Kjaradeila BHMR og ríkisins
Föstudaginn 12. maí 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegur forseti. Hv. 6. þm. Reykv., málshefjandi í þessari umræðu, vék að mér einni spurningu eftir að hafa farið nokkuð yfir það ástand sem skapast hefur í heilbrigðiskerfinu við þetta verkfall og spurði mig hvað ég teldi að lengi mætti una við það ástand á heilbrigðisstofnunum sem hafi skapast og hv. þm. lýsti. Ég get auðvitað svarað því með einni stuttri setningu og sagt að ég telji að það sé hvorki lengi né skamma stund hægt að una við svona stöðu. Það er auðvitað ekki hægt að una við að slíkt ástand skapist, ekki í skamma stund, hvað þá í langa. Hitt er svo annað mál að við ráðum kannski ekki alltaf við það hvað gerist og hvernig mál þróast og sem einstaklingi a.m.k. er mér það um megn að ráða þeirri þróun en vil auðvitað fúslega reyna að leggja mig fram um það að þessu ástandi linni og það hið fyrsta.
    Eins og kom fram hjá málshefjanda er ljóst að verkfallið hefur haft mikil og alvarleg áhrif nú þegar, einkum á Landspítalanum og stofnunum hans. Því betur hafa ekki enn þá hlotist af því nein stórslys ef má orða það svo og ég vil segja það hér og nú að ég tel að það sem hafi komið í veg fyrir að enn alvarlegra ástand skapaðist, og kannski ekki hægt að kalla það neyðarástand þó að það sé í ýmsum tilfellum mjög alvarlegt, það er auðvitað gott samstarf við þá aðila sem eru í verkfalli, m.a. kannski ábyrgð þeirra fulltrúa sem fjalla um undanþágubeiðnir og ræða málin þegar neyðarástand er að skapast. Þetta samstarf hefur verið gott og því hefur tekist að halda þeirri stofnun gangandi sem mestu varðar í verkfallinu og er hættulegust fyrir það að geta skapað neyðarástand, þ.e. Blóðbankanum, þannig að forða megi alvarlegri áföllum.
    Eins og kom fram hjá hv. málshefjanda hefur verið lokað allmörgum rúmum. Ég held að hv. þm. hafi nefnt 190 rúm. E.t.v. er það ekki svo. Samkvæmt upplýsingum mínum munu það vera 120--130 rúm, og er nú nóg samt, sem er lokað á ríkisspítölunum vegna þessa verkfalls eða vegna þess sem rekja má til verkfallsins. Það hefur t.d. bitnað mjög á hjartaskurðlækningunum og auðvitað öðrum deildum sem ástæðulaust er að telja upp, en einmitt vegna þess hversu starfsemi Blóðbankans er lömuð kemur það auðvitað m.a. niður á hjartaskurðlækningunum.
    Ég vil láta það koma fram hér að stjórnarnefnd ríkisspítalanna, læknaráð, forstöðumaður Blóðbankans, félagsmálaráð og reyndar fleiri aðilar hafa sent mér bréf og gert grein fyrir áhrifunum og varað við afleiðingum. Reyndar las hv. þm. upp eitt þetta bréf sem barst mér í gær og inniheldur bókun frá stjórnarnefnd ríkisspítalanna en þar fyrir utan hef ég átt fundi, marga reyndar, með forstjóra ríkisspítalanna og formanni stjórnarnefndarinnar, sem ég vil nefna sérstaklega í þessari umræðu, sem hefur rætt við mig um mál sjúkrahússins og þau áhrif sem verkfallið hefur vegna þess að hans var sérstaklega getið hér í ræðu hv. 6. þm. Reykv. Þessi ágæti maður, stjórnarnefndarformaðurinn, er jafnframt formaður

fiskeldis- og hafbeitarstöðva. Ég sá ekki þá frétt sem vitnað var til, en ég verð að láta það koma alveg skýrt fram að formaðurinn, Guðmundur G. Þórarinsson, hefur margrætt þetta mál við mig og ég veit að hann hefur ekki síður áhyggjur af því sem er að gerast á ríkisspítölunum en öðrum sviðum þessa þjóðfélags. Mér þykir hins vegar miklu líklegra að svar hans hafi miðast við spurningu fyrirspyrjandans, eins og hv. þm. nefndi reyndar líka hér áðan, og þess vegna finnst mér ekki gott að dróttað sé að mönnum að þar ráði fyrst og fremst sérhagsmunir eða þröngar sérhagsmunarætur, eins og ég reyndar hef séð og heyrt það orðað, vegna þess að ég álít að þar hafi hann verið spurður um áhrif á eina ákveðna atvinnugrein og svarað sem formaður í mikilvægum samtökum þeirrar greinar en ekki sem formaður stjórnarnefndar ríkisspítalanna. En það er kannski ekki aðalmálið í þessu en ég taldi þó rétt og vildi láta þetta koma fram.
