Tekjustofnar sveitarfélaga
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég starfaði í þeirri nefnd sem undirbjó þetta frv. og þar voru nefndarmenn sammála um að jafna svo sem kostur væri aðstöðu sveitarfélaga til tekjujöfnunar, m.a. með því að undanþágur frá skattskyldu yrðu alveg í lágmarki. Nú hefur upphaflegu frv. verið breytt, og var breytt hér í hv. Ed., á þann hátt þegar það kemur frá Nd. nú að rekstur sláturhúsa er undanþeginn aðstöðugjaldi. Með þeirri brtt. sem hér liggur fyrir er lagt til að svo verði einnig hvað varðar framleiðslu mjólkur og mjólkurafurða í starfsemi mjólkurbúa. Báðar þessar undanþágur eru mjög ranglátar gagnvart viðkomandi sveitarfélögum og um leið er verið að hverfa frá þeirri meginstefnu, sem átti að vera í væntanlegum lögum um tekjustofna sveitarfélaga, að aðstaða sveitarfélaga til skattheimtu yrði jöfn, a.m.k. sem jöfnust.
    Því miður er það svo, og það er að koma í ljós, að það er ekki allt sem sýnist í sambandi við stöðu mjólkurbúa. Ef grannt er skoðað kemur nefnilega í ljós að mjólkurstöðvarnar greiða söluskatt og vörugjald til ríkisins af vélum og aðföngum sem sjávarútvegur og samkeppnisiðnaður greiðir ekki. Greinilegt er að við sem fjölluðum um tekjustofnafrv. áður en það var lagt fram á hv. Alþingi höfum unnið þar af nokkru kappi með jöfnunarþátt tekna fyrir sveitarfélögin efst í huga. Forsjáin gagnvart þeim fyrirtækjum sem við vildum leggja gjald á var kannski ekki eins mikil, hvorki hjá okkur í nefndinni né ráðuneytinu sem nefndarstarfið var unnið fyrir, en eðlilega hefðu átt að koma upplýsingar frá ráðuneytinu um stöðu þeirra fyrirtækja sem var verið að leggja til að ættu nú að bera þennan ákveðna skatt sem ekki hafði verið lagður á þær áður.
    Verkaskiptingar- og tekjustofnafrumvörpin eiga að vera, eins og margoft er búið að lýsa yfir á hátíðarsamkomum, til þess að gera skiptin milli sveitarfélaga og ríkisins hreinni. Til þess að svo verði, þegar þessi frv. verða orðin að lögum, þarf ríkið að hætta að mismuna fyrirtækjum í skattheimtu. Ég er að segja að til þess að við getum samþykkt að leggja aðstöðugjald á mjólkurframleiðslu og sveitarfélögin fái að njóta þeirra tekna sem af þeim mundu hljótast verður ríkið að hætta að skattleggja þessa atvinnugrein umfram aðrar. Það er fráleitt að íþyngja mjólkurframleiðslu í skattlagningu jafnvel þótt það sé réttlætismál þar sem þessi fyrirtæki hafa starfsemi sína að viðkomandi sveitarfélög fái af þeim aðstöðugjald líkt og af öðrum atvinnurekstri.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem oddviti Laxárdalshrepps, Sigurður Rúnar Friðjónsson, sem jafnframt er mjólkurbússtjóri í Búðardal, veitti mér nú fyrir hádegið veldur þessi aukaskattheimta á mjólkurbúin um 30% kostnaðarauka í sambandi við tækjakaup og að hluta til aðföng. Þannig kostaði átöppunarvél fyrir jógúrt, sem samlagið í Búðardal var nýbúið að kaupa, 600 þús. kr. meira en ef hún hefði verið keypt af sultuframleiðanda. Vélin kostaði samlagið í Búðardal 2,1 millj. kr., en sultugerð í samkeppnisiðnaði þyrfti aðeins að greiða 1,5 millj. kr.

fyrir sams konar átöppunarvél.
