Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég var einn um það að greiða atkvæði gegn ákveðnum greinum frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og mér þykir skylt að koma hér upp nú og þakka hv. félmn. Nd. fyrir að hafa breytt frv. mikið frá því að það var afgreitt frá hv. Ed. Það er af og frá að það séu aðeins orðalagsbreytingar heldur eru það sem betur fer nokkrar og góðar efnisbreytingar.
    Þar er sérstaklega um að ræða breytingar í sambandi við tónlistarskólana og breytingar í sambandi við dagvistarmálin. Ég veit ekki hvort ég á að orða það þannig að hv. félmn. Nd. hafi ekki treyst sveitarstjórnarmönnum eins vel og hv. þm . Ed., en staðreyndin er sú að breytingar þær sem gerðar hafa verið á frv. í Nd. eru á þann veg að mér finnst frv., eins og segir í nál. hv. félmn. þessarar hv. deildar, mikið ásættanlegra eftir þær breytingar en það var þegar það fór frá okkur héðan til Nd.
    Ég vil þó segja að ég hefði viljað að þar hefði verið meira að gert í sambandi við tónlistarskólana og einnig með dagvistunarstofnanirnar, en breytingarnar eru á þann veg að opinbert og eðlilegt eftirlit verður haft með þessum greinum báðum þannig að það megi treysta því að kennslan og framkvæmd þessara þátta verði á þann veg að hún verði svipuð alls staðar á landinu og þá innan ákveðinna marka og reglna sem opinberir aðilar setja. Ég undirstrika að ég hef alltaf treyst sveitarstjórnarmönnum vel og geri enn, en ég tel að einmitt þessar breytingar, sem gefa möguleika til þess að fá reglur um það hvernig þessir þættir skuli vera, séu mjög af hinu góða.
    Ég endurtek að mér finnst að eins og frv. er núna sé það orðið mikið ásættanlegra en það var áður og að þær breytingar sem gerðar voru á frv. í Nd. séu mikið meira en orðalagsbreytingar. Þær eru þó nokkuð miklar efnisbreytingar.