Tekjustofnar sveitarfélaga
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Minni hl. hv. félmn. í Ed. skilar ekki sérstöku nál. og ég fyrir mitt leyti og við þingmenn Borgfl. í Ed. höfum ekki séð ástæðu til að leggja fram sérstaka brtt. Ég vil þó lýsa í stuttu máli skoðun minni á því atriði sem kemur fram á þskj. 1194, þeirri brtt. sem meiri hl. hv. félmn. leggur til. Ég er ekki sáttur við brtt. eins og hún lítur út. Ég hefði talið eðlilegast að það yrði greitt aðstöðugjald af rekstri bæði sláturhúsa og mjólkurbúa. Hins vegar skil ég vel þau sjónarmið og rökstuðning fyrir því að það sé óeðlilegt að hækka verð á hefðbundnum mjólkurafurðum með þeim hætti að leggja aðstöðugjald á starfsemi mjólkurbúa.
    Nú er kannski rétt að rifja upp að fyrir um hálfu öðru ári var mikið um það talað að skattheimta á vegum ríkisins og opinberra aðila ætti að vera réttlátari, einfaldari og skilvirkari. Það átti nánast að setja skatt á allt, en síðan átti ríkið að endurgreiða skatta ef ástæða þætti til með sérstökum ávísunum sem sendar væru beint til launþega einhvern tíma í ágúst. Helst átti að láta líta svo út að þær kæmu beint úr flokkssjóðum ákveðins stjórnmálaflokks sem ég ætla ekki að nefna hér. En hér er farin sú leið að undanþiggja starfsemi mjólkurbúa til að halda niðri búvöruverði, þ.e. hvað varðar mjólkurafurðir.
    Ég get að mörgu leyti fallist á þá röksemdafærslu. Hins vegar er ýmiss konar framleiðsla í mjólkurbúum sem ég tel að ætti skilyrðislaust að vera með aðstöðugjaldi og þar á ég við t.d. ísgerð, jógúrtframleiðslu og margt fleira, skyr blandað með alls kyns ávöxtum og þannig mætti lengi telja. Ég sé í sjálfu sér ekki neina ástæðu til að undanskilja þessa framleiðslu aðstöðugjaldsgreiðslum. Ég gæti hins vegar fallist á að vinnsla nýmjólkur, rjóma, undanrennu og mysu og þess háttar, súrmjólkur og skyrs, væri undanþegin aðstöðugjaldi, en þá fer að verða mjög erfitt að greina þarna á milli.
    Hvað varðar starfsemi sláturhúsa er líka það vandamál til staðar að í sláturhúsum getur farið fram margvísleg önnur starfsemi en bein slátrun búfjár og þar með væri fullt eins ástæða til að skilja frá þá starfsemi sláturhúsa sem ekki er eðlilegt að undanskilja aðstöðugjaldi. Þess vegna get ég ekki fallist á þessa brtt. eins og hún liggur fyrir, en mun að öðru leyti láta málið afskiptalaust.