Leigubifreiðar
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Í 5. gr. stendur, með leyfi forseta: ,,Á félagssvæði þar sem takmörkun er í gildi skulu bifreiðastjórar í sömu grein vera í sama stéttarfélagi.``
    Nú stendur þannig á að a.m.k. á einum stað eru tvö stéttarfélög vegna þess að bílstjórarnir á þessu svæði koma sér engan veginn saman. Mér finnst það vera langt gengið þar sem svo hagar til að það skuli eiga að skylda þá sem eru nú í sérstöku félagi til að sameinast í einu félagi. Það er eiginlega verið að taka þarna félagafrelsi af hópi manna sem mundi leiða til vandræða. Ég geri ráð fyrir því eða veit að nefndarmenn í hv. samgn. þekkja þetta mál og mér þykir eiginlega athyglisvert að þær aðstæður sem þarna liggja að baki skyldu ekki vera teknar til greina.
    Ég ætla ekki að ræða þetta frekar nú, en óska eftir því að tími gefist til þess á milli umræðna að ræða þetta mál til að koma í veg fyrir vandræði sem þarna munu skapast ef þetta stendur eins og það er í frv.