    Ég hef sem sagt skipt um skoðun frá því að ég vann að undirbúningi þessa frv. hvað varðar það að samþykkja nú þegar álagningu aðstöðugjalds til sveitarfélaga á fyrirtæki í mjólkurframleiðslu. Ástæðan er sú að á meðan ríkið innheimtir hjá þessum fyrirtækjum skatta umfram önnur í svipuðum rekstri er það ekki framkvæmanlegt. Ríkið verður að afleggja þessa skattheimtu til þess að sveitarfélögin geti náð rétti sínum.
    Fleira kemur reyndar til þegar málin eru skoðuð betur. Það er greinilegt að í sambandi við mjólkursamlögin á sér stað óeðlilega mikil tvísköttun aðstöðugjalds á þessa vöru. Mikill hluti t.d. framleiðslu mjólkurbús á Höfn í Hornafirði fer hingað suður til Reykjavíkur. Það er búið að vinna hana að ákveðnu marki á Höfn og á það er lagt aðstöðugjald. Aðstöðugjald mundi aftur verða lagt á sömu vöruna í sölu hér ef samþykkt yrði sú brtt. sem samþykkt var á frv. í Nd. Þarna er tvísköttun, margsköttun.
    Það er líka annað sem við þurfum að líta á þegar verið er að ræða um aðstöðugjald á mjólkurbúin við þær aðstæður sem þau búa við núna. Þegar ríkið skattleggur mjólkurbúin er verið að leggja á skatt fyrir ríkiskassann. Aftur á móti, ef við náum að leggja aðstöðugjald á fyrirtækin sem ég held enn fram að sé réttlætismál, erum við þá að halda skattpeningnum heima. Þess vegna verður --- og flm. þessarar brtt. í Nd., einn er hér a.m.k. staddur, þurfa að huga að að fá því breytt --- ríkið að hætta að skattleggja þessi fyrirtæki umfram það sem gert er við önnur fyrirtæki í svipuðum rekstri.
    Sjálfsagt kemur í ljós þegar verður farið að framkvæma þessi lög um tekjustofna sveitarfélaga að þar hefur kannski fleira verið unnið meira af kappi en forsjá en tillagan um að leggja aðstöðugjald á mjólkurbú, en vonandi veldur það ekki miklum skaða og vitaskuld er að því stefnt að leiðrétta það fljótt þótt það takist ekki við umfjöllunina. --- Ég vildi biðja hv. formann félmn. að vera hér í deildinni. ( MF: Ég er að hlusta á þig.) Ég tel að umfjöllun hv. félmn. í hv. deild hafi ekki verið sem skyldi og hún hafi að mörgu leyti verið betri í Nd., miklu betri jafnvel. En það sem ég held að hafi
þó verið sérstakt við umfjöllun þessa máls á hv. Alþingi er að á nefndarálitum, öðrum en þeim sem hér er lagt fram, er tekið fram að þeir sem hafi fjallað um þessi mál með nefndinni séu starfsmenn félmrn. Þessu máli hefur sem sagt verið ýtt áfram meira af kappi en forsjá á þann veg að það frv. sem búið var til af þeirri nefnd sem ég sat í og hef verið að tala hér um og ráðuneytinu skyldi fara sem mest óbreytt í gegnum hv. Alþingi. Ég held að það hafi verið ókostur við þá umfjöllun sem hér hefur átt sér stað. Þó að ég viðurkenni að frv. sem hér er verið að ræða um á lokastigi sé mjög mikið framfaraspor held ég að það hefði þurft betri umfjöllun í hv. Alþingi án þess að ráðuneytismenn sætu þar yfir og stjórnuðu raunverulega vinnu.
    Ég undirstrika að ég tel að sú lenska, sem komin

er upp meira og minna á hv. Alþingi, að ráðuneytismennirnir semji frv. og fylgi þeim síðan eftir í gegnum þingflokka og umræður í nefndum sé ekki af hinu góða. Það hlýtur að vera hægt að fá fleiri og aðra til að fjalla um þessi mál í nefndum en þá sem semja frumvörpin og eru að vinna sem slíkir að því að styðja sitt eigið málefni og sitt eigið afkvæmi og láta það breytast sem minnst.