Kjaradeila BHMR og ríkisins
Föstudaginn 12. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Hv. málshefjandi, 6. þm. Reykv., hefur lagt fyrir mig nokkrar spurningar, eins og fleiri ráðherra, varðandi stöðuna í þessari kjaradeilu og þau áhrif sem verkfallið hefur á ýmsa starfsemi sem undir landbrn. heyrir sérstaklega og spyr að lokum, eftir að hafa rakið nokkur tilvik þar sem alvarlegt ástand hefur skapast, hvað landbrh. hyggist gera til að taka á þessum vanda sem lýst hafi verið eins og þar er sagt.
    Því er fyrst til að svara að auðvitað hefur verið safnað upplýsingum um það hvernig ástandið er og fylgst með því dag frá degi. Það á sérstaklega við um t.d. fóðurbirgðirnar og ástand þeirra mála. Samhliða þessu hef ég ítrekað rætt við forustumenn BHMR, stjórn og verkfallsstjórn og fulltrúa í undanþágunefnd, og gert þeim grein fyrir stöðunni eins og hún hefur verið á hverjum tíma og sótt um undanþágur fyrir þau atvik sem undir hrein neyðartilvik geta flokkast. Nú síðustu sólarhringana hefur fyrst og fremst tvennt verið þar efst á blaði, þ.e. annars vegar innflutningur á sáðvöru fyrir sumarið og hins vegar fóður, bæði fiskeldisfóður eða hráefni í fiskeldisfóður og almennt hráefni til fóðurframleiðslu, því að nú gengur mjög á allt innflutt fóður í landinu og er þar ekki bara í húfi fiskeldi heldur aðrar búgreinar, þær sem mest byggja á kjarnfóðri eins og svínarækt og kjúklingarækt og líka hefðbundinn búskapur sem þessar vikurnar notar mikið kjarnfóður, m.a. vegna erfiðs árferðis.
    Varðandi sáðvöru og sérstaklega sáðbygg fyrir kornræktarbændur, þá sendi ég Félagi ísl. náttúrufræðinga greinargerð um stöðu þess máls í gærmorgun. Það var tekið fyrir síðdegis í gær og fallist á undanþágu fyrir innflutningi á sáðbyggi sem var heimiluð í morgun og ég geri ráð fyrir að sáðkornið sé nú lagt af stað austur fyrir fjall. Ég vil lýsa því yfir að ég met mjög mikils þann skilning sem verkfallsmenn sýndu við þessar aðstæður og þakka fyrir það að þeir féllust á að veita þessa undanþágu. Þó að hér sé kannski ekki á ferðinni stórkostlegt efnahagslegt spursmál, þá er það engu að síður svo að kornræktin er mönnum mikið áhugamál. Hún hefur verið mjög vaxandi undanfarin ár og mönnum þætti sárt að sjá hana daga uppi og fara fyrir borð í þessari deilu, en alveg er ljóst, og um það voru allir sammála, að nú líða síðustu sólarhringarnir hjá sem duga til þess að sá til kornsins og áhættan af því að sá mikið seinna en á yfirstandandi sólarhringum yrði meiri en svo að menn mundu taka hana.
    Varðandi fóðurmálin þá er þar að skapast mikið vandræðaástand. Heita má að allt hráefni til fóðurgerðar sé nú upp urið í landinu og þegar er orðinn skortur á ýmsum fóðurgerðum. Sérstaklega er það í fiskeldinu. Þar er skortur á fóðri af ákveðinni kornastærð, einkum fyrir seiði og yngri fisk. Það litla sem eftir er í landinu dugar í fáeina sólarhringa, í besta falli viku til 10 daga ef því væri miðlað á milli stöðva. Þá mætti með sanni segja að allt fóður væri upp urið. Einstaka stöðvar eru þegar orðnar fóðurlausar eða því sem næst, en vonandi tekst með

miðlun að afstýra hreinu neyðarástandi allra næstu sólarhringana í flestum tilvikum. En það er alveg ljóst að nú gengur mjög hratt á möguleikana til þess að leysa málin með slíkum hætti.
    Þetta mál hef ég ítrekað rætt við málsaðila og get ekki á þessu augnabliki sagt meira en það að ég bind vonir við að lausn finnist á þessu máli mjög bráðlega þannig að unnt verði að afstýra hreinu neyðarástandi.
    Það er síðan fjölmargt annað, virðulegi forseti, sem ástæða væri til að ræða hér, svo sem eins og staðan á þeim fjölmörgu stofnunum sem undir landbrn. heyra og hverra starfsemi er nú alveg lömuð, reyndar einnig stofnana sem heyra undir samgrn. Það á við um t.d. hvers kyns rannsóknir og leiðbeiningaþjónustu eins og hér var nefnt af málshefjanda. Það á við um ýmis sérverkefni sem gefa viðkomandi stofnunum tekjur og eru nú að tapast, og það mun að sjálfsögðu skapa vandamál í rekstri þessara stofnana. Þó er það svo, því miður, að margt af því sem minna hefur farið fyrir í umræðum manna á meðal er þó kannski hvað alvarlegast, en það er ýmiss konar langtímatjón sem hlýst af því að lengri tíma rannsóknaverkefni og ýmis slík störf geta farið forgörðum þó að tiltölulega óveruleg truflun eða tímabundin truflun verði á framkvæmd þeirra, en eins og vísindamenn þekkja, þá getur stundum stutt truflun á lengri tíma rannsóknaverkefni, sem byggir á reglubundnu eftirliti, mælingum eða öðru slíku, nægt til að eyðileggja jafnvel margra ára vinnu. Því miður eru nokkur dæmi um slíkt og sum mjög alvarleg.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið, virðulegi forseti, með því að rekja þau mál öll. Ég hef gert hér grein fyrir því tvennu sem ég tel alvarlegast og hefur þess vegna tekið mest af tíma okkar undanfarna sólarhringa og gert grein fyrir því hvernig þau atriði sérstaklega standa.