Lögreglumenn
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti allshn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 56/1972, um lögreglumenn, með síðari breytingum.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið um það umsagnir frá Lögreglufélagi Reykjavíkur, lögreglustjóranum í Reykjavík og Sýslumannafélagi Íslands. Þá komu þeir Þorgrímur Guðmundsson, formaður Lögreglufélags Íslands, og Hjalti Zóphóníasson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, á fund nefndarinnar.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingu sem flutt er á sérstöku þingskjali. Breytingin felur í sér að það ákvæði frumvarpsins, er kveður á um að engan megi ráða eða skipa lögreglumann án þess að hann hafi lokið námi í Lögregluskóla ríkisins, taki ekki gildi fyrr en 1. júlí 1990, en í frumvarpinu hafði verið miðað við 1. janúar 1990. Tillaga nefndarinnar tekur mið af því að verið er að vinna að uppbyggingu skólans og þess vegna talið eðlilegt að hert ráðningarskilyrði taki ekki gildi fyrr en um mitt næsta ár.
    Sighvatur Björgvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.``
    Undir nefndarálitið rita Jón Kristjánsson, Kristín Halldórsdóttir, Geir Gunnarsson, Guðni Ágústsson, Kristinn Pétursson og Valdimar Indriðason.
    Á þskj. 1184 er brtt. sem ég hef í rauninni þegar gert grein fyrir í nál.