Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegur forseti. Ég mun í fáum orðum reyna að svara þeim spurningum sem hér hafa verið settar fram af hv. ræðumönnum eftir því sem tök eru á og sný mér fyrst að máli hv. 1. þm. Vestf.
    Hann, eins og reyndar hv. 10. þm. Reykn. og hv. 5. þm. Austurl., vék að starfsemi Verðjöfnunarsjóðs, hlutverki hans og fjárhag. Ég held að hv. 10. þm. Reykn. hafi komist næst sanni um þann vanda sem hér er við að fást, þegar hann sagði: Verðjöfnunarsjóðurinn hefur virkað til jöfnunar í niðursveiflunum en hefur ekki megnað að draga til sín fé þegar betur hefur árað og ná þannig fé til þess að mæta niðursveiflunum. Þetta er hverju orði sannara og það frv. sem hér liggur fyrir, þ.e. 1. gr. þess um Verðjöfnunarsjóðinn, er staðfesting á því að þetta sé rétt mat á ástandinu. En úr því sem komið er var ekki undan því að víkjast að finna þarna fé vegna þess hversu mikið áfallið var hjá frystiiðnaðinum og verðbreytingin til lækkunar var bundin við þá grein því nær eina. Því tel ég réttlætanlegt að grípa til þeirrar fjáröflunar með lántöku sem hér er á ný gerð tillaga um. En það eru vissulega rétt varnaðarorð, bæði hjá hv. 1. þm. Vestf. og hv. 10. þm. Reykn., að það er vandséð við núverandi aðstæður hversu það mætti auðnast sjóðnum að endurgreiða þetta mikla fé á þremur árum. Við því býst ég ekki. Ég er því nokkurn veginn viss um að verulegur hluti af þessari greiðsluskuldbindingu mun lenda á ríkissjóði nema, og það er náttúrlega þess vegna sem fyrirvarinn er gerður, mjög mikil verðbreyting til batnaðar verði á næstu missirum. Margt var talið teikna til þess að mikil verðhækkun yrði á fiski í Evrópu vegna takmarkana á aflaleyfum hvarvetna í Evrópu, bæði í Norðursjó, við Norður-Noreg og í Barentshafi. Á öllum þessum hefðbundnu veiðislóðum fyrir þann fisk, sem íslenskur fiskur keppir við, er mjög mikið dregið úr aflaheimildum. Áhrif þessa eru enn ekki komin fram að mínu áliti, en þótt þetta færi á besta veg fyrir Íslendinga þá býst ég engu að síður við því að þetta mundi mæða á ríkissjóði í einhverjum mæli fyrr eða síðar.
    Hv. 5. þm. Austurl. gerði nokkuð mál úr því að honum fannst að bókhaldið í þessu máli væri ekki rétt upp sett og að þarna væri verið að færa sjávarútveginum til tekna það sem hann í reynd væri að taka að láni. Þá vil ég benda honum á að það er í engu frábrugðið því sem gert hefur verið fyrri ár, að færa fyrirtækjunum til tekna greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði hvernig sem þær greiðslur hafa verið fjármagnaðar, hvort sem það hefur komið af eignum sjóðsins vegna uppsöfnunar á fyrri tíð eða vegna þess að sjóðurinn hafi tekið fé að láni. Spurningin sem hann vakti um að þarna þyrfti að standa eign á móti skuld er einfaldlega þannig að Verðjöfnunarsjóðurinn er skuldarinn en ekki fyrirtækin sem fá greiðslurnar úr honum. Auðvitað má finna að þessu með nokkrum hætti en við skilyrði óvissu eins og nú ríkir tel ég að ekki sé önnur leið fær. Að kalla þetta falsanir tel ég fjarri lagi og að þarna sé verið að

leggja málið eitthvað óljóst fyrir löggjafann tel ég enn fjær lagi því að þetta er gert mjög opinskátt og skýrt.
    Um það hvort sitjandi þing geti skuldbundið síðari þing til fjárframlaga eins og í þessu felst þá tel ég þetta að engu leyti frábrugðið í sínu eðli því sem gerist þegar þingið heimilar að ríkið ábyrgist lántökur annarra aðila eða samþykkir lántökur ríkissjóðs með greiðsluskuldbindingum fram í tímann, sem að sjálfsögðu krefjast svo fjárveitinga á fjárlögum til þess að undir megi rísa þegar þar að kemur. Mér finnst þannig satt að segja að hv. 5. þm. Austurl. hafi tekið nokkuð djúpt í árinni þegar hann notaði þau orð sem hér féllu áðan.
