Kosningar til Alþingis
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Herra forseti. Milli 2. og 3. umr. hefur allshn. fjallað nokkuð um frv. til l. um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, 416. mál, og ræddi þar nánar um framkvæmdaatriði þeirrar breytingar sem frv. felur í sér til þess að kveða skýrar á um þau. Eftir þá athugun ákvað nefndin að leggja fram nokkrar brtt. sem eru á þskj. 1196.
    Í fyrsta lagi er breyting við 1. gr., 3. lið, að bæta þar við: ,,sbr. 2. tölul. 15. gr.``, þ.e. að vísa í það hverja þarna er átt við. En það er nánar skýrt í 15. gr. með þeirri breytingu sem frv. gerir ráð fyrir.
    Síðan er brtt. við 2. gr. frv. sem er um 15. gr. laganna. Þar er í fyrsta lagi kveðið á um að það er Hagstofa Íslands sem skal hafa umsjón með þeirri skrá um íslenska ríkisborgara sem ekki eiga lögheimili hér á landi en óska eftir að eiga hér kosningarrétt. Það er óbreytt að þeir eru sjálfkrafa með kosningarrétt fyrstu átta árin en síðan þurfa þeir að sækja um og það skal gert til Hagstofu Íslands á sérstöku eyðublaði sem Hagstofan mun útbúa. Umsókn skal vera komin fyrir 1. des. ár hvert til þess að þeir verði teknir inn á kjörskrá næsta árs.
    Þá er enn fremur ákvæði um að umsókninni skuli fylgja yfirlýsing frá umsækjanda um að hann sé enn íslenskur ríkisborgari.
    Ef Hagstofa Íslands metur umsókn umsækjanda fullgilda skal hún setja nafn viðkomandi aðila inn á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem hann átti síðast lögheimili og tilkynna sveitarstjórn og svo umsækjanda sjálfum þá ákvörðun.
    Síðan kemur nýr 3. tölul. inn í 15. gr. laganna með nánari skýringum á þessum ákvæðum og um leið breytist númeraröð þannig að núv. 3. tölul. verður 4. tölul.
    Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að það eru fleiri breytingar sem þarf að gera á kosningalögunum, en ekki vannst tími til þess að ganga lengra en þetta og verður þess að vænta að breyting um það verði lögð fyrir næsta þing. Þar má benda á að nú virðist ekki lengur vera ástæða til að setja inn á kjörskrá þá sem verða 18 ára á því ári sem kosning fer fram, þ.e. það er ekki ástæða til að setja þá inn á hana sem ekki ná 18 ára aldrinum fyrr en eftir að kosningar fara fram. Einnig mun vera brýnt og reynslan hefur sýnt að það er brýnt að hægt sé að krefja menn um persónuskilríki áður en þeir greiða atkvæði.
    En með þeim breytingum sem ég hef gert hér grein fyrir í stuttu máli ítrekar nefndin stuðning sinn við frv.