Launavísitala
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Í fjarveru hæstv. forsrh. mæli ég hér fyrir frv. til laga um launavísitölu, en mál þetta hefur þegar fengið afgreiðslu í hv. Nd. og ætti í sjálfu sér ekki að þurfa að hafa langt mál um þetta frv. Það fjallar fyrst og fremst um það að setja ákveðinn lagalegan grundvöll fyrir útreikningi launavísitölu en slík vísitala hefur verið reiknuð út af Hagstofu Íslands um alllangan tíma. Í ljósi þeirrar reynslu sem þar hefur fengist er talið nauðsynlegt að setja lög um þá vísitölu eins og ýmsar aðrar vísitölur sem eru reiknaðar út, en það verður að teljast mjög mikilvægt að slík vísitala sé fyrir hendi í okkar þjóðfélagi, a.m.k. við núverandi aðstæður. Hins vegar má ávallt um það deila hvað skuli miðað við slíkar launavísitölur og það hefur blandast inn í þetta mál. Ég ætla ekki að fjölyrða um það hvort það sé eðlilegra t.d. að lánskjaravísitala taki mið af slíkum vísitölum eður ei. Um það má margt segja en aðalatriðið er það að fyrir hendi verður að vera launavísitala og hún verður að hafa traustan grundvöll. Þetta frv. miðar að því að svo geti orðið og er því mikilvægt að það hljóti afgreiðslu á yfirstandandi þingi.
    Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.