Kjaradeila BHMR og ríkisins
Föstudaginn 12. maí 1989

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Það er óhætt að segja, og við höfum orðið áheyrandi að því í þessum umræðum, að við búum nú við ástand sem er með eindæmum. Það er ekki ein báran stök. Það er í efnahagsmálunum, kjaramálunum, stjórnarfarinu almennt. Þessar umræður sem nú er stofnað til utan dagskrár eru um kjaramálin, eru um verkfall BHMR.
    Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta verkfall og afleiðingar þess. Því efni hafa verið gerð rækileg skil á undan mér. Starfsemi sjúkrahúsanna er lömuð svo að mannslífum og heilsu manna er hætt, skólarnir lokaðir með hreinu öngþveiti fyrir nemendur og ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir líf og framtíð sumra.
    Það er ríkisstjórn Íslands sem stendur í deilu við okkar háskólamenntaða fólk. Hæstv. fjmrh. hefur forræði þessara mála fyrir hönd ríkissjóðs. Það er eðlilegt og í samræmi við stjórnskipunarreglur. Það hefur heldur ekki farið fram hjá neinum. Hæstv. fjmrh. hefur haft þá framgöngu í málinu sem honum er einum lagið. Hér er ég. Minn er rétturinn og dýrðin. Það er best fyrir ykkur að hafa ykkur hæga. Þið skulið ekki hafa betra af því að vera með einhvern uppsteyt. Þið eruð að setja ykkur á háan hest gagnvart láglaunafólkinu. Siðferði ykkar er ekki upp á marga fiska. Það er þetta sem hefur snúið að háskólamenntuðum mönnum, það er þetta sem þeir hafa fundið í orðum og æði hæstv. fjmrh., beint og óbeint. Er það þessi framkoma, hroki, yfirlæti, ósvífni, sem er þess eðlis að leitt geti til gagnkvæms skilnings og samkomulags í viðkvæmri vinnudeilu og verkfalli? Þvert á móti sáir þetta fræjum óvildar og tortryggni og hleypir illu blóði í öll samskipti deiluaðila og torveldar þannig lausn.
    Ég skal ekki útskýra þetta nánar. Hv. 2. þm. Reykv., sem var að ljúka máli sínu rétt í þessu, fór nokkuð nánar í þetta atriði og þessi mynd af hæstv. fjmrh. blasir við. En hæstv. fjmrh. var hér áðan, mér liggur við að segja ekki eins borubrattur og við höfum átt að venjast. Hvers vegna skyldi það nú hafa verið? Ætli það geti ekki verið að jafnvel þessi hæstv. ráðherra sjái í hvert óefni hann hefur teflt málum eða a.m.k. að það sé réttara hjá honum í þetta sinn að hafa einhvern hemil á orðbragði sínu?
    Hæstv. ráðherra kom dálítið inn á það hvað hefði gerst í samningamálum um síðustu helgi. Hann gaf sína skýringu á því en forsvarsmenn BHMR hafa líka gefið sína skýringu. Það verður hver og einn að dæma hvaða skýringu hann tekur gilda. Ég fyrir mitt leyti legg meira upp úr því sem forstöðumenn verkfallsins segja um þessi efni heldur en hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. talaði um allt annað en það sem er höfuðatriðið, þ.e. um hvaða laun á að semja. Ég ætlaðist ekki til þess frekar en síðasti ræðumaður, hv. 2. þm. Reykv., að hér kæmu fram ákveðnar tillögur um upphæð launahækkunar á þessum fundi, hvorki af þingmönnum eða hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. sagði ekkert haldbært um þetta efni sem nálgaðist þetta viðfangsefni sem við er að glíma, en hann heimtar að

hv. 6. þm. Reykv. gefi yfirlýsingar um það hvað eigi að semja um og hver launahækkun til BHMR eigi að vera. Hv. 2. þm. Reykv. svaraði þessari fjarstæðu svo að ég get sparað mér að fara fleiri orðum um það efni.
