Jarðræktarlög
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á jarðræktarlögum, nr. 56 frá 30. mars 1987. Frv. gerir ráð fyrir því að breytt sé tveimur greinum gildandi jarðræktarlaga og er breytingin lögð til eftir reynslu af framkvæmd laganna undanfarin ár og í ljósi breyttra aðstæðna í landbúnaðinum. Þessar breytingar snerta ákvæði gildandi laga um framlög ríkisins til jarðabóta.
    Í fyrri grein frv. er lagt til að breytt sé núgildandi 7. gr. laganna með því meginmarkmiði að gert er ráð fyrir að sækja þurfi fyrir fram um öll jarðræktarframlög og geti enginn reiknað með framlagi fyrr en hann hefur fengið skriflegt svar og samþykki þar um. Mundu þá loforð um framlög byggjast á nýsamþykktum fjárlögum sem gerðu kleift að greiða framlögin mjög fljótt eftir að framkvæmdum lyki. Þetta mundi væntanlega auðvelda mjög alla áætlanagerð hvað snertir útgjaldaþörf til þessa liðar og koma á fastari skipan þessara framkvæmda en verið hefur að undanförnu, en viðleitni hefur verið uppi í þá átt að færa greiðslu framlaga til þessa liðar undir sambærilegt form og er til ýmissa annarra útgjalda ríkisins, þ.e. að það liggi fyrir við fjárlagagerð hvers árs hve miklar framkvæmdir verði samþykktar og njóti styrkja á næsta ári.
    Þá gerir 2. gr. frv. ráð fyrir því að breytt sé 10. gr. gildandi jarðræktarlaga þar sem fjallað er um ríkisframlag til jarðabóta til einstakra verkefna á því sviði. Breytingarnar eru í meginatriðum þær að dregið er úr áherslu á nýrækt og nýja framræslu lands en áherslan þess í stað færð til endurræktar og hreinsunar þegar grafins lands og þá er í nokkrum atriðum breytt nokkuð hlutfalli framlaga til einstakra framkvæmdaliða og gert er ráð fyrir að nokkur lækkun eigi sér stað. Er þar m.a. tekið mið af því hagræði sem væntanlega felst í því að framlögin verði greidd innan þess árs sem til framkvæmdanna er stofnað eins og leiða mun af ákvæðum 7. gr laganna yrði þeim breytt eins og lagt er til í 1. gr. frv.
    Frumvarpsdrög voru send búnaðarþingi, hinu fyrra sem starfaði á þessum vetri, og var síðan tekið tillit til ýmissa ábendinga sem þar komu fram. Þá var enn fremur haft samráð við búnaðarþing hið síðara og fóru landbúnaðarnefndir þingsins til þess þings og ræddu við fulltrúa þaðan. Þess ber að geta að landbn. Ed. varð sammála um tilteknar breytingar á frv. og samkomulag varð um afgreiðslu málsins og ber að fagna því sérstaklega.
    Þá vil ég að lokum geta þess að eins og kunnugt er er á lánsfjárlögum heimild til handa landbrh. og fjmrh. að ganga til uppgjörs á skuldum vegna framkvæmda fyrri ára þegar lög þessi hafa verið staðfest og er gert ráð fyrir því að reynt yrði á tilteknu tímabili að greiða upp þann hala sem myndast hefur vegna þess að fjárveitingar undanfarinna ára hafa ekki nægt til að kosta framkvæmd jarðræktarlaganna í óbreyttri mynd. Hefur þar safnast upp skuldahali allmikill og er nauðsynlegt, til að koma

skikk á þau mál, að ganga til þess að gera hann upp. Það er von mín að takast megi að hreinsa upp þann hala og koma á nýrri skipan þessara mála á eins og tveimur til þremur árum þannig að frá og með þeim tíma séu allar skuldir sem nú standa á þessum lið upp greiddar sem og komið fast skipulag á framkvæmd þessara mála sem byggi þá á fjárveitingum hvers árs sem setji þannig ramma um framkvæmdir líðandi árs.
    Að öðru leyti vísa ég um ítarlegri umfjöllun til framsöguræðu sem flutt var fyrir þessu máli í hv. Ed. og var nokkuð ítarlegri en hér hefur verið fram borin og stendur að öllu leyti fyrir sínu öðru en því sem breytingar hafa orðið á frv. í meðförum hv. Ed. og prentaðar hafa verið upp hér á sérstöku þingskjali eins og venja er, herra forseti.
    Að lokinni þesari umræðu legg ég svo til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.