Kjaradeila BHMR og ríkisins
Föstudaginn 12. maí 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. menntmrh. spurði eftir því í sinni ræðu áðan, sem eðlilegt er að spyrja, hvernig hv. þm. vilji taka á því vandamáli sem þessi umræða hefði eingöngu átt að snúast um en ekki út um víðan völl. Sé það rétt metið af sáttasemjara ríkisins að eins og stendur sé ekki neitt í sjónmáli að leysa þessa deilu, þá auðvitað verður að höggva á þann hnút. Ríkisstjórn er til þess að verja þjóðina áföllum. Það er ekkert lítið sem hér er í húfi. Ég hefði talið að það hefði átt að vera búið að tala við, og kannski er það búið, forustumenn þeirra sem eru í verkfalli um það hvaða ráð eru önnur til.
    Ef ég hef skilið hv. frummælanda rétt sagði hún að eðlilegt væri að borga þessu fólki laun eins og eru á vinnumarkaðinum. Hver getur metið það? Það þarf að meta það frá ýmsum hliðum. Ég geri ráð fyrir að sumt af þessu fólki sé, og veit það raunar, með óeðlilega lág laun, t.d. umönnunarstéttirnar og kannski fleiri. Ég ætla ekki að meta það. Eins og þetta er nú verður ríkisstjórnin að leysa þessi mál og hefði átt að vera búið.
    Ég gat um það í ræðustól strax þegar sáttasemjari tilkynnti að hann sæi ekki fram á að hann gæti að svo stöddu leyst þessi mál og hann mundi ekki boða til fundar fyrr en eftir hálfan mánuð nema annar hvor aðilinn óskaði eftir því að þá væri auðvitað sýnt að þessi kjaradeila stefndi í mikið óefni.
    Ég las það í blöðum hér á dögunum að merkur prófessor við Háskólann var að sýna fram á það í hvaða stöðu þjóðin væri í sambandi við þessi kjaramál yfirleitt. Hann lagði til að reynt yrði að boða til nokkurs konar þings þar sem allir aðilar reyndu að komast að niðurstöðu um hvernig ætti að leysa þessi mál í framtíðinni. Auðvitað þýðir ekki að kalla saman slíkt þing nema það sé einhver vilji að taka á þessum málum af báðum eða öllum aðilum. En þetta er ein leið sem áður hefur verið komið fram með. Ég man eftir að Skúli heitinn Guðmundsson alþingismaður vildi gera nokkurs konar kjarasátt þannig að það væri eitthvert visst hlutfall sem menn sættust á og þyrfti ekki að vera sífelld togstreita um þetta mál.
    En málið er auðvitað ekki alveg eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að það væri aðeins ein leið til, að jafna launin á þann hátt að lækka suma og hækka aðra. Það þyrfti að stokka upp allt tekjuöflunarkerfi ríkisins. Lágu launin í landinu eru auðvitað skammarlega lág og verður að finna leið til þess að bæta þar úr. Og ég skil það vel að hæstv. fjmrh., sem er búinn að semja um ákveðna krónutölu við þá lægst launuðu, geti ekki hvikað frá því. Hitt er annað mál hvort hægt er að hækka þær stéttir sem taldar eru vera með óeðlilega lág laun miðað við aðrar og þá á ég fyrst og fremst við umönnunarstéttirnar. Ég varð vitni að því í 10 vikur í vetur hvernig sú vinna er og hvaða laun þær hafa, en það voru fyrst og fremst konur sem þar unnu. Og ég held að þegar allar aðstæður eru skoðaðar þyrfti að líta á það en krónutalan verður auðvitað að öðru leyti að gilda, að mínu mati. En umfram allt, það verður að höggva á

þennan hnút.