Þingfararkaup alþingismanna
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Sighvatur Björgvinsson:
    Herra forseti. Það er ekki minn skilningur að hér sé verið að hreyfa máli sem stefnt sé gegn einhverjum tilteknum einstaklingum, hvorki þeim sem á þingi sitja nú né hinum sem hafa á þingi setið en hætt af einhverjum ástæðum. Þetta mál kemur upp vegna atvika sem gerast og orkar tvímælis í hugum margra þingmanna að hafi verið takmarkið með þessri lagasetningu á sínum tíma.
    Ég átti hlut að því að semja frv. sem síðar varð að lögum um þingfararkaup og ég get ekki talað fyrir aðra en mig, en þegar ég var við að semja það frv. sem síðar varð að lögum verð ég að segja eins og er að ég gerði ekki ráð fyrir því að maður sem hyrfi að eigin frumkvæði af Alþingi, segði af sér þingmennsku og tæki við öðru starfi á vegum íslenska ríkisins, hvort sem það er í ríkisbanka eða í sendiráði eða einhvers staðar annars staðar, tæki með sér 3--6 mánaða biðlaun frá Alþingi. Það var ekki minn skilningur að sá væri tilgangurinn með ákvæðinu um biðlaun þingmanna sem sett var inn nýtt við síðustu endurskoðun á lögum um þingfararkaup. ( ÓE: Hver var skilningurinn?) Ég vona að mér verði fyrirgefið þó að ég nefni eitt nafn sem kemur í hug mér. Það er Björn heitinn Jónsson fyrrv. ráðherra. Sama dag og hann náði ekki endurkjöri eftir margra ára setu á Alþingi gerðist það að hann missti launin og varð launalaus frá og með þeim degi þegar kosningar höfðu gengið. Miðað við almenna starfshætti í okkar þjóðfélagi var þetta óeðlilegt því að maðurinn átti ekki einu sinni kröfu til þess að fá það orlof greitt sem hann hafði unnið sér inn á orlofstímabilinu, jafnvel þó svo að það væru landslög að það bæri að greiða öllum launamönnum orlof án tillits til starfa þeirra. Sem dæmi enn um það má nefna að varaþingmenn sem koma inn á Alþingi eru sennilega einu launamennirnir á Íslandi sem ekki fá greidda orlofsprósentu ofan á sín laun þó að það séu lög í landinu sem segja að það skuli fortakslaust greiða öllum launamönnum orlof á sín laun. Þau eru greidd í fríum hjá fastráðnu starfsfólki en annars í ákveðnum álagsprósentum samkvæmt tilteknum reglum sem eru mismunandi í samningum hinna ýmsu félaga gagnvart þeim sem eru að vinnu um stundarsakir. Það gildir hins vegar ekki um varaþingmenn þannig að varaþingmaður, sem mundi setjast inn á Alþingi í veikindaforföllum aðalþingmanns og gæti setið á Alþingi í hálft ár eða rúmlega það og yrði að láta af öðrum störfum í þjóðfélaginu á meðan, glatar á þessu hálfa ári öllum orlofsrétti þannig að hann fær ekkert orlof greitt fyrir hálfs árs setu sína hér á Alþingi. Alþingi sjálft fer ekki einu sinni í þessum efnum eftir lögum sem það setur og eiga að gilda um alla aðra þegna í þjóðfélaginu.
    Þetta var ástæðan fyrir því, dæmið sem ég nefndi áðan, að mönnum þótti rétt að taka upp biðlaunagreiðslur fyrir alþingismenn. En a.m.k. fyrir mig fullyrði ég að það var aldrei minn skilningur að það væri gert til þess að menn sem að eigin frumkvæði hyrfu frá störfum á Alþingi til annarra

starfa, t.d. á vegum hins opinbera, sem eru mun betur launuð en þingsetan, gætu tekið með sér af þinginu allt upp í sex mánaða biðlaun. Vegna þess að þessi dæmi komu upp nýverið var þessu máli hreyft til þess að fá úr því skorið hvort þetta sé réttur skilningur á vilja löggjafans. Var það þetta sem vakti fyrir löggjafanum eða eitthvað allt annað? Var það að alþingismenn gætu tekið með sér þau biðlaun sem þeir hafa rétt til samkvæmt lögunum þó að menn að eigin frumkvæði hverfi frá störfum á Alþingi Íslendinga og til annarra launaðra starfa?
    Menn skulu átta sig á því að þetta eru biðlaun og eðli biðlauna er að sjálfsögðu launagreiðslur til þess sem bíður einhvers. Hvers bíður maður sem horfið hefur af Alþingi og til starfa t.d. í ríkisbanka eða í eitthvert sendiráðið? Hvers er hann að bíða þetta sex eða þriggja mánaða tímabil sem hann hlýtur biðlaun frá Alþingi til viðbótar við sín laun frá ríkisvaldinu eða stofnunum þess? Hann er þá að bíða eftir því að biðlaunatíminn renni út. Bið hans er ekki eftir neinu öðru. Finnst mönnum eðlilegt að greiða kaup fyrir það eitt að bíða eftir því að tíminn líði? Það finnst mér ekki. Hins vegar á slíkur starfsmaður að sjálfsögðu eins og hver annar starfsmaður rétt á því að mínu viti að fá greiðslur samkvæmt þeim orlofsrétti sem hann hefur áunnið sér samkvæmt landslögum, en ég tel það ekki réttan skilning á þeirri lagasetningu sem ég stóð að á sínum tíma að hann eigi þá kröfu sem ég hef hér verið að lýsa.
    Auðvitað geta aðrir sem komu að þeirri lagasetningu haft aðrar skoðanir á málinu og þeir þingmenn sem hafa horfið af Alþingi síðan og ekki komið nálægt þeim lagasetningum geta einnig haft sínar skoðanir á málinu. Það sem verið er að biðja Alþingi um er einfaldlega að skera úr um hver skilningurinn skuli vera.
    En ég vek einnig athygli á því, herra forseti, að svo undarlega vill til að þetta mál, biðlaun þingmanna, hefur verið eitt aðalumræðuefnið hjá fjölmiðlum að undanförnu án þess að menn séu að gera sér neina rellu út af því að hve miklu leyti þessar biðlaunagreiðslur samræmast því kerfi sem almennt gengur hjá ríkinu í sambandi við sambærilegar greiðslur. T.d. ætla ég að nefna það, sem ég býst við að flestir viti þó að fjölmiðlarnir virðist hafa takmarkaðan áhuga á því þar sem það snertir ekki stofnunina Alþingi, að ég veit ekki betur
en fyrrverandi starfsmenn Bifreiðaeftirlits ríkisins sem hættu störfum um síðustu áramót og réðu sig umsvifalaust til starfa hjá sambærilegu fyrirtæki, Bifreiðaskoðun Íslands hf., þannig að þeir héldu áfram nánast í sama starfi, skiptu bara um vinnuveitanda af því að Bifreiðaeftirlit ríkisins var lagt niður en Bifreiðaskoðun Íslands hf. tók við, telji sig eiga rétt á að fá heils árs biðlaun greidd úr ríkissjóði og hafi gert kröfu um það. Þegar ég vissi síðast var ekki búið að útkljá það ágreiningsefni hvort það væri réttur skilningur þeirra eða ekki, en með þeim heimildum sem ég hafði, ég skal viðurkenna að það eru liðnar nokkrar vikur síðan ég hafði síðast spurnir af þessu,