    Hins vegar talaði hæstv. fjmrh. af nokkurri mærð um sitthvað annað. Hann þurfti t.d. að upplýsa þingheim um það að það krefðist margvíslegra fórna, eins og hann orðaði það, í einkalífi fólks, sagði hann, að taka þátt í samninganefnd ríkisins. Hvað eiga nú slíkar yfirlýsingar að þýða eða hvaða erindi eiga þær hér á þennan fund? Hæstv. ráðherra talaði um þátttöku opinberra starfsmanna í stjórnun, aukin lýðræðisleg réttindi opinberra starfsmanna og ábyrgð starfsmanna. Þannig fór hann eins og köttur í kringum heitan graut um aðalatriði þess máls sem við þurfum að ræða.
    Það verður ekki lögð of mikil áhersla á hvílíkt alvörumál kennaraverkfallið er. Það eru ekki einungis áhrif þess fyrir nemendur, og það er ærið vandamál, heldur er það ekkert spaug fyrir kennara sjálfa að standa í langvinnu verkfalli. En til lengri tíma er það alvarlegasta við þetta verkfall að svo er nú komið að hætta er á að það geti skaðað varanlega skólakerfi landsins. Það er illt verk að halda uppi leik, ábyrgðarlausum og ófyrirleitnum, með það fjöregg þjóðarinnar sem menntunin er. Þetta er mikið áhyggjuefni.
    Mér kemur til hugar að ekki alls fyrir löngu komst einn af frammámönnum Alþb. svo að orði við mig að hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson mundi ekki einungis drepa sjálfan sig sem stjórnmálamann heldur og þá ríkisstjórn sem nú situr og Alþb. sjálft, ef honum ynnist tími til. Það er aðeins spurningin. Farið hefur fé betra. En ef þessi þjóðarskelfir á eftir að skilja við skólakerfi landsins í rúst, þá vandast nú fyrst málið. Við hljótum öll að vona að hæstv. fjmrh. vinnist ekki tími til þess.
    En hvað sem öllu líður verður verkfalli háskólamenntaðra manna ekki mætt með aðferðum hæstv. fjmrh. Málið verður að skoðast í víðu og réttu samhengi svo að leysa megi það með þarfir alþjóðar að markmiði.
    Hér þarf ekki að lýsa mikilvægi þess hlutverks sem háskólamenntaðir menn gegna. Frummælandi, hv. 6. þm. Reykv., kom allítarlega að því efni. Í þeim
efnum gildir hins vegar það sama hjá okkur eins og hvarvetna í hinum siðmenntaða heimi, hvarvetna þykir mest um vert að hverri þjóð haldist sem best á æðri menntun. Það þykir vá fyrir dyrum ef hinir dýrmætu menn í þessum efnum hverfa úr landi sínu. Það er kunnugt vandamál sem kallað hefur verið á alþjóðamáli ,,brain drain`` og þýtt á íslensku ,,atgervisflótti``. Allt byggist þetta á því að þekkingin er vaxtarbroddur allra framfara, vísindin efla alla dáð. Öllum þjóðum er þetta mikilsvert en í raun engum mikilvægara en okkur Íslendingum.
    Við höfum sérstöðu í mörgu, Íslendingar, vegna fámennis þjóðarinnar. En undirstaða þess að okkur megi auðnast, þrátt fyrir fámennið, að halda uppi velferðarríki okkar og fjárhagslegu fullveldi er að

okkur nýtist sem best hæfileikar hvers einstaklings með því að efla atgervi hans. Það verður gert með menntuninni, með því að hagnýta okkur sem best þekkinguna, vísindin sem allt veltur á um þjóðarframleiðslu og velmegun á þeirri tækniöld sem við nú lifum á.
    Í sambandi við verkfall háskólamenntaðra manna hefur spurningin um jöfnun launa verið mjög inni í umræðunni. Hæstv. fjmrh. lætur sem hann beri hag hinna lægst launuðu sérstaklega fyrir brjósti. Hann kveðst vera maður launajöfnunar og vilja jöfnun í ríkiskerfinu. Hvað sem hæstv. fjmrh. segir um þessi efni hlýtur aðalatriðið að vera hvernig koma megi á þeim jöfnuði. Það verður aðeins gert með tvennu móti: Annars vegar með því að lækka raungildi hinna hærri launa eða hækka laun hinna verst settu. Verðugt markmið er það að jafna upp á við en ekki niður á við. Fremur ber að hækka laun hinna verst settu en lækka laun þeirra sem betur hafa það. Það eru engir embættismenn ofsælir af kjörum sínum hjá ríkinu. En hæstv. fjmrh. vill fara lækkunarleiðina til jöfnunar. Hann lætur sem hann sé að rétta hönd þeim sem minna hafa. En vitandi vits er hann að gera hlut allra lakari, hvort sem þeir hafa meiri eða minni laun. Hann sér til þess með efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar ef stefnu skyldi kalla.
