Jarðræktarlög
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa því hér yfir að ég tel að frv. hafi við meðferð Ed. tekið miklum stakkaskiptum til hins betra og ég fagna því að sjálfsögðu. En vegna þeirra orðaskipta sem hér hafa farið fram vil ég aðeins segja það að ég treysti alveg þeirri yfirlýsingu sem hæstv. landbrh. gaf við afgreiðslu fjárlaga um hvernig staðið yrði að uppgjöri á því sem ógreitt er til bænda sem þeir eiga 100% rétt á samkvæmt lögum, og enn fremur því sem kemur fram í nál. Ed. þar sem vitnað er í ráðherra, viðræðum við hann, að óþarft væri að setja ákvæði í frv. þar sem ráðherra lýsti því yfir að hann mundi hafa forgöngu um að rekstrarvandi búnaðarsambandanna á þessu ári yrði leystur. Þetta er að vísu sérmál en það tengist þessu eigi að síður og ég sé á þessari stundu enga ástæðu til að vefengja það sem hæstv. ráðherra hefur sagt og gefið yfirlýsingar um fyrr en annað kemur í ljós. Að sjálfsögðu mun landbn. Nd. taka málið til skoðunar.