Jarðræktarlög
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Mér þykir nú stórum betur að hv. Ed. hefur breytt frv. hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórnar mjög til bóta þannig að hvergi nærri er gengið eins langt í að skerða hlut bænda og gert var ráð fyrir með frv. þegar það var lagt fram. Þetta sýnir með öðru að hv. Alþingi fellst ekki á allar þær aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar sem hún hyggst koma fram og er það vel.
    Ég vil svo taka það fram vegna orða hv. þm. Stefáns Valgeirssonar að við afgreiðslu lánsfjárlaga var því lýst yfir að í tengslum við þær lagabreytingar, sem nú er verið að stefna að að komist fram, verði gerðar upp þær skuldir sem á hvíla, sá hali sem hvílir á þessum málum, og vitna ég þar til mjög afdráttarlausra yfirlýsinga hv. 1. þm. Vesturl. sem ekki fóru á milli mála. Sá hali ætti því að verða greiddur upp á þessu ári og, eins og hv. þm. Alexander Stefánsson sagði réttilega, til þess þarf vitaskuld fjármagn.
    Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. Frv. fer til hv. landbn. þar sem ég á sæti og verður þar auðvitað tekið til eðlilegrar athugunar.