    Hæstv. fjmrh. hreykir sér á haug og talar út í loftið um kjarasamninga þá sem ríkið hefur gert við BSRB og aðilar almenna vinnumarkaðarins hafa gert, ASÍ og VSÍ. Hann segir að 90% launþega í landinu hafi samið. Hann blygðast sín ekki fyrir hlut sinn í þessum samningum sem annars vegar náðust með því að lofa stöðugu gengi og hins vegar með svardögum um gengisfellingu.
    Þessir kjarasamningar eru utan umræðuefnis míns í dag. Ég ætla ekki að fara að ræða þessi mál sérstaklega hér. En eitt er víst að þessir samningar eru marklausir sem kjarabót fyrir launafólk. Þeir eru aðeins áfangi á helvegi þeirrar efnahagsstefnu sem nú er að færa allri þjóðinni versnandi lífskjör og afkomu og leikur þá verst sem verst eru settir fyrir. Slík er umhyggja hæstv. fjmrh. fyrir hinum lægst launuðu, hvort sem þeir eru opinberir starfsmenn eða á hinum almenna vinnumarkaði, svo að ekki sé nú minnst á fiskverkafólkið og lægst launaða fólkið í framleiðsluatvinnugreinunum sem eru þó undirstaðan sem allt annað byggist á.
    Þessir kjarasamningar, sem gerðir hafa verið nú og hæstv. fjmrh. státar af, hafa í raun og veru ekkert gildi til viðmiðunar eða lausnar á verkföllum þeim sem háskólamenntaðir menn standa nú í. Það þarf annað að koma til lausnar þessarar alvarlegu deilu en tilvitnanir í marklausa samninga. Úr vöndu er vissulega að ráða eins og nú er komið málum. En hæstv. fjmrh. bætir ekki úr skák. Hann ætlar ekki að gera það endasleppt. Síðasti boðskapur fjmrh. nú undanfarna daga hefur ekki verið til þess að leysa deiluna á einn eða annan veg. Hann hefur sagt tilboð ríkisins vera lokatilboð. Þið skuluð hafa þetta, segir hann við háskólamenntaða menn, eða hljóta verra af.

Þið skuluð annaðhvort beygja ykkur eða halda ykkar verkfalli áfram, segir hæstv. fjmrh. við háskólamenntaða menn. Það er þetta sem er innihald í hinu ábyrgðarlausa tali hæstv. fjmrh. En til áréttingar bætir hann við að ríkið muni ekki grípa inn í deiluna til lausnar með lögum eins og oftlega hefur verið gert til þess að forða vá og þjóðarháska frá dyrum.
    Hæstv. fjmrh. segir í tíma og ótíma að gerðardómur komi ekki til greina. Hann er óþreytandi að lýsa því yfir að í landi okkar séu frjálsir samningar. Þessi blessaði boðberi frelsisins, hæstv. fjmrh., má ekki af frelsinu sjá. Komi það sem koma vill en frelsið lifi. Gerast nú tákn og stórmerki. Hæstv. fjmrh. orðinn málsvari frelsisins. Hvað býr nú hér undir? Þessu verður helst jafnað til þess sem gerðist í þjóðsögunni þegar skrattinn fór að skapa manninn. En allir vitum við að hér er hæstv. fjmrh. aðeins að þjóna lund sinni. Lýðskrumið ríður ekki við einteyming, en honum tekst ekki með þessu móti að breiða yfir mistökin og aðgerðarleysið við að leiða deiluna til lykta. Þetta er raunar í samræmi við annan feril hæstv. fjmrh. og forað það sem komið er út í og ástand efnahagsmála þjóðarinnar undir forustu hans.
