Kjaradeila BHMR og ríkisins
Föstudaginn 12. maí 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Það var ekki seinna vænna að umræða sem þessi fari fram því að ástandið sem nú ríkir í skólamálum á Íslandi er að sjálfsögðu algjörlega óviðunandi. Það nær náttúrlega ekki nokkurri einustu átt að við skulum eina ferðina enn standa frammi fyrir þeirri staðreynd að það er verkfall kennara. Nemendur í skólum eru út og suður og vita ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Það verður að lýsa ábyrgð á hendur ríkisstjórninni fyrir það að hún skuli ekki hafa beitt sér fyrir því að leysa þessa deilu. Ég minnist þess að í hv. Ed. Alþingis vorum við að afgreiða hér á dögunum frv. til laga um ráðstafanir vegna kjarasamninga, þ.e. sérstakar ráðstafanir til þess að liðka fyrir kjarasamningum milli Alþýðusambandsins og vinnuveitenda. Þar sá ríkisstjórnin ástæðu til þess að koma með ýmsar aðgerðir, bæði skattalækkanir og margt fleira til þess að koma á samningum. Ég hef ekki orðið var við neitt slíkt útspil af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í þessari deilu og er engu líkara en að það sé vilji hæstv. ríkisstjórnar að þessi deila dragist sem allra lengst.
    Nú kom það fram í máli málshefjanda, hv. 6. þm. Reykv., að það hefði verið samningabann hér um áramótin þegar samningar kennara og fleiri háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna voru lausir. Þetta er alrangt. Það var ekkert því til fyrirstöðu að hefja samningagerðina strax eftir sl. áramót. Í raun og veru er það ámælisvert að þá þegar skuli ekki hafa hafist samningar um kaup og kjör háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna. Það var ekkert sem kom í veg fyrir það að slíkar samningaumræður gætu hafist þá þegar, í byrjun janúar. Sá grunur læðist að mér a.m.k. að eitthvað annað hafi vakað fyrir hæstv. ríkisstjórn, nefnilega það að draga það að semja við háskólamenntaða ríkisstarfsmenn til þess að knýja þá inn á sams konar samninga og seinna mundu nást þegar samningar væru mögulegir við verkalýðshreyfinguna sem var með bundna samninga til 10. apríl. Það er því mjög athyglisvert að velta þessum tveimur dagsetningum fyrir sér, annars vegar að samningar voru miðaðir við 1. jan. sl. hvað opinbera starfsmenn og háskólamenntaða ríkisstarfsmenn varðaði og síðan 10. apríl hvað varðaði launþegahreyfinguna almennt.
    Ef til vill er rétt að velta svolítið fyrir sér hver er orsök þessarar kjaradeilu sem bæði kennarar og aðrir háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn eiga í. Ég hef sjálfur ekki farið varhluta af þeim deilum um kaup og kjör háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna sem nú hafa verið óslitið í gangi frá því að ég kom heim frá útlöndum fyrir um 16 árum síðan og gerðist háskólamenntaður ríkisstarfsmaður. Allar götur síðan höfum við deilt um kaup og kjör. Ástandið hefur raunverulega verið algerlega vonlaust frá því að ég hóf hér störf. Ég hef starfað sem prófessor við verkfræðideild Háskóla Íslands og nánast allan tímann hef ég mátt sæta því að þeir verkfræðingar sem ég útskrifa eftir fjögurra ára háskólanám að vori ráða sig til vinnu á jafnháum launum og ég hef sem prófessor daginn eftir að þeir

hafa lokið prófum við Háskólann. Það út af fyrir sig er því ekkert óeðlilegt þó að háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn séu óánægðir með sín kjör. Enda er ástandið orðið þannig m.a. í Háskólanum að enn hefur ekki tekist að skipa í stöðu prófessors í byggingarverkfræði sem losnaði 1982 því að það fæst enginn maður til að sækja um þá stöðu. Hvernig í ósköpunum ætti einhverjum verkfræðingi að detta í hug að sækja um prófessorsembætti í byggingarverkfræðideild fyrir laun sem eru lægri en þau sem hann hefur sem nýútskrifaður verkfræðingur daginn eftir að hann kemur frá prófborðinu? Þar með er sú staða enn þá óskipuð. Það hefur orðið að leysa það vandamál með því að fá stundakennara, semja um stundakennslu frá ári til árs, til þess að gegna kennsluskyldu þess prófessors sem vegna aldurs sakir hætti störfum 1982. Síðan eru liðin sjö ár, hugsið þið ykkur. Það var nú hér áður fyrr að það þótti töluverð virðingarstaða að vera prófessor við Háskóla Íslands, en það er fjarri lagi að það sé það lengur. Það er nú gert grín að slíku úti í þjóðfélaginu, a.m.k. þegar launakjörin ber á góma.
