Jarðræktarlög
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Það er út af því sem hæstv. landbrh. sagði um greiðslu á eftirstöðvum eða ógreiddum jarðabótastyrk. Mér finnst það alveg óviðunandi að það dragist í tvö til þrjú ár að ljúka þeim greiðslum. Þegar menn fóru í þessar framkvæmdir gerðu þeir ráð fyrir því samkvæmt gildandi lögum að fá þennan styrk greiddan á árinu eftir og ef það á svo að dragast að einhverju leyti í tvö, þrjú ár er ég hræddur um að það komi sér illa fyrir marga því að bæði er það nú verðbólgan og annað sem kemur þarna inn í þetta mál. Ég skora á bæði hæstv. landbrh. og eins hæstv. fjmrh. að hugleiða þetta og taka til greina það atriði að samkvæmt gildandi lögum átti þessi greiðsla að vera komin.