    En ég tek undir það með öllum þeim þremur sem hér hafa talað að vissulega er þetta varhugaverð þróun. Hv. 10. þm. Reykn. vék að því sem kannski er mikilvægast, þ.e. að í greiðslum af þessu tagi fælist mismunun milli atvinnugreina sem ekki væri þolandi og ekki hyggileg þegar til lengdar lætur. Undir það tek ég og bendi á að einmitt í þeim ákvörðunum sem teknar voru í tengslum við kjarasamningana felst áform um það að fella niður þessar greiðslur verðbóta á freðfisk úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins á næstu mánuðum í áföngum þannig að þær falli niður um næstu áramót. Ég saknaði þess því úr ræðu hv. þm., sem hafði að mínu viti greint ástandið alveg rétt, að hann léti þessa getið. Úr því reyni ég nú að bæta.
    Ég kem þá að því sem fram kom hjá hv. 1. þm. Vestf. en hann spurði beinlínis um hvort ríkisstjórnin teldi að þessar 1100 millj. kr., sem að frv. samþykktu yrði búið að heimila Verðjöfnunarsjóðnum að taka að láni á því ári sem líður frá september í fyrra til september á þessu ári, yrðu endurgreiddar. Ég tel það vera rétta ábendingu að það sé ólíklegt að Verðjöfnunarsjóður muni geta reitt þetta fé af hendi að öllu leyti jafnvel þótt ákaflega vel áraði. En einmitt vegna þeirrar óvissu sem um þetta ríkir er varla önnur leið fær til að tengja þetta saman en sú sem hér er valin. Ég minni á að fyrri ríkisstjórn beitti sömu aðferð og áformaði að beita sömu aðferð við þetta. Ég held því að hér eigi menn fyrst og fremst að tala um það sem hv. 10. þm. Reykn. vék að, þ.e. hvort hyggilegt væri yfirleitt að halda uppi greiðslum af þessu tagi án þess að fyrir þeim væri innstæða í sjóðnum. Ég er honum sammála um það og því
reyndar óbeinlínis sammála hv. 1. þm. Vestf. þótt hann nefndi ekki það sem mér finnst meiru máli skipta og kom fram í máli hv. 10. þm. Reykn.
    Um þær umræður sem hafa orðið um það að ríkisstjórnin hafi nú séð að sér um skattheimtuna og kallað aftur skattaálögur sem ákveðnar voru um áramótin er það vafalaust að vissu leyti rétt. En ég hélt nú að hv. 1. þm. Vestf. væri svo góðgjarn maður að hann teldi að batnandi manni væri best að lifa og þetta væri nokkuð vel ráðið. Reyndar fannst mér það vaka í máli hv. 5. þm. Austurl. umfram það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf.
    Hv. 10. þm. Reykn. beindi til mín ýmsum spurningum en áður en ég sný mér að því að fjalla um þær get ég svo sem tekið undir það sem fram

kom í hennar máli að góð vetrarvertíð hafi dregið úr atvinnuleysi og bætt ástandið í efnahagsmálum. Það er vissulega rétt. Hins vegar er líka rétt að þetta þýðir að gengið er á veiðiheimildirnar og það verður eitthvað minna úr að spila þegar kemur fram á árið. En ég vil ekki líta svo á að yfir þessu eigi menn að fjargviðrast. Ég held að það sé miklu réttara að fagna því að svo vel og giftusamlega hafi til tekist að aflinn hafi glæðst einkum og sér í lagi á hinu hefðbundna vertíðarsvæði þrátt fyrir mislynda veðráttu í vetur og var löngu tími til kominn.
