Þingfararkaup alþingismanna
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Það er svo sem ekkert nýtt að málum sé ekki fylgt úr hlaði við 1. umr. í síðari deild. Það gerðist síðast í gær hér í hv. Nd. að þannig fór um fleiri en eitt mál, reyndar mál sem var til umræðu í þessari deild sem fyrri deild líka, að ekki var mælt fyrir því. Ég sakna þess hins vegar að ekki skuli talað fyrir þessu frv. um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna í síðari deildinni. Ég sakna þess vegna þess að mér finnst vanta frekari rökstuðning fyrir þessu máli en fram kemur í grg. með frv.
    Flm. í fyrri deild, hv. Ed., voru úr hópi forseta og varaforseta og reyndar einn þingflokksformaður. Forustuna hafði það hæstv. forseti Ed., Jón Helgason. Þetta sýnir að það hefur þótt töluvert mikið liggja við að sýna mikilvægi málsins þegar svo skrautlegur hópur flm. er á frv. En mér þykir í raun og veru verst að hv. þm. Ed. skuli ekki hafa málfrelsi í Nd. og mér finnst þetta vera ágætt dæmi um hversu nauðsynlegt er að koma Alþingi í eina málstofu. Það mundi vera mikið hagræði að því.
    Það má e.t.v. bæta úr þessu hér í hv. deild ef áhugamenn um framgang þessa frv. gæfu sig fram og töluðu í þessu máli. Ég sé í grg. að frv. er flutt í samráði við þá þingforseta sem sæti eiga í Nd. og ég tek það svo að þeir hljóti þá að vera nokkrir áhugamenn um framgang málsins. Ef þeir vildu skýra þetta mál betur út fyrir mér en gert er í grg. getur vel verið að svo færi að ég gæti hugsað mér að fylgja málinu. Það fer hins vegar eftir því hvað hér verður sagt frekar. Mér finnst þetta þurfa nánari skýringa við en koma fram í grg.
    Ég sakna alveg sérstaklega hæstv. forseta Sþ., Guðrúnar Helgadóttur, sem á sæti hérna í deildinni en er fjarverandi vegna dvalar erlendis. Hún hefur verið mjög ötull baráttumaður fyrir bættum kjörum alþingismanna og þess vegna kom mér svolítið á óvart að hún skyldi vera í hópi þeirra sem vilja plokka það af sem náðst hefur án þess að ég sé með þessu að segja að lögin um þingfararkaup séu svo góð að þeim mætti ekki breyta.
    En það vakna ýmsar spurningar þegar svona mál er lagt fram. Í 1. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Afsali þingmaður sér þingmennsku og hverfi til annarra launaðra starfa fellur réttur hans til biðlauna niður.``
    Það vakna sem sagt ýmsar spurningar þegar maður les þennan texta. Hvers vegna á réttur til biðlauna aðeins að falla niður til þingmanns sem hverfur til annarra starfa en afsalar sér þingmennsku? Hvers vegna á eitthvað annað að gilda ef kjósendur hafna frambjóðanda eða ef þingmaður fer ekki í framboð? Hvaða reginmunur er á þessu? Mig langar til að fá nánari skýringar. Og ég spyr líka: Hvers vegna er verið að breyta þessum ákvæðum að því er varðar þingmenn en ekki ráðherra? Ég veit að skæðar tungur hafa sagt að þetta kunni að hafa varðað hv. 1. flm. frv. sem var nýbúinn að þiggja sex mánaða biðlaun sem ráðherra þegar hann flytur þetta frv. og þykir mér

vont að geta ekki átt orðastað við hann beint. Kannski hefði ég haft gaman af að heyra í hæstv. fjmrh. sem er að vísu ekki þingmaður nú. Því hefur verið haldið fram að þegar hann fór af Alþingi, þegar hann féll í kosningum, hafi hann þegið þriggja mánaða biðlaun og farið beint inn í launað starf í Háskólanum. Þessu hefur verið haldið fram. Því hefur a.m.k. ekki verið mótmælt af hæstv. fjmrh. að svo hafi verið. Þess vegna finnst mér vanta þarna skýringu líka.
    Ég spyr líka: Hvers vegna liggur svo á að keyra þetta frv. í gegn núna? Hvað liggur svona á? Hverja kemur þetta til með að hitta? Ef frv. hefði fengið greiðari leið í gegnum þingið hefði þetta kannski komið í veg fyrir að núv. sendiherra okkar í Frakklandi, Albert Guðmundsson, hefði fengið biðlaun.
    Eins og málum er háttað núna sýnist mér að þetta muni hitta einn þingmann og það er hæstv. forseti þessarar deildar, Kjartan Jóhannsson. Það liggur fyrir að hann muni segja af sér þingmennsku alveg á næstunni og hverfa til annarra launaðra starfa þegar í stað. Ég veit ekki um aðra. En það má vel vera að þegar hafi verið ákveðnar einhverjar frekari hrókeringar í utanríkisþjónustunni sem taki gildi strax í sumar þannig að það kunni fleiri þingmenn að verða fyrir þessu en hæstv. forseti þessarar deildar, Kjartan Jóhannsson. Ég spyr þess vegna: Er þessu aðeins stefnt gegn honum? Þarf þess vegna að keyra þetta mál í gegnum þingið einmitt núna? Og ég spyr: Hvers vegna má þetta ekki bíða?
