Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér hefur verið til umræðu er ekki stórt mál ef maður lítur á það þannig, en það er stórt mál. Ég tek undir það sem hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan um afgreiðslu á þessu þingi og fyrri þingum á þeim fjármunum sem eru til skiptanna hjá ríkinu. Hér er verið að afgreiða mál sem kostar ríkið e.t.v. mörg hundruð milljónir. Það hefur áður verið afgreitt á þessu þingi töluvert mikið af lögum sem kosta ríkið hundruð milljóna og allt í allt mundi þetta ná kannski 2--3 milljörðum sem er verið að bæta við þau útgjöld sem þegar hafa verið ákveðin á fjárlögum og eru því ekki í samræmi við þau fjárlög sem hafa verið samþykkt á sl. hausti.
    Í þessu þjóðfélagi hefur verið hörð umræða um kjaramál og kjör opinberra starfsmanna. Í þeirri umræðu hefur hins vegar ekki komið fram hver er raunverulega meginkjarninn í þeirri baráttu. Hann er að verða sá að í ríkiskerfinu eru orðnir svo margir starfsmenn að það verður að halda niðri kjörunum. Þetta er nokkurs konar dulbúið atvinnuleysi. Ríkið er búið að sópa til sín fjármunum sem eru svo miklir að ekki er hægt að halda uppi launum í samræmi við það sem eðlilegt mætti teljast. Við erum að samþykkja hér eitt frv. til viðbótar sem þýðir að það verður minna til skiptanna, það verða minni fjármunir sem er hægt að greiða í kaup þeirra sem vinna hjá ríkinu. Ég hef oft spurt: Hvar á að taka þessa peninga? Þegar maður lítur á störf Alþingis virðist ríkisstjórnin ganga á undan með því að eyða fjármunum og ég held að forustumenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. ráðherrar, haldi að peningarnir vaxi á trjánum og þeir þurfi ekki annað en fara út og tína þá og þá sé allt í lagi.
    En það er komið að mörkum þess sem hinn almenni borgari og fyrirtækin þola í skattlagningu. Við höfum heyrt á undanförnum mánuðum hvernig samdráttur er á hinum almenna vinnumarkaði sem þýðir auðvitað að það verður lægra kaup sem verður greitt hvað sem öllu öðru líður, líka á þeim markaði. Það verður því að staldra hér við og ég held að það væri full ástæða til þess að öll frv. sem fælu í sér fjárútlát yrðu að fara fyrir fjvn. þingsins þar sem hún yrði að afgreiða þau með ábyrgum hætti þannig að ekki væri farið langt fram úr þeim fjárlögum sem eru samþykkt hverju sinni. Ég vildi taka undir þau orð sem hv. 2. þm. Vestf. hefur látið falla um þetta og held að við ættum að afgreiða færri mál á Alþingi hverju sinni en þó betur unnin.
    Þá vil ég taka undir það sem hv. 2. þm . Vestf. sagði um sýslumennina og gengisfellingu þeirra starfa sem er alveg hárrétt. Það er alveg ljóst að með samþykkt þessa frv. munu tekjur sýslumanna minnka allverulega og þau störf verða ekki jafneftirsóknarverð og þau hafa verið. Þetta er nokkuð ljóst. Ég held að það hljóti því að kalla á að við skoðum þessi mál með öðrum hætti en oft áður. Við verðum að standa ábyrgir í þinginu við að afgreiða mál og við getum ekki látið ríkisstjórnir hverju sinni henda í okkur hverju lagafrumvarpinu á fætur öðru sem þýðir meiri útgjöld. Þegar við í stjórnarandstöðunni höfum lagt

fram brtt. upp á kannski 10 millj. allt í allt segja hæstv. ráðherrar: Hvar ætlið þið að taka tekjurnar? Ég spyr aftur: Hvar ætla hæstv. ráðherrar að afla tekna fyrir þeim frv. sem hér hafa verið samþykkt undanfarnar vikur og hvar ætla þeir að bera niður í skattlagningu til þess að ná saman endunum hjá ríkinu?
    Ég er sannfærður um að fólkið í landinu er búið að fá nóg. Það vill að það verði stoppað við, ríkiskerfið verði ekki þanið út með þeim hætti sem nú er verið að gera. Fólkið vill jafnframt að ábyrg fjármálastjórn sé hjá þinginu og hjá ríkisstjórninni. Það er ekki nú. Það er óábyrgt eins og hér hefur komið fram þegar hent er inn hverju frv. á fætur öðru sem kostar hundruð milljóna og þýðir að ríkisútgjöldin vaxa allverulega fram úr því sem áætlað var með samþykkt fjárlaga. Það er óábyrgð afgreiðsla. Ég vil segja að hæstv. ráðherrar eru algerlega óábyrgir í stjórn ríkisins með þessum hætti. Hæstv. fjmrh. átti auðvitað að vera hér og segja álit sitt á kostnaði við frv. og leggja fram álit sitt með þeim hætti sem var eðlilegt. Það er algerlega út í loftið að samþykkja frumvörp fyrir utan ramma fjárlaga og í rauninni algerlega ólöglegt. Það varðar við stjórnarskrána að samþykkja hér fjárútlát sem eru ekki tekin inn á fjárlög og þýðir í rauninni að við erum að brjóta stjórnarskrána.
    Hér fluttu nokkrir þingmenn frv. til að laga stjórnarskrána. Þessir þingmenn ætla núna eins og oft áður að brjóta stjórnarskrána með þeim hætti að auka útgjöld ríkisins allverulega án þess að heimild sé til þess á fjárlögum. Það verður að hætta þessu því að stjórnarskráin verður ekki betri en þingmenn sem hér sitja og það er alveg sama hvað hún er með margar greinar og hvað hún er falleg og fín. Ef þingmennirnir fara ekki eftir henni og fara ekki eftir þeim lögum sem þeir eiga að fara eftir verður það svo að stjórnarskráin verður ekkert nema ómerkileg stjórnarskrá sem ekkert mark er takandi á.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni, en ég tel að þingmenn ættu að sameinast um að hafa ábyrga afstöðu í fjármálum og taka með fullri ábyrgð á því þegar þeir eru að auka útgjöld ríkisins með þeim hætti sem hér er og hefur verið í mörgum frv. hér undanfarið, stoppa þau af nema ríkisstjórnin geti lagt fram áætlun um frekari tekjuöflun sem hún er ábyggilega fús að gera því að það eina sem hún virðist sammála um er að leggja meiri skatta á fólkið. Því er ég ekki tilbúinn að taka þátt í.