðja spurningin var hvort stjórnvöld hefðu markað sér heildarstefnu til lengri tíma í launamálum ríkisstarfsmanna. Ef svo er, hver er hún? Þótt ýmsar hugleiðingar hafi verið settar fram varðandi eðli slíkrar framtíðarstefnu, þá hefur hún ekki verið mótuð í heild sinni. Hins vegar hef ég í viðræðum við bæði BSRB, við kennarasamtökin, við forustumenn BHMR og ýmsa aðra, bæði í einkaviðræðum og á formlegum fundum, sett fram þá skoðun mína að það sé alveg nauðsynlegt að marka slíka stefnu til lengri tíma og í henni þurfi að taka tillit til margs fleira en launa. Það þurfi að taka tillit til þátttöku starfsmanna ríkisins í stjórnun. Það þurfi að taka mið af möguleikum til
aukinna lýðræðislegra áhrifa. Það þurfi að taka tillit til möguleika á endurmenntun. Það þurfi að taka tillit til ábyrgðar og fjölmargs annars sem inn í slíka heildarlaunastefnu kemur. Í raun og veru má segja að slík launastefna feli ekki bara í sér ákveðna afstöðu til kjara, heldur líka til þess hvers konar þjóðfélag við viljum þróa í okkar íslenska samfélagi.
    Ég átti mér þá von og á hana reyndar enn að það geti tekist nokkuð góð samvinna með fulltrúum ríkisins og fulltrúum þeirra fjölmörgu samtaka sem starfa hjá opinberum aðilum, bæði ríki og bæjarfélögum, til að móta slíka stefnu til lengri tíma. Hins vegar er ljóst að það eru fjölmörg samtök sem starfsmenn ríkisins eru í. Það er ekki bara BSRB og BHMR. Það er einnig Kennarasambandið, það eru einnig félög innan Alþýðusambandsins og fjölmargir aðrir. Því miður er það þannig að enn sem komið er

er ekki formlegur samstarfsvettvangur þessara fjölmennu samtaka launafólks sem semja við ríkið. Eitt af því sem þyrfti þess vegna að skapa til þess að árangursrík umræða um þennan þátt geti farið fram er slíkt virkt samstarf þessara fjölmörgu samtaka launafólks sem semja við ríkið og bæjarfélögin einnig um sín kjör því að staðreyndin er nú sú að þessir tveir opinberu aðilar, ríki og bæjar- og sveitarfélög hafa haft nána samvinnu í þessum málum.
    Í þessu sambandi má t.d. vekja athygli á því að þótt nú sé háð hér hörð kjaradeila við Hið íslenska kennarafélag og hún sé í daglegu tali kennd við kennara, með litlum staf, og var að nokkru leyti gert einnig í ræðu hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur, þá er það t.d. staðreynd að ríkið semur við fimm samtök kennara, þ.e. Hið íslenska kennarafélag, Kennarasambandið, Félag háskólakennara, Félag tækniskólakennara og Félag kennara við Kennaraháskóla Íslands. Ég held að þessi eina staðreynd sýni nokkuð vel í hnotskurn að því miður eru ansi fjölþætt og mörg samtök launafólks á þessum vettvangi. Það er aðeins eitt af þessum kennarafélögum sem er í verkfalli. Samningar hafa verið gerðir við eitt af þessum fimm félögum og viðræður fara fram án verkfalls við hin þrjú.
    Fjórða spurningin sem hv. þm. bar fram snertir vanda margra rannsóknastofnana sem starfa í þágu atvinnuveganna og er ætlað að nokkru leyti að fjármagna rekstur sinn með því að selja þjónustu sína eða afurðir. Spurt var um það hvernig yrði tekið á því tekjutapi sem þessar stofnanir hafa orðið fyrir vegna þessa verkfalls og vikið að næstu fjárlagagerð í þeim efnum, og hvort þetta tap yrði bætt upp með auknum fjárveitingum. Þessi þáttur málsins hefur ekki verið skoðaður enn sem komið er. Það er satt að segja mjög erfitt að vega hann og meta meðan verkfallið stendur, m.a. vegna þess að það er ekki ljóst hvernig starfsemi þessara stofnana verður háttað þegar verkfallið leysist.
    Það er heldur ekki mjög skynsamlegt að mínu mati að vera að framkvæma slíkt tjónamat á meðan verkfallið stendur vegna þess að það gæti bæði spillt fyrir viðræðum og samskiptum þeirra sem þurfa að leysa þessa deilu og einnig stuðlað að margvíslegum öðrum misskilningi. Hins vegar er það alveg ljóst að þegar samið verður þá er þetta einn af þeim veigamiklu þáttum sem skoðaðir verða.
