Tekjustofnar sveitarfélaga
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Þetta er búin að vera nokkuð fróðleg umræða um þann skatt sem hér er mælt fyrir um, um aðstöðugjald til sveitarfélaga. Ég verð að taka undir orð síðasta ræðumanns að ég átti ekki von á að hæstv. sjútvrh. mundi koma upp í stólinn og lýsa því yfir að hann væri á móti skattheimtu af þessu tagi. Það hefur nefnilega verið þannig að þessi ríkisstjórn og sú síðasta sem sat hafa verið að tala um að skattar eigi að vera réttlátir og ná yfir alla línuna, ná til allrar starfsemi. Síðan áttu að koma styrkir frekar til þeirra aðila sem ríkið vill vernda til þess að mæta því tjóni sem sérstakir hópar eða þá fyrirtæki verða fyrir. En það gilda kannski önnur lögmál þegar um tekjustofna fyrir sveitarfélög er að ræða en ríkið. Málið er einfaldlega að sveitarfélög eru mjög mismunandi og tekjur þeirra koma fram við mjög mismunandi starfsemi. Það er allt annað í Reykjavík en í litlum sveitarfélögum úti á landi sem byggjast mikið á landbúnaði. Með því að fella niður þessa skattheimtu eða þá að hafa hana ekki eru möguleikar þeirra sveitarfélaga til þess að fá tekjur mjög rýrðir. Ég er því meðmæltur því að mjólkurbúum og sláturhúsum verði gert að greiða aðstöðugjöld eins og öðrum fyrirtækjum í þessu landi.
    Það er hins vegar greinilegt að ekki er meiri hluti fyrir því hér í hv. Ed. Þess vegna hef ég lagt fram brtt. ásamt Júlíusi Sólnes, sem yrði einhvers konar málamiðlun, er hljóðar svo:
    ,,Við 34. gr. C-liður síðari mgr. orðist svo:
    Starfsemi sláturhúsa og mjólkurbúa. Undanþága mjólkurbúa nær einungis til framleiðslu mjólkur`` --- og þá sleppt út úr ,,og mjólkurafurða``. --- ,,Undanþága sláturhúsa nær einungis til búfjárslátrunar.``
    Þarna er verið að koma því inn að það sé aðeins mjólk sem sé undanþegin aðstöðugjaldi en ekki mjólkurafurðir eins og jógúrt o.fl. Ég held að þarna sé málamiðlun sem menn geta fallist á út af því að mjólkin er sú vara sem flesta varðar um og neytendur sérstaklega og þá tekjulægstu hópana í þjóðfélaginu. Það er mjólkin sem skiptir hér höfuðmáli og það er einmitt það sem er verið að sjá um að hækki ekki.
    Ég verð að viðurkenna að ég hélt að ég ætti ekki eftir að mæla með því að skattleggja. En ég met meira sveitarfélögin í þessu sambandi en landbúnaðinn í heild og því vil ég að þessi skattur komist á með þeim rökstuðningi að ekki megi mismuna fyrirtækjum eftir því í hvaða rekstri þau eru.
    En ég legg fram þessa brtt. og ég vona að henni hafi annaðhvort verið dreift eða verði dreift.