    Það er frumskylda hverrar ríkisstjórnar að sjá svo um að haldið sé uppi þeirri stjórnsýslu sem þjóðfélagið byggir á og er óhjákvæmileg þjóðinni í lífi og starfi. Það er frumskylda að haldið sé uppi óhjákvæmilegri þjónustu við borgarana í fræðslukerfinu og heilbrigðiskerfinu. Það verður að halda uppi því ríkisvaldi sem nauðsyn krefur til þess að koma í veg fyrir upplausn og
hættuástand í þjóðfélaginu. Það er ekkert sem getur breytt þessu, hvað sem tínt er til, jafnvel ekki umhyggjan og ástin á frelsinu. Ríkisvaldið verður að vera þess umkomið að stjórna og taka til þeirra ráða sem duga. Annars blasir við stjórnleysið sem er hættulegast af öllu því að það ógnar ríkisheildinni, öryggi borgaranna og þeim lífsgildum sem lifað er fyrir og þá ekki síst frelsinu sjálfu. Í verkfalli háskólamenntaðra manna sem nú hefur staðið talsvert á annan mánuð blasir þetta við ef ekki verður að gert. Þess vegna verður að grípa til allra tiltækra ráða til lausnar deilunni og þar með til gerðardómslaga sem neyðarúrræðis ef ekki eru önnur ráð fyrir hendi.
    En ástandið í dag hvetur ekki einungis til umhugsunar um lausn þeirrar deilu sem nú stendur yfir. Þetta ástand hvetur og ekki síður til umhugsunar um þá skipan sem nú gildir um kjaramál opinberra starfsmanna. Með lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna var þeim á sínum tíma veittur verkfallsréttur. Þetta var sérstæð ákvörðun því að hún olli straumhvörfum í þessum málum. Þetta var og sérstæð ákvörðun fyrir þá samstöðu allra stjórnmálaflokka sem lá þar að baki.
    Frv. að lögum þessum var afgreitt úr Ed. með 13 atkvæðum gegn einu og samþykkt sem lög í Nd. með 26 samhljóða atkvæðum. Einn var sá þingmaður sem skar sig úr og það vill svo til að það var sá sem hér stendur. Mér er því afgreiðsla þessa máls á sínum tíma mjög minnisstæð.

    Þegar opinberum starfsmönnum var veittur verkfallsréttur með lögunum frá 1976 var horfið frá banni á verkfalli opinberra starfsmanna sem hafði verið allt frá því árið 1915. Í umræðum á Alþingi um frv. að lögum þessum 1976 komst ég svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég tel að í þessu felist röng og varhugaverð stefna. Þetta samrýmist hvorki okkar veika ríkisvaldi né reynslu þeirri sem við höfum af verkföllum í þessu landi. Vera kann að einhverjum finnist þessi skoðun ekki lýsa miklum skilningi af minni hálfu á mikilvægi opinberra starfsmanna og stöðu þeirra en svo er ekki. Þvert á móti. Þessi skoðun mótast einmitt af því hve þýðingarmiklu hlutverki opinberir starfsmenn hafa að gegna. Það er líka fátt mikilvægara í einu þjóðfélagi en að búið sé þannig að opinberum starfsmönnum að þeir megi vel við una launakjör, öryggi og allan aðbúnað. Þetta þarf sérhver ríkisstjórn að skilja og virða án þess að veifað sé yfir henni svipu verkfallsvopnsins.``
    Enn fremur komst ég svo að orði í þessari ræðu, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hvergi í sjálfstæðu ríki er ríkisvaldið veikara en einmitt hér á landi og það ætti ekki að þurfa að minna á þessa staðreynd, svo greypt ætti hún að vera í okkar þjóðarvitund. Sporin hræða. Við minnumst fjörbrota okkar forna þjóðveldis og hver örlagavaldur það var að á skorti ríkisvaldið. Ég er ekki að jafna þessu við ástandið í dag. Við getum þó verið allir sammála um að okkar ríkisvald er veikt. Það ástand er ekki sambærilegt við það sem annars staðar gerist.``
    Þetta voru orð sem ekki var hlustað á 1976. Þá var Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja veittur verkfallsréttur og 10 árum síðar var svo Bandalagi háskólamenntaðra manna einnig veittur verkfallsréttur. Nú erum við reynslunni ríkari. Ég ætla ekki að fara að rekja söguna hér, verkföll opinberra starfsmanna frá því þeim var veittur verkfallsrétturinn. Við kunnum að hafa mismunandi skoðanir á verkföllum, en hvaða skoðanir sem menn hafa í því efni, þá hljóta allir að gera sér ljóst að vinnustöðvanir, ef til þeirra kemur, hljóta alltaf að valda þjóðarbúinu meira eða minna tjóni og þannig torvelda, svo langt sem það nær, raunverulegar kjarabætur. Samt sem áður kann að vera nauðsynlegt að launamenn beiti verkfallsvopninu til að geta náð fram réttmætum kröfum sínum. Árangur slíkra aðgerða fer eftir ýmsu og getur verið umdeilanlegur.
