Framhaldsskólar
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það er nú hálfkaldhæðnislegt að hér skulum við ítrekað taka til umræðu lög um framhaldsskóla, þ.e. í fyrra um svipað leyti og aftur núna, og í bæði skiptin hvílir sá skuggi yfir umræðunum að ríkisvaldið og kennarar eiga í deilum. Að vísu fór svo í fyrra að aldrei kom til verkfalls en deilurnar voru harðvítugar engu að síður. Nú er málum komið eins og allir vita og þarf ekki að fjölyrða um það. Þetta varpar skugga á umræður af þessu tagi sem sannast sagna eru ekkert allt of oft hér í þinginu, þ.e. umræður um menntunarmál og annað sem að þeim málum lýtur, og það er hryggilegt til þess að vita að það skuli ítrekað gerast í skugga svona ástands.
    Til þess að gera langt mál stutt má í rauninni segja að það sé einmitt sú vinnudeila sem nú stendur og verkfall kennara sem gera það að verkum að okkur kvennalistakonum þykir nokkuð örðugt að veita frv. framgang á þinginu vegna þess að það hefur ekki verið hægt að hafa eðlileg samráð eða leita umsagnar eða umfjöllunar kennara á frv. og varðar þetta nú mikið þeirra starfssvið og starfstilhögun. Okkur þykir því ekki gott ráð að hraða frv. í gegnum þingið með þeim hætti sem nú er verið að gera eins og á stendur.
    Þegar frv. til laga um framhaldsskóla var til umræðu í fyrra höfðum við kvennalistakonur ýmislegt við það að athuga og fluttum fjölmargar brtt. sem flestar lutu að því að tryggja fagleg sjónarmið í stjórnun skólans með því t.d. að ætla fulltrúum kennara og nemenda, deildarstjórum og faggreinafélögum meiri aðild að stjórnun skólans en gert var ráð fyrir í frv. eins og það var lagt fyrir í fyrra. Þó að þetta frv. núna gangi talsvert í átt við þær hugmyndir sem við kvennalistakonur höfðum í fyrra þá er einmitt það sem hamlar núna að ekki er hægt að leita álits fagmanna og tryggja að starfsfólk skólans sé sátt við þær breytingar sem hér eru lagðar til. Því hefði okkur fundist eðlilegra að bíða með frv. þar til kæmi fram á haustið svo hægt væri að hafa um það eðlileg samráð.
    Þær breytingar helstar sem nú er verið að leggja til felast m.a. í nánari skilgreiningu á verksviði samstarfsnefndar framhaldsskólastigsins og um breytta skipan í skólanefndir. Þetta var nú það sem einna helst stóð í okkur kvennalistakonum í fyrra, þ.e. að hve miklu leyti þar ætti að gæta áhrifa pólitískt kjörinna fulltrúa. Eins eru hér ákvæði um breytta útreikninga við rekstrarkostnað skólanna og gerð samninga á milli skóla og menntmrn. um greiðslu til skólanna af fjárlagalið þeirra.
    Mig langar til að gera aðeins að umtalsefni 4. gr. þess frv. sem nú er lagt fram, þ.e. greinina um skólanefndir. Í lögunum eins og þau eru nú er gert ráð fyrir fimm manna skólanefndum og þar af áttu fjórir að koma úr hópi sveitarstjórnarmanna. Nú er nefndin stækkuð og gert ráð fyrir sjö manna nefnd. Fulltrúum sveitarstjórna er fækkað um einn þannig að þeir verða þrír af sjö og eru þar af leiðandi ekki lengur í meiri hluta. Þá má spyrja: Af hverju þrír?

Fyrst þeim er ekki ætlað að hafa veruleg áhrif eða þeim tryggður meiri hluti eins og var má spyrja að því hvort það hefði ekki jafnvel nægt að hafa einn fulltrúa sem væri þarna eins og tengiliður milli skólanna og sveitarstjórnanna því að eflaust væru margir sem ættu aðild að skólanefnd en þarna taka sveitarstjórnarmenn þrjú sæti án þess að þeim sé ætlað að hafa meiri hluta og ráða þar með gangi mála í skólanum. Þetta tryggir ekki að allir sem aðild eiga að sveitarstjórnum eigi þar af leiðandi aðild að skólanefndum. Þessi fjöldi tryggir heldur ekki að þar sem fleiri en eitt sveitarfélag standa saman að rekstri skóla þá eigi þau öll hugsanlega aðild að skólanefnd. Þarna virðist vera um einhvers konar miðjumoð að ræða, fara ekki of langt frá skólanefndunum eins og þær voru skipaðar í fyrra en halda þó einhverjum svip af þeim lögum.
    Ég ætla ekki að fara í hverja grein enda ekki ástæða til þess en það er ástæða til þess að spyrja í sambandi við 9. gr. frv., þar sem fellt er burtu ákvæði úr lögunum þess efnis að nemendum sé skylt að stunda fornám í einstökum greinum ef þeir hafa ekki náð tilskildum námsárangri. Nú skilst mér að ætlunin sé að mæta þessu með starfi námsráðgjafa. (Gripið fram í.) Meðal annars. Má spyrja héðan beint úr stólnum með hvaða öðrum hætti? (Gripið fram í.) En verður það nemendanna sjálfra að úrskurða hvort þeir vilja stunda þetta fornám? ( Menntmrh.: Það er námsráðgjafans.) Þar af leiðandi er það námsráðgjafinn.
    Í þeim brtt. sem við kvennalistakonur fluttum í fyrra við frv. vildum við að fest yrði í lög að einn námsráðgjafi væri á hverja 300 nemendur. En það er langt frá því að svo sé núna og því ástæða til þess að spyrja: Ef námsráðgjafar eiga að geta veitt nemendum þarna tilskilda hjálp við það hvernig þeir skuli haga sínu námi eða hefja sitt nám, hvernig á að mæta því? Er ætlunin að stórfjölga námsráðgjöfum? Hvernig á yfirleitt að standa að framkvæmd þessa eftir að þetta ákvæði hefur verið fellt út úr lögunum? Það mun sannast sagna að þeir hafi ærið verkefni fyrir og það hlýtur að verða mikil viðbót við þeirra starf að geta ráðið öllum þeim nemendum, sem í þessum sporum lenda, heilt. Því langar mig til þess að spyrja menntmrh. hvernig þetta skuli framkvæmt og hvort fjölgað verði námsráðgjöfum eins og lítur út fyrir að þurfi
að gera.
    Á þessu stigi málsins ætla ég ekki að ræða þetta mikið lengur. Það gefst tækifæri til þess í nefndinni og síðan aftur í síðari umræðum. En ég ítreka það sem ég sagði í upphafi að ástæðan fyrir því að fulltrúi Kvennalistans studdi þetta ekki í Ed., og ég á frekar von á því að við munum fara að því dæmi í Nd., var að ekki var hægt að leita sjónarmiða þess fólks sem á að búa við þessi lög og starfa eftir þeim. Margar þær breytingar sem hér eru lagðar til snerta einmitt starf kennara mjög mikið og er því með öllu óeðlilegt að hraða þessu máli, eins og nú er ætlunin, án þess að geta haft eðlileg samráð við þá. Við erum þess

fullvissar að það mundi tryggja framgang þessa máls betur og hraðar ef beðið væri haustsins. Sjálfsagt yrði ekki erfitt að koma málinu þá í gegn með þeim hraða sem til þyrfti.