    Ég minnist þess, svo að ég taki dæmi, að það var dósent við raunvísindadeild Háskóla Íslands sem réðist í það þrekvirki að kaupa sér íbúð fyrir nokkrum árum. Hann fór til bankastjóra að sjálfsögðu og falaðist eftir smáfyrirgreiðslu, litlu láni til að auðvelda sér kaupin á íbúðinni. Bankastjórinn spurði viðkomandi: Hvað gerir þú nú, væni minn. --- Ja, ég er nú dósent við Háskóla Íslands. --- Ja, það var nú slæmt, en gerirðu ekkert annað? --- Því að ef hann var bara dósent við Háskóla Íslands, þá var ekki hægt að veita honum lán. Þá vissi bankastjórinn ofur vel að hann var ekki borgunarmaður fyrir láninu.
    En við skulum viðurkenna eina staðreynd og hún er að hluti af þessum vanda og kannski kjarni vandamálsins er sá að þetta litla 250 þúsund manna þjóðfélag er einfaldlega að færast allt of mikið í fang. Það er auðvitað ekki kennurum eða öðrum háskólamenntuðum ríkisstarfsmönnum að kenna að Alþingi hefur séð ástæðu til þess, þeir hv. þm. sem hér hafa starfað á undanförnum árum hafa talið að hér ættu að gilda lög eins og þjóðin væri svona 25 millj. manna. Við erum að burðast við það, 250 þús. manna þjóð, að ætla að reka hérna 10--20
háskóla. Við ætlum að reka eina 1000 framhaldsskóla og ég veit ekki hvað marga grunnskóla. Það endar með því að við þurfum að fjölga svo í kennarastétt að hálf þjóðin verður sett í það að kenna í hinum ýmnsu skólum sem við ætlum að drita út um allt landið. Þess vegna þarf eðlilega engan að undra það þó að ríkið koxi á því að geta borgað öllum þessu fjölda kennara mannsæmandi laun, eða eru menn reiðubúnir til að hækka skatta um ein 30% til þess að ríkið geti ráðið við að borga öllum þeim aragrúa háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna sem ríkið hefur séð ástæðu til þess að ráða til að sinna þeim margbrotnu og flóknu kerfum sem við höfum komið okkur upp, bæði menntakerfi, heilbrigðiskerfi o.s.frv.?
    Við skulum taka dæmi. Við erum að burðast við,

þessi 250 þús. manna þjóð, að reka hér á höfuðborgarsvæðinu þrjú hátæknisjúkrahús sem samanlagt hafa yfir tækjabúnaði að ráða sem er margbrotnari og fullkomnari en öll sjúkrahúsin í stórborginni Los Angeles hafa yfir að ráða. Þannig eru fjölmörg dæmi um óráðsíuna og vitleysuna sem hrjáir þetta þjóðfélag. Og hverjum er þetta að kenna? Auðvitað gömlu flokkunum fjórum, þ.e. Sjálfstfl., Framsfl., Alþfl. og Alþb., sem bera hér alla sök. Það eru fulltrúar þessara flokka sem hafa sameiginlega, með ýmsum samsteypustjórnum frá því að stríðinu lauk, komið þessu þjóðfélagi algjörlega á vonarvöl með tómri vitleysu og óráðsíu. Hér hefur verið hleypt af stokkunum hverju kerfinu á fætur öðru sem þetta fámenna þjóðfélag ræður ekkert við. Ég get tekið ótal mörg dæmi um þetta.