    Það er fróðlegt að sjá hverjum árangri verkfallsrétturinn hefur skilað opinberum starfsmönnum, hver not þeir hafa haft af þessum réttindum sínum. Þess vegna hef ég gert á þessu þingi fsp. til forsrh. um þróun launa ríkisstarfsmanna miðað við laun á hinum almenna vinnumarkaði. Fsp. þessi er á þskj. 843 og er á þessa leið:
    ,,Hvernig hafa laun ríkisstarfsmanna þróast miðað við laun á hinum almenna vinnumarkaði síðan ríkisstarfsmenn fengu verkfallsrétt?
    1. Hver voru laun ríkisstarfsmanna í hlutfalli við laun á hinum almenna vinnumarkaði þegar

ríkisstarfsmenn fengu verkfallsrétt?
    2. Hvert hefur þetta hlutfall verið á hverju ári síðan?
    Sundurliðun óskast eftir helstu stéttarfélögum á hinum almenna vinnumarkaði og félögum ríkisstarfsmanna.``
    Það var beðið um skriflegt svar við þessari fsp. og hefur svarið verið gefið og lagt fram á þskj. 1082. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þetta svar. Hæstv. forsrh. kom í sinni ræðu hér fyrr á fundinum inn á þetta svar, vék að nokkrum atriðum. Það væri freistandi fyrir mig að víkja að ýmsum fleiri atriðum í því svari, en ég skal ekki gera það til þess að stytta tímann. Svar þetta er ítarlegt og þar koma fram margháttaðaðar upplýsingar, en meginniðurstaðan í því kemur fram í töflu á síðustu síðu þingskjalsins, bls. 7. Þessi tafla er
byggð á hinum traustustu heimildum eins og þar er tilgreint. Þar er um að ræða fréttabréf kjararannsóknarnefndar, ýmis tölublöð, fréttarit kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna, óbirt gögn Þjóðhagsstofnunar og Launaskrifstofu ríkisins.
    Þær upplýsingar sem tafla þessi gefur eru hinar athyglisverðustu. Þar kemur fram samanburður á launum ríkisstarfsmanna og launum á hinum almenna vinnumarkaði. Þannig kemur í ljós að laun hjá BSRB eru 1976, árið sem verkfallsrétturinn kemur til, 1% hærri en laun verkafólks og iðnaðarmanna. Næstu ár eykst þetta forskot BSRB nokkuð en tekur síðan að minnka og svo er komið á síðasta ári, 1988, að laun BSRB eru 5,4% lægri en laun þessara viðmiðunarstétta. Í þessum samanburði er því hlutur BSRB 6,4% lakari á síðasta ári en hann var þegar verkfallsrétturinn kom til.
    Þá er ekki síður athyglisverður samanburður sem gerður er á töflunni milli BSRB og skrifstofufólks á hinum almenna vinnumarkaði. Þar kemur fram að BSRB hefur farið mjög halloka á samanburðartímanum. Árið 1981 eru laun BSRB ekki nema 89,7% af launum skrifstofufólks á hinum almenna vinnumarkaði. Og ekki tekur betra við fyrir BSRB næstu árin, heldur þvert á móti. Og svo er komið á síðasta ári, 1988, að laun BSRB eru aðein 78,5% af launum skrifstofufólksins og hefur hlutur BSRB því versnað á þessu tímabili um 11,2%.