    En áhrif þessara ráðstafana sem hér eru til umræðu á lánskjaravísitölu var ein af spurningum hv. 10. þm. Reykn. Ég held að best sé að lýsa þeim þannig að miðað við líklega gengisaðlögun --- þá miða ég nú einkum við þá ákvörðun sem Seðlabankinn tók nýlega með samþykki ríkisstjórnarinnar um að lækka gengið um 1,5% og stofna heimild fyrir Seðlabankann til að breyta daglegu gengi krónunnar innan marka sem eru 2,25% til hvorrar áttar, það sem við blasir og menn nú þekkja --- sé líklegt að lánskjaravísitalan muni breytast um 1--1,5% á mánuði út þetta ár, þó lækkandi þegar líður á árið. Um sveiflur milli einstakra mánaða ætla ég ekki að fjölyrða, en þetta virðist mér á þessu stigi máls líklegasta þróunin og að breytingin yfir árið verði á bilinu 18--20% þegar á heildina er litið. Þetta segi ég ekki af því að menn viti nákvæmlega hvað þarna er á ferðinni, en ég mun aðeins víkja að því á eftir hvað mér finnst skipta máli frá sjónarmiði stjórnvalda þegar menn horfa fram til þeirra mánaða sem eftir eru af þessu ári og fram á næsta ár og hugleiða stefnuna í gengismálum sem hv. 5. þm. Austurl. kom líka nokkuð að.
    Síðan komu nokkrar beinar spurningar um framkvæmd ýmissa þeirra atriða sem eru í bréfi forsrh. til Alþýðusambandsins og þá fyrst um það hvort stofnuð hefði verið atvinnumálanefnd eins og um er rætt í 1. tölul. í bréfi forsrh. frá 30. apríl til Alþýðusambandsins. Svarið er að formlega hefur ekki verið stofnuð slík nefnd. Hins vegar hafa farið fram samtöl við forustumenn Alþýðusambandsins um tilhögun þessa verks sem er tvíþætt. Í fyrsta lagi að fjalla um atvinnuástandið á líðandi stund á þessu ári, m.a. með það í huga að draga úr staðbundnum atvinnuvanda sem gætti fyrr á þessu ári á nokkrum stöðum á landinu og snúast við honum með þeim hætti sem heppilegast virðist. Svo hins vegar að horfa til lengri tíma, horfa til atvinnuuppbyggingar og það má vel vera að niðurstaðan verði sú að þessu verkefni verði skipt í tvennt. Ég tel víst, eins og reyndar um ýmsar aðrar nefndir sem hér var um spurt, að þessu verði formlega á komið um leið og samningarnir hafa verið staðfestir alls staðar og frv. sem hér er til umræðu orðið að lögum.
    Svipuðu máli gegnir um aðgerðir til að sporna gegn verðhækkunum í samstarfi við verkalýðs- og neytendasamtök. Þar hef ég í viðskrn. lagt drög að formlegu samstarfi umn þetta verkefni. Til þess verður tryggt fé. Það eru þegar hafnar kannanir á einstökum stöðum þar sem Verðlagsstofnun hefur haft samband

við verkalýðsfélög á ýmsum kaupstöðum og kauptúnum úti um land og er óskað eftir því að fólkið sjálft fylgdist með því hvernig verðlagið væri og hvernig það breyttist. Þetta hyggst ég binda í fastara form alveg á næstunni og mun þá að sjálfsögðu skýra frá því hér á þingi og opinberlega.
    Um samráð við launafólk um úrbætur í skattamálum hef ég sömu sögu að segja. Þar hefur ekki verið sett á formlegt samstarf með nefndarskipan en þar eru hins vegar áform uppi um slík samtöl.
    Um vaxtamálin er náttúrlega fyrst og fremst það að segja að ríkisstjórnin mun nú beita þeim heimildum sem bankalög, seðlabankalög, viðskiptabankalög og vaxtalög, hafa fært henni með þeim samþykktum sem gerðar hafa verið á þinginu í vetur og á grundvelli fyrrgildandi laga á þann hátt sem greinir í bréfi forsrh. til Alþýðusambandsins.
    Í sjötta lagi spurði hv. þm. um bætur almannatrygginga, hvenær þess væri að vænta að þær tækju breytingum í hátt við almennar launabreytingar. Svarið er að því miður reyndist ekki unnt að breyta þeim strax í byrjun maímánaðar. Ástæðan var fyrst og fremst sú að lögfræðingarnir sem frá þessu máli ganga eru í verkfalli. En svo er það líka rétt að auðvitað var ákvörðunin um kjarasamningana tekin á fyrsta degi mánaðarins þannig að það var ekki mögulegt að koma þessu við þegar í byrjun mánaðar. Vonandi verður unnt að framkvæma þessa breytingu þegar í byrjun júnímánaðar og þá verður hún gerð afturvirk frá 1. maí.
