Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir er nánast fylgifrv. með því frv. um nýskipan í húsnæðismálum sem hér hefur verið til umræðu í þessari hv. deild í dag. Það hefur verið rætt um þennan þátt málsins við þá umræðu því að þau höfuðatriði sem í þessu frv. eru og snerta vaxtabætur tengjast mjög skýrt þeirri grundvallarhugsun sem hefur verið gerð grein fyrir af hæstv. félmrh. við þessa umræðu.
    Í þessu frv. er lýst nokkuð vel hvernig ætlunin er að byggja upp kerfi vaxtabóta þar sem lýst er þeim viðmiðunartölum og þeim aðferðum sem beita skal við þá útreikninga.
    Þegar þetta mál var til umfjöllunar í hv. Nd. þá hafði ég fyrir þessu frv. mjög stutta framsögu en lagði til að nánari umfjöllun um þetta mál færi síðan fram við 2. umr. þegar hv. fjh.- og viðskn. hefði haft tækifæri til þess að fjalla um málið ásamt hv. félmn. um það mál sem er meginhvati þess að þetta frv. er lagt fram. Reyndin varð svo sú í hv. Nd. að ítarleg umræða fór fram um þennan þátt málsins við 2. umr. Teldi ég þann gang málsins á margan hátt jafneðlilegan hér í þessari hv. deild.
    Ég tel þess vegna ekki, virðulegi forseti, ástæðu til þess að fjalla nánar um málið hér og nú en geymi mér að gera því nánari skil og fjalla um það annaðhvort ef umræða kann að verða hér við þessa 1. umr. en þó einkum og sér í lagi þegar málin koma bæði til 2. umr. hér í þessari hv. deild.