Kjaradeila BHMR og ríkisins
Föstudaginn 12. maí 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka hæstv. ráðherrum svör þeirra og þingmönnum öllum þátttöku í umræðum. Ég vil einnig þakka hæstv. forseta fyrir að hafa fengið að kveðja mér hljóðs og að þessi umræða skuli hafa farið fram því að ég held að hún hafi verið mjög þörf.
    Ég fagna því að viðræður skuli aftur hafnar við BHMR og ég gleðst yfir þeim vilja sem nú virðist örla á hjá ráðherrum til að ganga í það að leysa þessa deilu. Vegna þeirra spurninga sem hæstv. fjmrh. bar fram vil ég gjarnan segja nokkur orð því að síst vil ég liggja á góðum ráðum.
    Eins og hæstv. fjmrh. veit eiga alþingismenn ekki að standa í kjarasamningum við launþega. Það er hlutverk fjmrh. og ríkisstjórnar, framkvæmdarvaldsins. Þegar hæstv. fjmrh. spyr okkur spurninga og biður um góð ráð gefur hann okkur líka mjög ákveðnar forsendur sem hann hefur sjálfur skilgreint og skapað með fyrri aðgerðum sínum, þeim samningum sem hann hefur þegar gert eða hans ráðuneyti. Hann gefur okkur sem sé ramma og svigrúm til að taka ákvarðanir innan en hann veitir okkur ekki frumkvæði til eigin aðgerða, biður um ráð til að bjarga sér úr vanda, biður um uppástungu að ákveðnum upphæðum fram til áramóta á þessu ári og prósentutöluhækkun á hverju ári.
    Því er til að svara að kvennalistakonur mundu líklega hafa tekið allt öðruvísi á málum frá byrjun. Við erum ekki kunnugar þessum samningamálum og þeim tölum sem þar hafa verið ræddar og því er auðvitað nauðsynlegt að kynna sér þau mál í samhengi og vissulega, eins og hv. 18. þm. Reykv. sagði, að leita talna og lausna í sameiningu, milli málsaðila. En eins og ég sagði áðan í upphafsorðum mínum: Lokatakmarkið hlýtur að vera almennur launajöfnuður og þá sérstaklega í þessum deilum að minnka eins mikið og kostur er eða jafna út þann mun sem er á launum þeirra sem vinna hjá hinu opinbera og hinna sem vinna á almennum markaði og hafa sambærilega menntun og ábyrgð. Prósentutöluhækkunin á hverju ári hlýtur að helgast af þessu.
    Varðandi hækkun launa fram að áramótum mundi ég ráðleggja hæstv. ráðherra að hafa minni áhyggjur af þeirri tölu en reyna fremur að einbeita kröftum sínum að því að leita að lausnum sem mundu duga í langtímasamninga. Það er það sem skiptir meginmáli í þessari kjaradeilu, held ég. Hann miðar lausn þessarar kjaradeilu við ramma og forsendur samninga sem hann hefur þegar gert. En öllu máli skiptir þó að samningar séu í samræmi við þann veruleika sem þjóðfélagið býður upp á. Það skyldi hæstv. fjmrh. hafa hugfast.
    Það er auðvelt og til lítils að segja nú að hæstv. fjmrh. hefði betur byrjað viðræðurnar fyrr, en nú vil ég segja við hæstv. fjmrh.: Viðræður, viðræður og aftur viðræður til þess að málsaðilar geti nálgast og fundið sameiginlega lendingu er eina leiðin til lausnar á þessari deilu. Fólk verður að mætast, báðir aðilar

hljóta að verða að láta af sínu en halda þó eftir einhverju sem máli skiptir og þá ekki síst andlitinu eða sjálfsvirðingunni. Ég vil reyndar leggja megináherslu á mikilvægi sjálfsvirðingarinnar. Það er ekki einungis nauðsynlegt að hafa hana sjálfur, það er einnig mikilvægt að leyfa öðrum að halda sinni sjálfsvirðingu, og þetta veit ég að hæstv. fjmrh. er fullkunnugt um. Hann hefur gegnt mikilvægu sáttasemjarahlutverki á alþjóðavettvangi og unnið að því að bera boð milli stórvelda í afvopnunarmálum sem framkvæmdastjóri alþjóðaþingmannasamtaka sem vinna að friði og vinna einmitt að því að byggja brýr milli ólíkra þjóða og ólíkra hagsmuna. Ég er viss um að þessi verðmæta reynsla mun nýtast hæstv. fjmrh. í óformlegum og formlegum viðræðum við fulltrúa BHMR á komandi dögum. Ég er sannfærð um að báðir málsaðilar vilja finna viðunandi lausn þessarar deilu og það sem fyrst. Eitt er víst að fólkið í landinu bíður eftir lausn hennar.
    Ég vona sannarlega að þessar umræður hér í dag hafi að einhverju leyti getað stuðlað að eða hvatt til samninga og að deilurnar muni leysast á næstunni og óska samningsaðilum velgengni á öllum sínum fundum í framtíðinni.