    Góðvinur sonar míns fór norður í land sem kennari við grunnskóla, ég ætla ekki að segja hvar. Þar voru tíu kennarar að kenna átta nemendum. Í svo sem eins og hálftíma fjarlægð frá þessum stað var stór og fullkominn grunnskóli þar sem hægt var að taka við öllum þessum nemendum. Það var ekki hægt að sinna því því að þetta litla bæjarfélag þurfti að hafa sinn grunnskóla og samkvæmt grunnskólalögunum varð að vera hægt að bjóða upp á það valgreinakerfi sem þau útheimta. Til þess að geta sinnt þessum átta nemendum þurfti hvorki meira né minna en tíu kennara, sem sagt rúmlega kennara á hvern nemanda. Það þarf því engan að undra það þó að þessi þjóð sé í vandræðum, þó að hún eigi erfitt með að borga bæði kennurum og öðrum háskólamenntuðum ríkisstarfsmönnum og öllum þeim aragrúa starfsmanna hjá ríkinu mannsæmandi laun. Við höfum einfaldlega færst allt of mikið í fang, við ráðum ekki orðið við þessi stóru og fullkomnu kerfi sem við höfum komið okkur upp.
    Ég kann að sjálfsögðu enga lausn á því hvernig við getum komist út úr þessu. Mér dettur þó eitt í hug. Hvernig væri að gera ríkisstofnanir að sjálfstæðum stofnunum, t.d. skólana, og sprengja launakerfi ríkisins með þeim hætti? Það mætti jafnvel hugsa sem svo að hverjum skóla yrði sett stjórn, þ.e. yfirstjórn sem væri kjörin af Alþingi t.d. eða einhverjum öðrum aðila í stjórnkerfinu sem hefði vald til slíks. Síðan væri viðkomandi skóla settur ákveðinn fjárlagarammi en stjórn skólans yrði gerð algjörlega ábyrg fyrir því hvernig hún verði þeim fjármunum sem skólanum væru ætlaðir á hverju ári innan fjárlagarammans. Hún fengi m.a. vald til þess að ákveða hvaða laun hún vildi borga starfsmönnum skólans. Ef stjórnin sæi ástæðu til þess að tvöfalda laun kennara og teldi að hún fengi betri kennslu og hagstæðari rekstur á sinni skólastofnun með þeim hætti, þá ætti það að vera málefni þeirrar stjórnar. Ef hins vegar stjórnin sprengir fjárlagarammann og setur skólann á hausinn ber hún líka ábyrgð á því. Þá verður að sjálfsögðu að setja hana af og setja nýja stjórn. Hér er a.m.k. hugmynd um það hvernig megi sprengja sig út úr þessu ónýta launakerfi opinberra starfsmanna sem er gjörsamlega hrunið til grunna og það fyrir löngu, löngu síðan.

    Við getum haldið áfram að berjast með þessum hætti eins og ég var að lýsa hér áðan. Ég hef sjálfur staðið í þessari baráttu í yfir 15 ár eða meira, og ég hef löngu gert mér ljóst að það er gjörsamlega fráleitt að háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn nái nokkurn tíma þeim árangri, miðað við óbreyttar aðstæður, að þeim verði greidd mannsæmandi laun. Það er hreinlega útilokað á meðan þjóðfélagið ætlar að halda áfram á þessari óráðsíubraut sem það hefur verið á undanfarna áratugi. Þess vegna verðum við að finna einhverjar aðrar leiðir til þess og því þá ekki að prófa þetta sem ég var hér að nefna.
    Svo að lokum: Hvernig á að leysa þessa deilu sem virðist vera komin í algeran hnút? Á einfaldlega að láta hana halda áfram og ganga sinn gang? Ætlar hæstv. ríkisstjórnin að láta kennara vera í verkfalli til næsta hausts eða jafnvel lengur? Það væri fróðlegt að fá svör við því. Það eru að vísu ekki margir hæstv. ráðherrar hér í salnum. ( Fjmrh.: Jú, jú.) Þarna er nú hæstv. fjmrh. Hann er kannski höfuðpaurinn í þessari deilu og gæti þá helst svarað þessari spurningu. Mig langar þá til þess að spyrja hæstv. fjmrh.: Er hann að undirbúa lagasmíð strax og hann hefur losnað við þingið heim, þannig að með bráðabirgðalögum verði kennurum skömmtuð einhver laun í samræmi við nýgerða kjarasamninga? ( Fjmrh.: Svarið er nei.) Svarið er nei, segir hæstv. ráðherra. Þá vitum við það. Við skulum þá a.m.k. fylgjast vel með því að það verði ekki gert. En hvernig væri þá að fara að snúa sér að því að leysa þessa deilu? Er kannski í vændum einhver sáttatillaga frá sáttasemjara ríkisins? Mér er spurn. Er einhver sem hefur fregnir af slíku?