Staðgreiðsla opinberra gjalda
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Það telst til tíðinda þegar þingdeild mælir einróma með samþykki ákveðins frv. en síðan rís fjmrh. upp og mótmælir. ( Gripið fram í: Nefnd.) Já, nefnd. Það og að framkvæmdarvaldið skuli geta haft veruleg áhrif á framgang ákveðins máls á Alþingi.
    Það frv. sem hér er til umræðu er nokkuð merkilegt fyrir þá sök að verið er að breyta þeirri óheillaskipan sem ég tel að hafi komist á með samþykkt frv. á síðasta þingi þar sem skattakröfum var veittur forgangur fram yfir veðkröfur í þrotabúum og skuldafrágöngubúum. Með þeirri breytingu sem þá var gerð --- og ég mótmælti að ég held einn þingmanna --- var ekki aðeins verið að veita þessum kröfum forgang fram yfir aðrar kröfur heldur einnig verið að eyðileggja svokölluð veðréttindi sem ég tel að hafi því miður verið að sverfa hægt og bítandi undan á síðustu árum. Nú er svo komið að veðréttindi, eins og þau voru skilgreind upphaflega og maður lærði í lögfræðinni á sínum tíma, hafa ekki þá þýðingu sem þau höfðu. Ég skil mjög vel áhyggjur hæstv. fjmrh. ef frv. nær fram að ganga og skil það mjög vel að skattakröfur skuli njóta forgangs því að þarna er um að ræða peninga sem viðkomandi aðilar hafa annaðhvort tekið af söluskattsgreiðendum eða þá í formi staðgreiðslu skatta. En ég tel að það eigi ekki að gera með því að hafa í lögum þannig ákvæði að þau gangi framar þeim grundvallarréttindum sem veðréttindi byggjast á.
    Ég tel raunar að með lögunum eins og þau eru hafi innheimtan dalað frekar en hitt vegna þess að hugsunarhátturinn hjá innheimtuaðilum gæti verið þannig, án þess að ég sé að fullyrða það, að ef gefinn er frestur á þessu ákveðna gjaldþrotamáli eða innheimtan ekki kýld áfram eins hart og æskilegt væri gætu þeir sagt: Ef þetta fer í gjaldþrot njótið þið forgangs fram yfir allt annað. En ef svona ákvæði er ekki í lögum mundu þeir beina innheimtuaðgerðunum miklu fljótar að viðkomandi fyrirtæki sem hefur dregið að sér skatta og notað þá í rekstrinum. Ég tel einmitt mikla ástæðu fyrir fjmrh. að beina kröftum sínum að því að brýna fyrir innheimtumönnum ríkissjóðs að grípa til ráðstafana fyrr en nú er, en ekki að gefa skattakröfum forgang fram yfir aðrar kröfur. Ég tel þetta mjög óæskilegt, sérstaklega þegar verið er að tala um veðréttindi þar sem þeir sem eiga veð í ákveðinni fasteign eiga að geta treyst því að þau veðréttindi standi.
    Ef frv. nær ekki fram koma svo miklar efasemdir um gildi t.d. veðbréfa eða veðbókarvottorða að það nær ekki nokkurri átt. Við eigum að geta treyst því að þau veðréttindi sem eru skráð hjá fógetum séu með þeim hætti að það megi treysta þeim í einu og öllu. Gerist það ekki en skattakröfur nái hins vegar forgangi held ég að við séum komin, eins og ég sagði áðan, á óheillabraut.
    Ég hafði tal af skiptaráðandanum í Reykjavík og hann tjáði mér að sú stefna hefði verið tekin upp hjá þeim í skiptarétti að láta skattakröfur ganga framar

veðkröfum á grundvelli þeirra ákvæða sem eru í núgildandi lögum sem hér er verið að reyna að breyta. Ég tel mjög vafasamt að þessi ákvæði, sem eru í núgildandi lögum, séu inni.
    Ef við tölum um söluskattssvikin og það að ekki sé skilað inn því fé sem fyrirtæki innheimta í formi söluskatts eða í gegnum staðgreiðslu, finnst mér miklu meira áríðandi að innheimtuaðilar hafi virkari úrræði til þess að grípa þarna inn í en er í núgildandi lögum. Ég held að þegar lögin voru samþykkt hafi menn litið fram hjá þessu ákvæði. Menn áttuðu sig ekki á því að það er verið að breyta þarna gamalli hefð sem gilt hefur því það er verið að breyta forgangsröðun í þrotabúum og skuldafrágöngubúum. Þetta var ekki svona. Það var ekki fyrr en menn fóru að átta sig á texta laganna að þetta vandamál kom upp. ( Fjmrh.: Það var nú svona í 40 ár.) Varðandi söluskattinn? ( Fjmrh.: 1926 til 1974.) En alla vega var þetta ekki svona áður, ekki eftir 1974. ( Fjmrh.: Í rúm 10 ár.) Ég þori ekki að fullyrða um þetta enda var ég ekki búinn í lögfræðinni þá. En alla vega meðan ég var þar man ég ekki eftir því að hafa séð svona ákvæði.
    En ég vil mælast til þess að frv. fari í gegn á þessu þingi. Hins vegar er ég tilbúinn til þess, og hef sagt það áður hér í ræðustól að ég væri tilbúinn til að hjálpa hæstv. fjmrh. með það að finna leiðir hvernig bæta megi innheimtuna, ekki aðeins að þessu leyti til, heldur einnig að fyrirtækjum, sem vitað er að skila of lágum söluskatti eða jafnvel engum, verði gert skylt að skila öllum sínum söluskatti. Því miður eru enn þá í þjóðfélaginu til fyrirtæki sem hafa komist upp með það að skila ekki öllum þeim söluskatti sem þau eiga að skila samkvæmt lögum.
    Þetta vildi ég sagt hafa við 1. umr. Því miður á ég ekki sæti í hv. fjh.- og viðskn. Ed. en mundi mælast til þess við þá sem þar eiga sæti að þeir kalli a.m.k. fyrir skiptaráðandann í Reykjavík sem er mest inni í þessum málum og fái hans álit á frv. og hvaða áhrif þessi ákvæði í núgildandi lögum hafa, ekki aðeins fyrir skiptaréttinn heldur einnig fyrir þinglýsingar og tryggingu sem í veðréttindum felast.