Leigubifreiðar
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Frsm. samgn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Vegna þeirra ábendinga sem hér hafa komið fram hjá tveimur hv. ræðumönnum sem hafa tjáð sig við umræðuna um frv. og nál. vil ég segja nokkur orð.
    Hv. 16. þm. Reykv. Benedikt Bogason vék að ákvæði 6. gr. Hann vísaði til ákvæða um stéttarfélög eða félagssvæði, hefur e.t.v. átt við 5. gr. samkvæmt frv. (Gripið fram í.) --- og einnig hana. Hv. þm. Stefán Valgeirsson vék að sama atriði í sínu máli hér. Um þessi efni fjallaði nefndin á fundum sínum sem voru allmargir og hún hafði vitneskju um þann ágreining sem er uppi í einu byggðarlagi á landinu í sambandi við skipan stéttarfélaga í tengslum við vörubifreiðaakstur, að ég hygg, og í sambandi við fólksbílaakstur. Um þessi efni er að finna að því er snýr að 1. gr. í III. kafla sem varðar takmörkun sérstakt ákvæði til bráðabirgða sem er svofellt eftir breytingu sem nefndin gerir á því:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga þessara er heimilt að láta aðra skipan mála haldast til bráðabirgða``, stóð í frv., en nefndin leggur til að það verði að haldast um allt að tveggja ára skeið á tilteknu svæði eftir nánari fyrirmælum í reglugerð.
    Þetta bráðabirgðaákvæði snýr einmitt að því efni sem hv. þm. vék að. Með því að kveða á um tímamörk af hálfu nefndarinnar er haft í huga að þessi aðlögunartími verði notaður til þess að leysa þann ágreining sem uppi er, annaðhvort með samkomulagi eða eftir öðrum leiðum ef ekki tekst samkomulag. Það almenna viðhorf ríkti í nefndinni, er mér óhætt að fullyrða, að eðlilegt sé að það haldist í hendur réttindi og skyldur í sambandi við leiguakstur. Þeir sem fá atvinnuleyfi með takmörkunum taki einnig á sig ákveðnar skyldur og það sé nauðsynlegt að fela viðkomandi stéttarfélagi meðferð mála fyrir hönd sinna umbjóðenda til þess að unnt sé að koma þeirri skipan á þjónustuna sem æskileg er frá viðhorfi neytandans, svo og frá sjónarhóli þeirra sem þessi störf stunda, hvort sem talað er um atvinnurekstur eða launþegastörf, þannig að þeir megi hafa af þeim framfæri og viðunandi tekjur. Þessi atriði sem snúa að því að leggja kvaðir á þá sem fá atvinnuleyfi og gangast undir takmarkanir, að þeir sinni neytendaþjónustu, koma einnig fram í 3. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir því að viðkomandi skipuleggi starfsemina í samráði við stéttarfélög sín. Þetta á sérstaklega við fólksbifreiðaakstur, leiguakstur á fólksbílum, til þess að tryggja þjónustu. Á þetta leggur nefndin sérstaka áherslu í áliti sínu.
    Það kom vissulega til umræðu og athugunar af hálfu nefndarinnar hvort eitthvert álitamál gæti verið hér uppi að því er snertir stjórnarskrárbundin réttindi, þ.e. að skylda menn til aðildar að stéttarfélagi í sambandi við leiguakstur. Það álit lá fyrir nefndinni frá tilkvöddum aðila, Þorgeiri Örlygssyni, sem var beðinn að líta á þetta mál, að vísu með mjög stuttum fyrirvara, en það álit hans lá fyrir að hér væri ekki verið að ganga neitt nærri ákvæðum stjórnarskrárinnar í sambandi við félagafrelsi eða önnur atriði og vísað

var til ýmissa ákvæða í lögum um önnur efni sem telja má nokkrar hliðstæður í sambandi við þetta. Nú ætla ég ekki að fara að kveða upp neina úrskurði í því efni, en nefndin hafði þetta vissulega til athugunar og íhugunar. Hitt er ljóst að greindar meiningar geta verið um mál af þessum toga og nefndinni var kunnugt um sjónarmið lögmanns sem hefur til athugunar hagsmuni annars þess félags bifreiðastjóra sem starfar að ég hygg í Keflavík, kannske nágrenni, var kunnugt um að þar liggja önnur sjónarmið fyrir.
    Með tilliti til alls þessa taldi nefndin rétt að kveða á með þeim hætti sem hér liggur fyrir og hafa það bráðabirgðaákvæði með tveggja ára aðlögunartíma til þess að aðilum gefist ráðrúm til þess að koma sér saman um mál eða leita réttar síns með öðrum hætti ef ástæður bjóða.
    Í sambandi við það atriði í 7. gr. sem hv. þm. Benedikt Bogason vék að, að óeðlilegt væri að leggja þá kvöð á leyfishafa að hann eigi fólkbifreið og það mætti hugsa sér að menn væru að afla sér slíks tækis með kaupleigusamningi eða öðru slíku, þá getur það vissulega verið álitaefni hvað eigi að lögbjóða í þeim málum. En ég held að það sé að mörgu leyti góð regla í rekstri af þessu tagi að viðkomandi sé eigandi þess tækis sem hann notar í sambandi við sína þjónustu og hafa ýmsir ekki auðgast mikið á því að fara út í kaupleiguviðskipti í sambandi við smárekstur af ýmsu tagi þó margt af því hafi vissulega lukkast. Þetta getur verið álitaefni eins og fleira í máli af þessu tagi, en fyrir nefndinni lágu engar óskir frá samtökum leigubílstjóra um það að breyta þessu ákvæði. Ég tek það skýrt fram. Það lágu engar óskir eða ábendingar fyrir um þetta atriði og það var ekki skoðað sérstaklega af nefndinni. Það er kannski af þeim sökum sérstaklega að engir tóku það upp sem álitaefni.
    Ég held að óhætt sé að fullyrða að samtök leigubifreiðastjóra á fólksbifreiðum leggja ríka áherslu á afgreiðslu þessa máls og telja það mjög þýðingarmikið að málið nái fram að ganga. Ég hygg að það liggi fyrir að forusta Bifreiðastjórafélagsins Frama telur frv. eins og það liggur hér fyrir
ásættanlegt og er mjög áfram um að það megi takast að lögfesta þetta mál nú á þessu þingi. Ég held að menn hafi nú unnið annað og meira og vandasamara en að koma frá sér máli af þessu tagi þó að ég viðurkenni vissulega að ef á að ljúka þingi á allra næstu dögum er skammur tími sem hv. Ed. sérstaklega er ætlaður til þess að fjalla um þetta mál.
    Varðandi að lokum, virðulegi forseti, það atriði sem snýr að mökum leyfishafa hefur nefndin breytt verulega frá því sem var í frv. til rýmkunar þar sem lagt er til að framlenging geti orðið allt að þrjú ár í stað eins árs sem var samkvæmt frv. Mér sýnist að þar sé vel komið til móts við þá sem missa maka, sem hefur stundað þennan rekstur, til þess að tryggja sinn hag eftir bestu föngum. Þetta er í rauninni hliðstætt því ákvæði sem hefur verið í gildi um þessi mál þó að það kunni að vera að einhver aðlögun umfram þriggja ára tíma hafi verið stunduð í vissum

tilvikum.