    Mér finnst vera einhver ólykt af þessu máli. Það er hlaupið upp til handa og fóta vegna þess að fjölmiðlar hafa fundið út að fyrrv. þingmaður Sverrir Hermannsson hefur þegið biðlaun og það ákvað ekki skrifstofa Alþingis eða forsetar þingsins, eins og komið hefur fram, nema vegna þess að þeir leituðu umsagnar virts lögfræðings, reyndar umboðsmanns Alþingis, um það hvernig ætti að túlka lögin. Það varð töluvert mál í fjölmiðlum að þingmaður sem sagði af sér og hvarf til launaðra starfa þegar í stað skyldi þiggja biðlaun. Það má hins vegar vel vera að mönnum þyki þetta minna mál núna eftir að komið er á daginn að stjórnarformaður í fyrirtæki sem ríkið á töluverðan hlut í, Sambandið, og fleiri góðir aðilar, þiggur 2,9 millj. í eftirlaun en er þó ekki hættur og virðist hafa mjög mikið starfsþrek miðað við launin sem hann hefur í
viðkomandi fyrirtæki. Það kann vel að vera að þetta hafi áhrif á einhverja og þeir hugsi sem svo að þetta sé ekki mál til þess að eyða miklum tíma í hér í þinginu.
    Ég gagnrýni sem sagt flutning frv. nú af þeim ástæðum sem ég hef hér talið upp. Þessu virðist eins og þetta horfir við okkur núna vera stefnt gegn einum manni af því að það er komið fram yfir þann tíma sem hefði dugað til að koma í veg fyrir að Albert Guðmundsson fengi biðlaunin og ég sé þess vegna ekki hvað liggur á með þetta.
    Mér finnst hins vegar ástæða til að endurskoða lögin um þingfararkaup alþingismanna. Það er full ástæða til þess að endurskoða þau í heild. Þess vegna

fyndist mér ástæða til að biðja þá hv. þingnefnd sem fær þetta mál til meðferðar, það er að vísu engin tillaga komin fram um til hvaða nefndar þetta mál á að fara, --- ég mundi ætla án þess að ég ætli að leggja það til því að mér kemur þetta ekkert við að það ætti að fara til fjh.- og viðskn. --- að skoða þetta mál betur en hún virðist hafa tíma til miðað við að þingstörfum ljúki hér annaðhvort fyrir þessa helgi eða þá í næstu viku, ég ætla ekkert að fullyrða um það. Þá væri ekki úr vegi fyrir hv. nefnd að hún legði það niður fyrir sér með hvaða hætti menn hverfa frá þingstörfum.
    Mér sýnist til þess geta legið fjórar ástæður: menn segja af sér, menn falla í kosningum, menn fara ekki í framboð og menn andast. Þrennt af þessu, það fyrstnefnda, skiptir máli um hvort menn eigi að njóta biðlauna. Ég bið sem sagt hv. þingnefnd að skoða það vel hvaða reginmunur felist í því að mönnum sé neitað um biðlaun ef þeir segja af sér eða ef þeir falla og í báðum tilvikunum hverfi þeir þegar í stað til launaðra starfa. Það verður að rökstyðja það betur fyrir mér hvers vegna sá sem segir af sér á ekki að njóta biðlauna en sá sem fellur á að gera það þó að hann hverfi til launaðra starfa þegar í stað eins og við höfu dæmin um og ég hef þegar rakið. Hver er þessi reginmunur sem kallar á að þetta frv. verði samþykkt?
    Ég sagði áðan að mér þætti ástæða til þess fyrir Alþingi að lögin um þingfararkaup alþingismanna verði endurskoðuð. Ég nefni sem dæmi að það hefur ýmislegt komið upp á sem kallar á þessa endurskoðun og varðar t.d. lífeyrissjóðsréttindi alþingismanna. Það er eitt með öðru sem kallar hér á endurskoðun.
    Ég mælist til þess og ítreka að sú nefnd sem fær þetta mál til athugunar kanni þetta mál allt frá grunni og mér sýnist að það skynsamlegasta sem nefndin gæti gert væri að beina þeim tilmælum til hæstv. forseta Alþingis að þeir láti fara fram endurskoðun á lögum um þingfararkaup alþingismanna fyrir næsta Alþingi. Það þarf ekki að samþykkja neina tillögu í þinginu til þess að svo verði gert. Þingforsetar hafa í hendi sér að gera slíkt. Ef á það ráð yrði brugðið þyrfti nefndin ekki að gera annað en tjá þá skoðun sína hér á þingfundi áður en við ljúkum störfum.