Leigubifreiðar
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Benedikt Bogason:
    Herra forseti. Ég sé á öllu að brtt. sem síðasti ræðumaður fjallaði um eru allar meira eða minna að þoka þessu máli í rétta átt og er vel, en mér finnst engan veginn hafa verið tekið nægilega á ýmsum atriðum sem komu fram hérna í 1. umr. Þar kom fram að þetta er dálítið flókið mál og hefur margar hliðar og er kannski erfitt að fóta sig í þessu á nefndarfundum, en þar sem maður býst tæplega við að þetta komist alla leið í gegnum þingið núna ætla ég að láta nægja að benda á tvö atriði sem mér finnst að verði að taka á.
    Í 6. gr. er skilyrði um að menn séu fullgildir félagar í hlutaðeigandi stéttarfélagi. Eftir mínum skilningi eru bifreiðastjórar allflestir atvinnurekendur og það eru kannski 45--50% af veltunni sem eru laun til mannanna, eigendanna sjálfra, til bílstjóranna. Hins vegar eru líka til dæmi um að það eru menn sem starfa að því að keyra fyrir aðra og þá eru þeir sjálfsagt fyrst og fremst launþegar.
    Mér finnst að það þurfi að skoða þetta dæmi, vera ekki að setja þetta svona fram því þetta er ekki svona, enda eru til tvö félög. Það er til Frami hjá leigubílstjórunum og það er til gamla launþegafélagið, er mér tjáð, sem mig minnir að heiti Steinninn. Mér finnst að það þurfi að skoða þennan lið.
    Svo er það 7. gr. sem ég vil endilega benda á. Þar er í 3. línu: ,,Grundvöllur atvinnuleyfanna er að sérhver leyfihafi eigi fólksbifreið og hafi það að aðalatvinnu að aka henni sjálfur.`` Þetta ,,eigi`` hæfir ekki nútímastöðu í fjármögnun. Það eru ýmsir sem hafa farið út í að skaffa sér strax nýjar bifreiðir eða góðar bifreiðir og hafa þá orðið að fara m.a. út í að gera kaupleigusamninga. Þeir teljast þá ekki eiga bifreið fyrr en þeir eru búnir að fullnægja þeim samningi. Þetta hafa menn gert til að brjóta sig frá þeirri gömlu klassísku reglu að menn byrji á að kaupa útjaskaða gamla bíla og setja þá svo upp eftir því sem gengur. Þegar þetta er orðað þannig í lögum sé ég ekki betur en að verið sé að útiloka slíkan möguleika.
    Margt fleira væri verðugt að kanna betur í nefndum eins og hvernig fjölskyldan stendur eftir ef makinn fellur frá sem hefur ekið bifreið. Þau eru vissulega til bóta þau þrjú ár sem t.d. ekkja getur haft möguleika á að framlengja leyfið um. Ég mundi jafnvel vilja bæta við það að ef sérstakar ástæður væru fyrir hendi mætti framlengja um eitt ár í senn eftir það. Ég þekki svona dæmi. Það yrðu ábyggilega ekki mörg slík dæmi en einhver. Mér finnst það mannréttindamál að svipta fjölskylduna ekki algerlega þessum ævimöguleika við það að makinn fellur frá.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að segja meira um þetta að sinni.