    Ég vonast til þess að við þurfum ekki að búa við þróunarlandalæknishjálp eins og hv. þm. nefndi þetta ástand líka, og ég leyfi mér reyndar að fullyrða að það sé nokkuð djúpt í árinni tekið eða nokkuð alvarlega orðað þegar svo er sagt og samlíkingin sé nokkuð róttæk, en samt sem áður lýsi ég því yfir að ég hef áhyggjur af þessu ástandi og vona að því linni hið fyrsta.
    Hvað varðar Blóðbankann sérstaklega er það eins og menn sjálfsagt vita, a.m.k. þeir sem hafa sett sig inn í ástandið, að í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, 19. gr., segir m.a.: ,,Heimild til verkfalls skv. 14. gr. nær eigi til eftirtalinna starfsmanna:`` --- og þar er talið upp í 3. tölul.: ,,þeirra sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu``. Og ég vil leyfa mér að fullyrða það og telja það skoðun mína, og veit að ég hef þar sömu skoðun og margir aðrir, að Blóðbanki hljóti að flokkast undir nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu, öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu sem er talin upp í þessum tölulið. Og þess vegna undrar mig það nokkuð að þegar gengið er frá auglýsingu um það hvaða starfsstéttir í heilbrigðisþjónustunni skuli falla undir þessa skilgreiningu þá skuli Blóðbankinn ekki vera þar með, hann skuli hins vegar vera flokkaður með stoðdeildum sem starfi eins og á stórhátíðum. Ég vænti þess að næst þegar slík
auglýsing er saman sett verði Blóðbankinn flokkaður með bráðadeildum þar sem allir starfsmenn eru að störfum nema annað sé sérstaklega tekið fram, svo sem eins og á gjörgæsludeildum og öðrum deildum sem taldar eru upp í auglýsingunni og flokkast þar með.
    Um þetta hef ég auðvitað líka fengið ýmsar ábendingar, t.d. frá stjórnarnefnd ríkisspítalanna sem hefur sent mér bréf og bent á þetta sérstaklega. Það bréf hef ég sent áfram samningsaðilum og vænti þess að menn taki á þessu máli þegar gengið er frá samningum sem ég vona auðvitað að verði hið allra fyrsta. Jafnframt hefur þetta komið fram í bréfi frá forstöðumanni Blóðbankans til mín og síðan er ég

með hér fyrir framan mig bréf frá landlæknisembættinu þar sem landlæknir segir m.a., og hefur þá rakið aðstæðurnar í Blóðbankanum:
    ,,Þessi vandræði má að mestu leyti rekja til þess að reglur um stórhátíðavakt hafa tekið gildi. Ég verð að lýsa furðu minni á slíkum reglum sem auðsýnilega eru ekki settar á faglegum grunni. Í annan stað fær ekki staðist að Blóðbankinn sé rekinn ,,á undanþágu`` í verkfalli. Blóðbankinn er ekki síður mikilvægur en gjörgæsludeild. Lagt er til að samið verði um breytingar á þessum reglum sem fyrst og að Blóðbankinn verði rekinn sem bráðadeild.``
    Þetta er niðurstaða landlæknisembættisins og reyndar annarra eins og ég hef rakið og ég ítreka það að ég tel að mjög brýnt sé að við náum saman um að breyta þessu. Helst hefði það þurft að gerast nú en ég hef auðvitað ekki mikla von um að menn nái samkomulagi um það meðan verkfall stendur.
    Ég hef átt viðræður við fulltrúa frá þeim heilbrigðisstéttum sem nú eru í verkfalli og m.a. frá Félagi ísl. náttúrufræðinga, svo og frá fulltrúum lögmanna sem starfa hjá ríkisstofnunum, eins og t.d. Tryggingastofnun ríkisins, og við höfum rætt um það hvernig best verði komist hjá slysum eða alvarlegum afleiðingum þessa verkfalls og ítreka það að fulltrúar þessara félaga hafa sýnt gott samstarf í sambandi við þetta og einmitt með því móti höfum við getað forðast alvarleg áföll. Það er fyrirhugaður fundur nú um eða strax upp úr helginni með fulltrúum heilbrigðisstétta í verkfalli þar sem við munum aftur fara yfir þessi mál og ræða stöðuna. Ég vona sannarlega að til þess þurfi ekki að koma að við þurfum að halda þann fund eftir helgina. Best væri ef hægt væri að semja um helgina eða hið allra bráðasta, og þó að sá fundur yrði haldinn þá gætum við á þeim fundi rætt um eitthvað annað en það hvernig megi bregðast við vanda sem stafar af verkfallinu.