    Ég vil svo aðeins, virðulegi forseti, nota þetta tækifæri til þess að víkja örfáum orðum að því hvernig þessi deila stendur og hefur þróast, og ég geri það vegna þess að ég skil þá ákvörðun hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur og fulltrúa Kvennalistans að óska hér utandagskrárumræðu um þetta mál svo, að af þeirra hálfu hafi ætlunin ekki verið bara að rekja hin ýmsu vandkvæði sem samfara eru þessari deilu, heldur einnig leggja sitt af mörkum til þess að hún megi leysast. Og ég vænti þess einnig að aðrir hv. þm. séu reiðubúnir til þess að leggja fram hugmyndir og greina frá sinni afstöðu. Því miður er það þannig að deilur af þessu tagi verða ekki leystar nema veitt séu ákveðin svör og ég saknaði þess nokkuð að í ræðu

hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur var ekki að finna efnivið í þau svör sem gætu stuðlað að lausn þessarar deilu. Og vegna þess að ég vildi gjarnan sækja ráð til hv. þm. í þeim efnum, langar mig til þess að bera þær tvær spurningar fram, eftir að hafa reifað í stuttu máli hvernig staða málsins er, því að ég hef þá reynslu af hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur að hún vilji taka ábyrga afstöðu í málum og hafa góð ráð fram að færa. Og þar eð ekki var í hennar ræðu að finna í raun og veru neitt það sem gæti beinlínis stuðlað að því að deilan væri leyst, þó að ræðan væri að mörgu leyti mjög góð og yfirgripsmikil, þá langar mig hér í þessari umræðu að víkja að þeim þætti.
    Ég vil enn fremur skýra hv. Alþingi frá því að sl. laugardag, laugardagsmorgun, átti ég viðræður við formann BHMR og síðan framkvæmdastjóra BHMR, þar sem ég greindi þeim frá því að mat ríkisstjórnarinnar væri að nú yrði um þá helgi að gera úrslitatilraun til þess að leysa deiluna. Og ég legg áherslu á orðið úrslitatilraun í þeim efnum. Ég lýsti í þeim viðræðum forsendum þess að samningur gæti tekist að mínum dómi. Þessar forsendur fólu að nokkru leyti í sér ný atriði af hálfu ríkisins:
    1. Að samþykkt yrði að taka upp nýtt launakerfi hjá háskólamenntuðum ríkisstarfsmönnum sem byggt væri á mati á menntun og á ábyrgð.
    2. Að skýrt yrði tekið fram hvenær þetta nýja launakerfi tæki gildi.
    3. Að sett yrði ákveðin lágmarkstrygging eða ,,gólf`` eins og stundum er sagt á samningamáli sem tryggði, og ég legg áherslu á það, sem tryggði á hverju ári tiltekinn ávinning af þessari kerfisbreytingu einni saman, óháðan öðrum launabreytingum, en sú tala yrði hins vegar að vera lág, eins stafs prósentutala á hverju ári.
    4. Að stofnaður yrði sérstakur sjóður sem telja mundi a.m.k. allmarga tugi milljóna árlega til þess að fjármagna margvísleg réttindamál, hagsmunabætur og fjölmargt annað sem snertir sérstaklega starfskjör og kjarakjör háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna. Launaþróun á árinu 1989 mundi síðan taka mið af þeirri útfærslu launaþróunarinnar sem fram hefur komið í samningum við Félag háskólakennara.
    Eftir viðræður sem áttu sér stað í samninganefnd BHMR komu formaður og framkvæmdastjóri BHMR á minn fund um hádegi sl. laugardag og greindu mér frá því að þeir væru sammála því að hér væri um úrslitatilraun að ræða og það væri niðurstaða þeirra og samninganefndar BHMR að hefja samningaviðræður á þeim grundvelli sem ég hefði lýst. Og ég legg ríka áherslu á þessi orð: á þeim grundvelli sem ég hefði lýst.
    Í framhaldi af því höfðum við síðan samband við sáttasemjara ríkisins, skýrðum honum frá þessum grundvelli og hann ákvað þá að tveir viðræðuhópar væru settir upp annars staðar, fyrir utan húsnæði sáttasemjara, til þess að fullvinna samning á þessum grundvelli.
