Jarðræktarlög
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Aðeins til að tryggja að einskis misskilnings gæti hér milli manna. Ef hv. 6. þm. Norðurl. e. vill leggja eyru við, þá fólst það ekki í mínu máli að dráttur yrði á greiðslum svo næmi tveimur til þremur árum frá því að þær væru unnar og þangað til þær yrðu greiddar. Hitt lá í mínum orðum að það gæti tekið tvö til þrjú ár að vinna að fullu upp þann mismun sem orðinn er á annars vegar fjárveitingunum og hins vegar útgjöldunum samkvæmt þessum gildandi lögum og ná því að fullu upp sem er allt annar hlutur en sá að töf verði á greiðslum sem nemi tveimur til þremur árum.
    Það gefur auga leið að það er nokkuð mikið í ráðist að ná að vinna upp skuldahala frá árunum 1987--1988, greiða framkvæmdir sumarsins 1989 og koma nýrri skipan á greiðslur fyrir árið 1990 eins og hlýtur að vera ætlunin og verður að takast með setningu nýrra laga sem gera ráð fyrir staðgreiðslu þessara framkvæmda að því leyti til að framkvæmdir hvers árs greiðist innan framkvæmda ársins og út frá samþykktri áætlun þar um sem lögð sé til grundvallar afgreiðslu fjárlaga. Ég vil fjalla um það af fullu raunsæi að ég treysti mér ekki til þess að lofa því að það takist að vinna þennan hala að fullu upp og ljúka þeim greiðslum á styttri tíma, en það á ekki að þurfa að þýða að það dragist um svo langan tíma að greiða framkvæmdir hvers árs, heldur fremur að þetta bil verði ekki unnið upp að fullu á styttri tíma en hér getur.
    Varðandi þær breytingar sem hv. Ed gerði á þessu frv. og hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson vék nokkuð að, þá er ég að fullu sáttur við þær breytingar og tel þær að flestu leyti hafa verið til bóta. Hv. landbn. Ed. vann mjög vel að þessu frv. eins og sú nefnd á kyn til, og ég held að sú vandaða yfirferð hafi leitt til þess að frv. sé betra og betur unnið en það var áður. Það er svo með þennan ráðherra sem hér talar að það er ekki feimnismál fyrir honum þó að frumvörp sem hann mælir fyrir og leggur fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar taki breytingum í meðförum Alþingis, enda væri það ráðherra sem hefði misskilið sinn tilgang í lífinu ef hann yrði ókvæða við þó að Alþingi leyfði sér að breyta að einhverju leyti frv. sem hann hefur mælt fyrir því það er ... ( FrS: Hefurðu sagt meðráðherrum þínum frá þessu?) Já, ég skal koma þessum skilaboðum á framfæri. Þetta er mín bjargföst sannfæring að ráðherrar eigi að hafa þá stærð í stykkinu að þeir skilji að það er Alþingi sem hefur löggjafarvaldið en ekki þeir og það er síður en svo feimnismál þó að frumvörp sem einhver ráðherra hefur mælt fyrir taki breytingum í meðförum Alþingis. (Gripið fram í.) Aðalatriðið er, ekki satt, hv. þm., að Alþingi fái vilja sinn fram, hann sé skýr og komi fram í lagasetningunni.