Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það er alveg á mörkunum að ég telji rétt að vera að eyða dýrmætum tíma okkar í deildinni til þess að svara einhverju af þeim hugleiðingum sem hafa komið upp á yfirborðið vegna þessa samkomulags sem við kvennalistakonur gerðum varðandi stuðning við frv. Það hefur reyndar komið í ljós í einni ræðunni af annarri að menn eru lítt eða ekki lesnir og hafa ekki lesið það samkomulag sem kom með nefndarálitunum tveimur frá Nd. Ég ætla aðeins að víkja að því þar sem fram hafa komið sömu spurningarnar hvað eftir annað og þeim hefur verið svarað þannig að það hefur jafnvel ekki verið hlustað á svörin.
    Ég ætla aðeins að leggja orð í belg í sambandi við það sem hv. þm. Guðmundur Ágústsson sagði áðan um að ekkert samband væri á milli húsbréfafrumvarpsins og þess samkomulags sem við gerðum. Sjálfur er maðurinn löglærður og hann hlýtur að sjá á frv. að efnislega er ekki hægt að gera brtt. varðandi húsbréfafrumvarpið sem mega verða til þess að styrkja félagslega kerfið. Hann hlýtur líka að hafa gert sér grein fyrir því að um leið og húsbréfakerfið tekur gildi munu vextir hækka og þar af leiðandi munu þeir sem eru verr staddir eiga erfiðara með að komast yfir húsnæði en áður. Því töldum við efnislega ekki hægt að standa að frv. nema til kæmi einhver trygging til að hinir lægra launuðu ættu enn þá möguleika til að koma sér þaki yfir höfuðið með því að fá fyrirgreiðslu í gegnum félagslega kerfið.
    Ég vildi aðeins að þetta kæmi fram og undirstrika það sem hv. 6. þm. Reykv. Guðrún Agnarsdóttir sagði hér fyrr í dag í ræðu sinni að við lögðum á það áherslu frá upphafi að litið yrði á húsnæðiskerfið í heild sinni. Það eru ýmsir fleiri þættir sem þarf að skoða og þar á meðal mjög nauðsynlega félagslega kerfið. Því er líka gert ráð fyrir að það verði endurskoðað og samræmt í þeirri nefnd sem hefja mun störf í sumar.