Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu um ráðstafanir vegna kjarasamninga er keimlíkt því sem við höfum séð áður. Að einu leyti er það þó til batnaðar því hæstv. ráðherrar hafa séð pínulítið að sér í skattamálum. Virðist vera að það rofi aðeins til og menn átti sig á því að það sé léleg hagfræði að blóðmjólka kúna.
    Í 1. gr. kemur fram að meiningin er að tekið verði 400 millj. kr. lán, eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, sem verði ráðstafað í gegnum Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Af þessum 400 millj. kr. fara 350 millj. kr. til greiðslu verðbóta á freðfisk. En 50 millj. kr. á að verja til greiðslu verðbóta á hörpudisk. Enn fremur stendur í lögunum að meiningin sé að þetta verði endurgreitt af tekjum Verðjöfnunarsjóðs af viðkomandi afurðum á næstu þremur árum eftir að lánið er tekið. Þetta finnst mér alveg sérstök hagfræði út af fyrir sig. Ríkissjóður tekur lán og setur í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og ákveður að fiskvinnslan eigi sjálf að endurgreiða þetta á næstu þremur árum. Samt sem áður skal þetta reiknað inn í tekjur fiskvinnslunnar þó að það sé sagt að fiskvinnslan sé að taka lán. Það er með öðrum orðum verið að plata menn. Það er raunverulega verið að lána fiskvinnslunni þessa peninga. Í lok greinarinnar stendur: ,,Það sem þá kann að vera eftir ógreitt fellur á ríkissjóð.`` Hvernig í ósköpunum getur ríkisstjórn ákveðið fjárveitingu ríkisstjórnar eftir þrjú ár? Það er alveg fráleitt að þessi hæstv. ríkisstjórn hafi nokkurt umboð til þess að taka fram fyrir hendurnar á fjvn. eftir þrjú ár.
    Annað mál með þetta lán. Ég fæ ómögulega skilið að ef ríkissjóður á þessa peninga, en það er bókað svo að þetta sé lán, hvernig getur hann átt peninga sem geta jafnframt verið tekjur hjá öðrum aðilum? Getur hæstv. viðskrh. sem mjög fróður maður í peningamálum útskýrt fyrir okkur hvernig svona bókhald gengur upp? Ef ríkissjóður er kröfuhafi að þessari skuld hlýtur einhver að skulda skuldina. Þetta verður að fást á hreint. Ef það er meiningin að þetta verði ekki greitt er miklu eðlilegra að þetta verði lagt fram sem fjáraukalög því hér er ekki um að ræða annað en blekkingar og falsbókhald. Það gengur ekki upp að framkvæmdarvaldið á Íslandi geti verið kröfuhafi og lánað peninga sem eru síðan færðir sem tekjur í útflutningsiðnaði í frystingu. Ég fæ ekki svona vitleysu til að ganga upp í kollinum á mér. Ég tel það vera mjög alvarlegan hlut að bjóða upp á svona falsanir. Þetta eru ekkert annað en hreinar falsanir. Fyrir svo utan það, eins og ég sagði áðan, að það er útilokað að þessi ríkisstjórn geti ákveðið hvað verður á fjárlögum eftir þrjú ár.
    Burtséð frá þessari vitleysu þá tel ég að nú tapi útflutnings- og samkeppnisiðnaður á Íslandi ekki undir 500 millj. kr. á mánuði um þessar mundir. Hlutur sjávarútvegs í þeirri köku gæti verið um 400 millj. kr., þ.e. nálægt því eitt stykki Ólafsfjarðarjarðgöng á tveggja mánaða fresti. Ég tel að hér sé um að ræða mun alvarlegri hlut en það að hafin væri gegndarlaus

rányrkja á þorskstofninum því rányrkja höfuðstóla framleiðsluatvinnuvega þjóðarinnar er alvarlegri hlutur en að rányrkja þorskstofninn. Við vitum að það er hægt að byggja þorskstofninn upp aftur en hvernig verður eiginfjárstaðan í atvinnulífinu byggð upp? Og hver er það sem leggur fé í það? Verða það erlendir aðilar? Verða það þeir sem að eiga lánsfé hjá Íslendingum sem kaupa upp þessi fyrirtæki þegar allt er komið á vonarvöl? Það er alveg stórmerkilegt að svona lagað skuli vera hægt í réttarríki. Að ryksuga upp höfuðstóla íslenskra framleiðsluatvinnuvega eins og gert hefur verið undanfarna mánuði og þykjast alltaf vera að gera eitthvað til að laga stöðu atvinnulífsins. Það er verið að gera það með svona blekkingum eins og ég var að rekja hérna áðan.
