Hagþjónusta landbúnaðarins
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Frsm. landbn. (Alexander Stefánsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 1151 frá Nd. um frv. til laga um Hagstofnun landbúnaðarins. Nefndin hefur rætt frv. á fundum sínum. Á fund nefndarinnar kom Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri og Gamalíel Sveinsson, forstöðumaður þjóðhagsreikninga Þjóðhagsstofnunar. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Stéttarsambandi bænda, Hagstofu Íslands, Búnaðarfélagi Íslands, Búnaðarsambandi Eyjafjarðar og Búnaðarsambandi Borgarfjarðar.
    Nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali. Breytingar þessar eru gerðar í samráði við hagstofustjóra og raunar fleiri aðila og varða þær skilgreiningar á hlutverki stofnunarinnar, auk þess sem heiti hennar er breytt í ,,Hagþjónustu landbúnaðarins``.
    Undir þetta skrifa allir nefndarmenn landbn., þeir Jón Sæmundur Sigurjónsson, Guðni Ágústsson, Eggert Haukdal, Þórður Skúlason, Pálmi Jónsson, Ingi Björn Albertsson og Alexander Stefánsson.
    Þær breytingar sem hér voru gerðar voru fyrst og fremst gerðar til að aðlaga þessa stofnun því hlutverki sem hún á m.a. að hafa í sambandi við almennar upplýsingar um landbúnaðinn og stöðu hans til þess að færa þær nær því raunhæfa hlutverki sem þarf að gera. Til að þær upplýsingar sem þarna koma fram verði reistar á faglegum grunni og njóti trausts þeirra sem um þurfa að fjalla, þá er náttúrlega brýn nauðsyn að Hagstofa Íslands verði með í ráðum og jafnframt einnig þjóðhagsreikningastofnun og þess vegna var þetta umorðað eins og það er í frv.
    Í fyrsta lagi er gerð sú breyting að í stað orðanna ,,Hagstofnun landbúnaðarins`` í upphafi 1. mgr. og í stað sömu orða hvarvetna annars staðar í frv. komi (í viðeigandi föllum): Hagþjónusta landbúnaðarins. Þetta var nauðsynlegt og er til samkomulags um það að ekki verði neinn misskilningur um það að þetta er fyrst og fremst þjónustustofnun sem á að hafa það hlutverk að samræma og afla upplýsinga um landbúnaðinn og reikningsskil bænda þannig að það verði gert á þann veg að ekki verði um vafaatriði að ræða.
    Síðan eru í öðru lagi breytingar við 2. gr. þar sem hlutverk Hagþjónustu landbúnaðarins er skilgreint og eins og hv. þm. sjá er greinin umorðuð þannig að það valdi ekki neinum misskilningi hvaða hlutverk þarna er um að ræða. Þetta er fyrst og fremst gert eftir ábendingum og í samráði við hagstofustjóra og raunar einnig í samráði við hagfræðing hjá Stéttarsambandi bænda sem átti hlut að því að semja þetta frv.
    Þá var einnig gerð breyting á frv., þ.e. um stjórnina, yfirstjórnina. Eins og það er í frv. sem var lagt til grundvallar, þá átti stjórn að vera skipuð fimm mönnum. Það kom strax fram ábending frá búnaðarþingi um það að þeir töldu æskilegt að leggja aðaláhersluna á það að þessi stofnun yrði óháð stofnun svo hún nyti trausts ólíkra hópa í þjóðfélaginu. Þess vegna væri óráð að í þessari stjórn sæti fulltrúi frá hagsmunasamtökum bænda, þ.e.

Stéttasambandinu. Einnig kom fram hjá Hagstofu Íslands að það væri mjög mikilvægt að í þessari stjórn ætti sæti fulltrúi eftir tilnefningu Þjóðhagsstofnunar.
    Nefndin breytti þessari grein þannig að landbrh. skipar fjóra menn í stjórn Hagþjónustu landbúnaðarins til fjögurra ára í senn. Skal einn skipaður eftir tilnefningu stjórnar búvísindadeildar Bændaskólans á Hvanneyri, einn eftir tilnefningu Hagstofu Íslands, einn eftir tilnefningu Þjóðhagsstofnunar og einn eftir tilnefningu Búnaðarfélags Íslands. Sömu aðilar tilnefna varamenn.
    Síðan var gerð breyting við 4. gr., að í stað orðsins ,,forstjóra`` í 1. tölul. og í stað sama orðs hvarvetna annars staðar í frv. komi (í viðeigandi beygingarföllum): forstöðumaður.
    Einnig er í fjórðu brtt. gerð tillaga um það að fyrri málsl. 2. tölul. 4. gr. orðist svo: ,,Stjórn leggur árlega, í samvinnu við forstöðumann, fram tillögur til landbrn. um fjárþörf stofnunarinnar vegna undirbúnings fjárlaga.``
    Þá er gerð tillaga um að 4. tölul. 4. gr. falli brott. Hann var um það að stjórnin ætti að halda tvo fundi árlega o.s.frv.
    Við 7. gr. var gerð breyting. Greinin hljóði svo:
    ,,Heimilt er að greiða fyrir öflun sérstakra upplýsinga sem nauðsynlegar eru vegna verkefna stofnunarinnar og skulu greiðslurnar vera samkvæmt viðmiðunargjaldskrá sem landbrh. setur.``
    Í frv. var hins vegar lagt til að greidd yrðu fyrir alla búreikninga bænda 35% af kostnaði. Þetta taldi nefndin að væri óþarft. Hitt væri náttúrlega sjálfsagt að þessi stofnun hefði heimild til að taka greiðslur fyrir.
    Fyrirsögn frv. verði svo: Frv. til laga um Hagþjónustu landbúnaðarins.
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál. Þær breytingar sem hér er um að ræða skýra sig sjálfar. En hér er um mikilvægt mál að ræða. Hagþjónusta landbúnaðarins í þessu formi þarf að komast á. Það hefur verið upplýst bæði í samræðu við hagstofustjóra og fleiri aðila að búreikningadeild Búnaðarfélagsins ræður ekki við þetta hlutverk. Það vantar reikninga frá bændum. Það þarf að skipuleggja þetta bókhaldskerfi sem þessar upplýsingar byggja á og samræma þessar upplýsingar þannig að þær komi að notum
fyrir málið í heild og svo, ekki hvað síst, vil ég leggja áherslu á það að hér er verið að taka beina ákvörðun um það að flytja stofnun út á land og þetta er mjög mikilvægt fyrir Bændaskólann á Hvanneyri, ekki síst búvísindadeild, háskólastigið, að hægt verði að nýta þá starfskrafta sem eiga að vinna í þessari Hagþjónustu landbúnaðarins til kennslustarfa á Hvanneyri. Þess vegna hefur þetta mál margfalt gildi.
    Ég vil svo aðeins minna á það í lokin að það væri mjög æskilegt að þetta frumvarp yrði samþykkt hér á þessu þingi þar sem á þessu ári á Bændaskólinn á Hvanneyri 100 ára afmæli.