    Ég ætla ekki hér að rekja ítarlega atburði síðustu helgar. Ég vil þó segja það alveg skýrt og greinilega

að ég stóð í þeirri einlægu trú þar til seint á sunnudagskvöld þegar mér bárust aðrar fréttir innan úr samninganefnd BHMR að við værum að vinna að samningi á þeim skýra og tiltekna efnisgrundvelli sem ég lýsti munnlega á laugardagsmorgun og lagði síðan fram skriflega fyrir sex manna samninganefnd BHMR um kl. 4 á laugardagseftirmiðdag þegar vinnan í Borgartúni 6 hófst. Þannig að grundvöllur þessara viðræðna var alveg skýr strax í upphafi, bæði munnlega og skriflega. Síðan var unnið að útfærslu hans með því að við skiptumst á margvíslegum skjölum og tillögum og útfærslum, bæði nefnd BHMR og fulltrúar ríkisins. Það urðu mér þess vegna mikil vonbrigði að þessi mikla vinna, sem ég taldi vera sameiginlega vinnu og var í öllu eðli sínu að dómi þeirra sem oft hafa tekið þátt í samningum lokavinnan, skyldi ekki bera árangur.
    Mér hefur síðan verið tjáð að ástæðan fyrir því að þau samningsdrög sem voru ávöxtur þessarar vinnu hefðu ekki verið samþykkt af hálfu BHMR sé sú að í þeim felist ekki nægilegar kjarabætur á árinu 1989 né heldur nægileg árleg trygging fyrir því hverju kerfisbreytingin eigi að skila árlega sérstaklega til félaga í BHMR vegna þess að í þessum grundvelli var samþykkt að taka upp nýtt launakerfi. Það var dagsett hvenær átti að taka það upp. Það var samkomulag um aðferðirnar við að þróa það. Það sem skilur á milli er þetta tvennt: Hver á launahækkunin að vera á árinu 1989 og hver á að vera hin sérstaka launahækkun sem þetta nýja kerfi á að gefa eitt og sér á hverju ári næstu þrjú eða fjögur ár?
    Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur --- því ef menn vilja vinna að lausn þessa máls og þingmenn vilja veita hæstv. ríkisstjórn ráð og aðstoð við að leysa þessa deilu, þá er alveg óhjákvæmilegt að því sé svarað alveg skýrt sem ekki var vikið að einu orði í hinni löngu og annars ágætu ræðu hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur --- í fyrsta lagi: Hver er sú launahækkun umfram þá launahækun sem BSRB og ASÍ og önnur samtök hafa fengið nú þegar á árinu 1989 sem Kvennalistinn telur að ríkið eigi að semja um í samningum við BHMR? Og í öðru lagi: Hver er sú sérstaka árlega launahækkun sem Kvennalistinn telur í prósentum að BHMR eigi að fá í gegnum þessa sérstöku launakerfisbreytingu umfram aðra kjarasamninga í landinu? Því að þetta er kjarni deilunnar á þessum tímapunkti. Það er þarna sem skurðarlínan liggur. Ef ætlunin er að leysa deiluna og forða þeim miklu erfiðleikum sem hv. þm. rakti mjög vel og rækilega hér og ná friði í að byggja upp velferðarstofnanir, rannsóknastarf og menntastofnanir í þessu landi, þá verður það því miður ekki gert nema þessum spurningum sé svarað. Og ástæðan fyrir því að deilan hefur ekki verið leyst er einfaldlega sú að ríkisvaldið hefur haldið sér við þá kjarasamninga sem þegar hafa verið gerðir, eins og forsrh. sagði hér, við 80--90% af launafólki og ríkisvaldið hefur ekki verið reiðubúið til að veita nema í formi lágrar eins stafs prósentutölu þá árlegu tryggingu sem hið nýja launakerfi gæfi BHMR umfram aðrar launabreytingar

í landinu.
    Ég skil það vel út af fyrir sig að mörgum þyki það erfitt hlutskipti innan BHMR að þegar búið sé að semja annars staðar á vinnumarkaðnum, þá sé tekið jafnrækilega tillit til þeirra samninga fyrir þetta ár og fyrri hluta næsta árs eins og ríkisstjórnin verður óhjákvæmilega að gera. En eins og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir vék að þá lifum við í litlu samfélagi og erum mjög háð hvert öðru og það hefur það í för með sér að óhjákvæmilega verður í okkar launakerfi að taka mið af því hvar þar gerist á einstökum sviðum. Það er einfaldlega eitt af grundvallarlögmálum þess litla íslenska samfélags sem við
lifum í, þar sem menntamenn, sjómenn, verkakonur og háskólakennarar, alþingismenn og náttúrufræðingar þurfa allir hver á öðrum að halda í okkar litla þjóðfélagi og það verður hver og einn að taka tillit til hinna í þeim efnum.
    Ég væri mjög þakklátur fyrir það að fá að vita, sérstaklega frá Kvennalistanum sem hér í annað sinn hefur umræðu um þessa deilu án þess að svara þessum tveimur spurningum sem ég hef hér borið fram, að fá svör Kvennalistans við þeim vegna þess að þessar tvær spurningar eru í raun og veru kjarni vandamálsins.