    Í sjöunda lagi spurði hv. þm. um fæðingarorlof og hvernig að því skyldi staðið. Ég get líkt og um hin fyrri atriðin staðfest að það hefur ekki enn verið sett upp formleg nefnd svo að mér sé kunnugt. Hins vegar skil ég þetta ákvæði í bréfi hæstv. forsrh. á sama hátt og hv. 10. þm. Reykn., þ.e. að þarna eigi að líta til heimavinnandi kvenna eins og annarra kvenna þegar fæðingarorlof er ákveðið.
    Ég vil svo að lokum í örfáum orðum snúa mér að því sem kom fram í máli hv. 5. þm. Austurl. þar sem honum varð tíðrætt um gengisbreytingar og þörfina fyrir bætt jafnvægi í efnahagsmálum. Ég vil benda á það að frá því að þessi ríkisstjórn sem nú situr tók til starfa hefur nafngengi íslensku krónunnar verið lækkað um 13,5% sem jafngildir 15,5% hækkun á verði erlendra gjaldmiðla. Vegna þess að þessi breyting hefur orðið sígandi og án þess að valda miklu afturkasti í innlendri verðlagsþróun og launabreytingum hefur þessu fylgt veruleg breyting á raungengi til lækkunar, þ.e. raungengið er nú í maímánuði um það bil 8% lægra en það var að jafnaði í fyrra. Þetta tel ég að hafi verið nauðsynleg breyting og hún hefur þegar borið þann árangur, með öðrum þáttum í þróun efnahagsmála, að það er greinilegt að jafnvægi er nú betra í efnahagsmálum en það var í fyrra. Þetta kemur m.a. fram í því að viðskiptahalli er miklu minni fyrstu þrjá til fjóra mánuði þessa árs en hann var í fyrra og reyndar miklu minni en flestir höfðu spáð.
    Í öðru lagi er það líka ljóst að betra jafnvægi er nú

á lánamarkaði í landinu en verið hefur nokkru sinni frá því að vaxtaákvarðanir voru gerðar frjálslegri, eða á árunum 1985 til 1986, eins og skýrt kom fram í ræðu seðlabankastjóra á ársfundi Seðlabankans 28. apríl. Það virðist því, ef litið er á hina hlutlægu mælikvarða, að hv. 5. þm. Austurl. sé að verða að ósk sinni, þ.e. að það sé að komast hér á betra jafnvægi í efnahagsmálum en áður ríkti m.a. með hyggilegri en hófsamlegri beitingu á gengisákvörðunum í samræmi við ákvæði laga um það efni í seðlabankalögum.
    Það er auðvitað markmið stefnu ríkisstjórnarinnar í verðlags- og gengismálum á næstu missirum að tryggja viðunandi samkeppnisstöðu útflutnings- og samkeppnisgreinanna, að draga úr viðskiptahalla en þó þannig að þetta valdi sem minnstum og jöfnustum verðhækkunum. Það er þess vegna mikilvægt að tímasetja opinberar ákvarðanir á ýmsum sviðum þannig að þær stuðli að því að þessi markmið náist. Í þessu sambandi þarf auðvitað að huga bæði að því sem gerist í kringum okkar í hinum ytri forsendum eins og útflutningsverðlagi, innflutningsverðlagi, gengisþróun á alþjóðamarkaði og vaxtaþróun. Því miður hefur sumt af því sem gerist í kringum okkur að undanförnu verið okkur í óhag. Olíuverð hefur hækkað mikið og erlendir vextir hafa líka hækkað. Þetta, ásamt innri atriðum eins og launaþróun, fiskverðsþróun, þarf að hafa í huga þegar menn taka ákvarðanir um breytingar á óbeinum sköttum og niðurgreiðslum, hvernig lækka megi verðbótagreiðslur úr Verðjöfnunarsjóðnum og síðast en ekki síst hvernig haga skuli gengisákvörðunum. Það er einmitt í þessu ljósi sem ákvörðun um breytingar á gengi krónunnar var tekin nú fyrir ekki löngu.
    Ég vona að það sem ég hef nú sagt hafi svarað þeim spurningum sem til mín hefur verið beint og ætla ég ekki að hafa um þetta fleiri orð.