    Þegar farið er að tala um gengismál er talsmönnum Sjálfstfl. alltaf núið því um nasir að þeir vilji einhverja gengiskollsteypu. Í svokölluðum eldhúsdagsumræðum hér um daginn var alltaf talað um gengiskollsteypur. Hæstv. viðskrh. vill kannski útskýra hvað þetta orð þýðir. Hann sem yfirmaður bankamála ætti að fara létt með það að sjá til þess að gengi íslensku þjóðarinnar væri skráð í samræmi við lög, en það er meginmarkmið laga um gengisskráningu að gengi skuli skráð þannig að það sé jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Það er kjarni málsins og aðalatriði laga um Seðlabanka varðandi gengisskráningu og hef ég oft minnst á það hér áður. En það virðist ekki hafa mikið að segja þó að maður sé eitthvað að þusa um hvað er í löggjöf Seðlabankans.
    Það eru notaðar alls konar aðferðir til þess að bægja athyglinni frá hinu raunverulega vandamáli. Þessi hæstv. ríkisstjórn hefur verið dugleg við að finna sökudólga hér og þar. Það er fundnir sökudólgar á verðbréfamörkuðum, þar eru ljótir karlar sem eru höfuðpaurar að þessu öllu saman að þeirra sögn og það eru sökudólgar í kaupleigufyrirtækjum, þar eru ljótir sökudólgar. Nú síðast eru það sökudólgarnir í bankakerfinu, allir bankarnir græða svo voðalega. En er ekki kominn tími til að fara að skoða hver sé höfuðstóll íslenskra viðskiptabanka? Er hann svo rosalega stór? Þar sem mér er kunnugt um
eiginfjárstöðu bankakerfisins er hún bara léleg. Ég bið guð að hjálpa okkur öllum ef eiginfjárstaða bankakerfisins á Íslandi væri lélegri en hún er. Ekki mundi það auka álit landsmanna út á við ef þeir færu nú að tapa. Þetta eru allt saman tómar reykbombur þar sem verið er að bægja athyglinni frá hinu raunverulega vandamáli. Hið raunverulega vandamál eru stjórnmálamenn sem kunna ekki skil á sínu hlutverki, þ.e. að koma á jafnvægi á fjármagnsmörkuðum og í utanríkisviðskiptum. Það er þeirra hlutverk.
    Mér finnst enn fremur að það sé kominn tími til að endurskoða samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds því hér á hæstv. Alþingi veður framkvæmdarvaldið inn og lætur þingmenn rétta upp hönd eftir pöntunum. Stjórnarmeirihlutinn er meðhöndlaður eins og einhverjar tuskubrúður og er

látinn rétta upp hönd eftir pöntun við hvaða vitleysu sem er, samanber þau frumvörp um skattahækkanir og fleira sem hefur verið troðið í gegn í vetur.
    Ég verð því að segja það að lokum, hæstv. forseti, að ég vænti þess að íslenskur útflutnings- og samkeppnisiðnaður megi hljóta betri meðferð en hingað til hjá þessari hæstv. ríkisstjórn og vonandi fara þeir að átta sig betur en kemur fram hér og lækka skattana meira en þeir hafa þegar gert.