Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. 6. þm. Vesturl. Danfríðar Skarphéðinsdóttur langar mig að endurtaka það sem ég sagði hér áðan. Menn mega ekki misskilja það þannig að ég sé ósammála því að ráðstafa 600 millj. kr. til félagslega kerfisins. Raunar tel ég að þeim peningum sé mjög vel varið. Kjarninn í minni ræðu varðandi þátt Kvennalistans í frv. sem hér er til umræðu var að ekki væri beint samband á milli frv. um húsbréf annars vegar og þau skilyrði sem Kvennalistinn setti. Það er verið að taka upp kerfi um húsbréf sem tengjast á engan hátt því að varið sé peningum til félagslega kerfisins. Það mætti alveg eins halda því fram að Kvennalistinn hefði samþykkt frv. félmrh. gegn því að ákveðnum peningum yrði varið til kvennahúss eða einhvers slíks. Málið er að það eru engin tengsl á milli þessa tvenns, annars vegar húsbréfakerfisins og þeirra peninga sem á að verja til félagslega kerfisins. Það var gert með því að breyta ákveðnum greinum í frv. Það er kjarni málsins. Ég sagði áðan að menn yrðu að líta á skilyrðin sem sett eru í tengslum við það frv. sem verið er að ræða um. Þetta var það sem ég sagði og ég held að hv. þm. hefði átt að hlusta betur en hann gerði.