    Þetta var um BSRB. En hvaða fróðleik hefur taflan að geyma um BHMR? Því er fljótsvarað. Árið 1986 þegar BHMR fær verkfallsréttinn eru laun þess 36,1% hærri en laun verkafólks og iðnaðarmanna. Hlutur BHMR versnar síðan strax og eru laun þess orðin á síðasta ári, þ.e. 1988, aðeins 24,4% hærri en laun verkafólks og iðnaðarmanna. Er því um 11,7% lækkun að ræða á þessum stutta tíma, á teimur árum. Það munar um minna.
    Sama þróun kemur í ljós þegar skoðaður er samanburður töflunnar milli BHMR og skrifstofufólks á hinum almenna vinnumarkaði. Árið 1986 eru laun BHMR 13% hærri en laun skrifstofufólksins á almenna vinnumarkaðinum, en árið 1988 aðeins 3,3% hærri. Á tveim árum lækkaði hlutur BHMR um 9,7%.

Minna má nú gagn gera.
    Þessar tölur sem ég hef hér rakið segja mikla sögu. Af þeim verða reyndar ekki dregnar beinar ályktanir, hverjar orsakir hafi verið fyrir því að hlutur opinberra starfsmanna hefur svo versnað á því tímabili sem hér um ræðir. Tölurnar eru hins vegar óyggjandi heimildir fyrir því að þessi þróun verður í beinu framhaldi og eftir að opinberir starfsmenn fengu verkfallsrétt. Af því verður að draga þá ályktun að verkfallsrétturinn hafi ekki megnað að bæta hlut opinberra starfsmanna og ekki einu sinni koma í veg fyrir að launakjör þeirra versnuðu borið saman við laun á hinum almenna vinnumarkaði. Þessar tölur tala sínu máli og vekja til umhugsunar. Spurningar vakna. Eru það ekki firn mikil að hlutur opinberra starfsmanna verði lakari, borið saman við aðra landsmenn, en hann var áður en þeir fengu verkfallsrétt? Getur leið að þessu marki legið í afnámi verkfallsréttarins? Kann að vera rétt að endurskoða allt skipulagið sem varðar kjaramál opinberra starfsmanna? Þannig má spyrja og þessar spurningar, hver fyrir sig, eru um hin þýðingarmestu atriði.
    Hæstv. forseti. Það varðar hag opinberra starfsmanna sjálfra hvernig megi bæta og tryggja þeirra hlut betur. En mestu varðar þetta þjóðina í heild. Það er lífsspursmál að hið opinbera fái hina hæfustu menn til starfa, haldist á þeim og geti keppt um þá við hinn almenna vinnumarkað. Það sem skiptir máli er skilningur stjórnvalda á hinu þýðingarmikla hlutverki sem opinberir starfsmenn hafa að gegna. Það er heilladrýgra en það hlutskipti núverandi ríkisstjórnar að hafa yfir sér reidda verkfallssvipu opinberra starfsmanna.
    Ég ætla að það tjói lítt að ræða þessi mál við hæstv. fjmrh. í víðu samhengi og með hag alþjóðar fyrir augum. Hann sér ekkert nema þrætumál sín sem hann hefur magnað upp í verkfalli háskólamenntaðra manna sem nú stendur yfir. Það besta sem hægt er að vænta af hæstv. fjmrh. er að honum vinnist ekki tími með ráðslagi sínu og áráttu til að vinna óbætanlegt tjón, svo sem að leggja menntakerfi þjóðarinnar í rúst. Þess vegna hefði átt að vera til umræðu í dag vantraust á hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnina í heild. Það er ekki aðeins vegna þeirrar kjaradeilu sem við nú ræðum og væri þó ærið tilefni heldur einnig vegna þess háska sem að þjóðinni steðjar af ástandi efnahagsmálanna og öðru ráðslagi ríkisstjórnarinnar sem er utan umræðuefnis míns í dag. Það er staðreynd sem enginn ábyrgur maður getur mótmælt að við búum við hættuástand í dag. Þjóðin skilur þetta. Það er þjóðin sem býr við þetta. Það er ótti og kvíði sem einkennir þjóðlífið um víðar byggðir landsins. Alþingi verður að taka mið af þessari hættu og mesta hættan er fólgin í ríkisstjórninni sjálfri.