voru allar horfur á því að ríkissjóður mundi þurfa að greiða þessum starfsmönnum heils árs laun jafnvel þó svo að þeir hefðu horfið úr starfi frá Bifreiðaeftirliti ríkisins yfir til sambærilegra starfa hjá Bifreiðaskoðun Íslands hf.
    Fjölmiðlar eru gjarnan fljótir að hlaupa upp til handa og fóta ef eitthvað varðar Alþingi eða alþingismenn, en jafnvel þó að þetta hafi komið fram oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hafa þeir engan áhuga á að benda á slíkt eða fjalla um það eða spyrja hvort slíkar greiðslur séu eðlilegar. Með sama hætti hafa þeir engan áhuga á því að svo mikið sem skýra frá því, sem kom þó fram um síðustu áramót, að á liðnu ári höfðu laun alþingismanna hækkað um innan við 7% á sama tíma og laun fjölmargra annarra starfsstétta í þjónustu hins opinbera höfðu hækkað milli 35 og 40%. Ég gerði þá tilraun að gamni mínu í umræðum um fjárlög að skýra frá þessu og athuga hvort einhver fjölmiðillinn hefði áhuga á að skýra frá þessu. Ekki einn einasti þeirra, hvorki ljósvakafjölmiðill né prentfjölmiðill, hafði neinn áhuga á að skýra frá þessu. Ef hlutfallið hefði hins vegar verið öfugt, ef alþingismenn hefðu hækkað um 30--40% í launum á sama tíma og aðrir ríkisstarfsmenn, margir hverjir, hefðu ekki hækkað nema um 7%, hefði um fátt annað verið meira rætt í ljósvakafjölmiðlunum eða prentfjölmiðlunum vikuna þá og mánuðinn þann og þá býst ég við að þeir alþingismenn sem eru hræddastir um sjálfa sig og sína æru og sitt álit gagnvart fjölmiðlunum hefðu staðið í röðum í ræðustólnum til að lýsa hneykslun sinni á þessu atferli.
    Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir með mönnum hér að það er ástæða til að skoða þessi mál í samhengi, skoða lögin um þingfararkaup alþingismanna og samræma ýmislegt þar því sem gengur og gerist hjá öðrum starfsmönnum ríkisins því það er fráleitt, og er ég alveg sannfærður um að fjölmiðlar hafa ekki minnsta áhuga á því heldur, en það er engu að síður alveg fráleitt að alþingismenn sem eru í opinberum erindum starfs síns vegna á ferðum innan lands þurfi að búa við allt aðrar og þrengri reglur um ferðakostnað og endurgeiðslu hans en starfsmenn Alþingis sem ekki eru alþingismenn og starfsmenn ríkisins og ríkisstofnana. En þannig er þetta. Alþingismenn sem eru í ferðum starfs síns vegna innan lands fá u.þ.b. þriðjung til helming endurgreiðslu ferðakostnaðar viðurkenndan miðað við það sem ríkisskattstjóri metur sem lágmark endurgreiðslu og miðað við það sem er lágmarksendurgreiðsla samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna. Þarna eru þingmenn með um þriðjung til helming af endurgreiðslum miðað við starfsmenn hins opinbera og miðað við starfsmenn þessarar stofnunar. Færu alþingismaður og starfsmaður Alþingis saman í embættiserindum t.d. norður á Akureyri fengi starfsmaður Alþingis endurgreiddan meira en tvöfaldan ferðakostnað á við það sem þingmaðurinn fengi. Auðvitað hafa fjölmiðlar engan áhuga á þessu því að þetta er ekki líklegt til að grafa

undan virðingu Alþingis í áliti þjóðarinnar. Þeir hafa ekki áhuga á öðrum fréttum frá þinginu sem stofnun en þeim sem eru líklegar til þess.